Nýtt ,,kynfræðsluefni" í grunnskólum landsins er ekki bara ósiðlegt og óboðlegt heldur einnig ólöglegt. Með yfirlýsingum og greinum reyna yfirvöld og talsmenn kennara að berja niður gagnrýni. Nauðalendingin í þeim efnum er að ásaka alla um hatursfulla umræðu gegn hinsegifólki sem gagnrýna að óviðurkvæmilegt og óásættanlegt námsefni sé borið á borð fyrir saklaus börn. Síðastnefnd aðferð er dæmi um það sem á ensku er nefnt "red herring" þ.e. tálbeita til að leiða umræðu á villigötur, fram hjá kjarna málsins. Viðleitni til að stimpla lögmæta og málefnalega gagnrýni sem ,,hatur", í því skyni að framkalla hlýðni, veitir innsýn í mögulega framtíð aðgerðaáætlunar forsætisráðherra um hatursorðræðu þar sem engum leyfist lengur að andæfa eða víkja frá þeirri línu sem stjórnvöld hafa markað.
Kjarni málsins er sá að siðmenntuð samfélög hafa ávallt veitt börnum aukna og sérstaka vernd. Hérlendis á þetta sér stoð í stjórnarskrá, barnaverndarlögum og alþjóðlegum sáttmálum þar að lútandi enda eru börn sérstaklega viðkvæm (og dýrmæt). Af þessari sérstöku áherslu laga leiðir að ráðamönnum, embættismönnum og opinberum stofnunum samfélagsins ber að virða og vernda börn í hvívetna, bæði í stjórnsýslu og lagaframkvæmd. Í því felst nánar að tryggja ber að hagsmunir barnanna séu í fyrirrúmi og að það sem börnum er fyrir bestu skuli ávallt haft í forgangi. Ákvarðanir stjórnvalda mega samkvæmt þessu ekki ganga gegn gildandi lögum og reglum um barnavernd. Þetta gildir sérstaklega ef lög lýsa tiltekið framferði gagnvart barni refsivert.
Samkvæmt 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er það m.a. lýst refsivert að framleiða eða flytja inn, aflar sér eða öðrum, dreifa eða hafa í vörslum sínum myndefni sem sýnir kynferðislega misnotkun á barni eða sýnir barn á kynferðislegan hátt og geta viðurlög orðið fangelsi allt að 6 árum. Í 209. gr. tilvitnaðra laga er svo tekið fram að hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum.
Strax í 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 kemur skýrlega fram m.a. að börn eiga rétt á vernd og umönnun. Þau skulu njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska.
Allir sem hafa uppeldi og umönnun barna með höndum skulu sýna þeim virðingu og umhyggju og óheimilt er með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Ber m.a. ávallt að sýna börnum umhyggju og nærfærni. Í 4. gr. sömu laga eru tilgreindar meginreglur viðvíkjandi barnaverndarstarfi og er rauði þráðurinn þar sérstök vernd og virðing barna og hagsmuna þeirra sem sérlega líkamlega og andlega viðkvæms samfélagshóps. Í 16. gr. og 17. gr. eru síðan ákvæði og reglur um m.a. tilkynningaskyldur þeirra sem starfa á vettvangi barna eða geta haft aðkomu þar að vegna vinnu sinnar, til að mynda starfslið grunnskóla eða aðrir þeir er starfa sinna vegna hafa aðkomu eins og ráðgjöf eða þjónustu viðvíkjandi þjónustu barna. Þessi tilkynningarskylda gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu samkvæmt niðurlagsákvæði 17. gr. barnaverndarlaga. Þá eru í XVIII kafla barnaverndarlaga sérstaklega tilgreind refsiákvæði viðvíkjandi brotum gegn börnum, þar á meðal tilkynningarskyldu o.fl. Í lögum um Menntamálastofnun nr. 91/2015 eru sömuleiðis ríkar verndarskyldur lagðar á forstjóra og starfsmenn þar með tilliti til m.a. barna, sbr. til að mynda 1. gr. þeirra laga og þar greindar tilvísanir. Einnig verður ekki litið undan ábyrgðarhlutverki fræðslu- og skólasviði sveitarfélag í þessu tilliti. Í samhengi við framangreinda löggjöf og refsiheimildir er og til að líta refsiákvæða XIV. hegningarlaga varðandi brot í opinberu starfi sérstaklega.
Veruleg líkindi má telja fyrir því að textar og myndir í svonefndu fræðsluriti sem gefið var út á vegum Menntamálastofnunar og hefur jafnframt verið tekið til notkunar í vissum grunnskólum landsins brjóti gegn gildandi barnaverndarlöggjöf landsins, þar með talið fyrrgreindum refsiákvæðum almennra hegningarlaga. Frammi fyrir því ber að taka til skoðunar ábyrgð þeirra sem stóðu að útgáfunni, þar á meðal forstjóra stofnunar menntamála sem og stjórnenda innan grunnskóla.
Athugasemdir
Hvaða heilvita manni datt í hug að klámvæða leik- og grunnskólana?
Júlíus Valsson, 19.9.2023 kl. 08:53
Er ekki ráð fyrir fólk sem telur þetta brjóta gegn lögum að fara einfaldlega í einkamál við Menntamálastofnun eða leita til umboðsmanns Alþingis út af þessu máli (væntanlega þyrfti þá að tilkynna efnið til barnaverndar og leita svo til ráðuneytis)? Ef myndefni í þessari er að sýna börn á kynferðislegan hátt þá er það siðferðisleg skylda fólks að tilkynna það til lögreglu. Hefur það verið gert? Er ekki ráð að leita til dómstóla og sjá hvort dómsvaldið styðji þessa það þessar lagagreinar eigi við?
Ásdís Bergþórsdóttir (IP-tala skráð) 19.9.2023 kl. 09:22
Kærar þakkir fyrir þessa færslu Arnar.
Kristinn Asgrimsson (IP-tala skráð) 19.9.2023 kl. 13:17
Spurning hvort ömmur og langömmu geti verið aðilar að málinu?
Ragnhildur Kolka, 19.9.2023 kl. 18:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.