22.9.2023 | 08:33
Hver ertu? Hvaðan kemurðu? Hvert ertu að fara?
Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá því að hingað til lands séu komnir EVE-Online spilarar frá 56 löndum. Fyrir 10 árum hitti ég nokkra glaðbeitta félaga sem hingað voru komnir á sambærilegan viðburð. Þetta voru virkilega geðþekkir og vingjarnlegir menn, sem tjáðu mér það í framhjáhlaupi að þeim gengi vel í leiknum og ættu þar ógrynni fjár og einhvers konar geimskip. Síðar í samtalinu kom fram að í raunheimum ættu þeir heima í hjólhýsum og keyrðu um á gömlum bílum. Oft hefur mér síðan verið hugsað til þessara ágætu manna þegar ég stend sjálfan mig (og aðra) að skakkri forgangsröðun. Væri ekki betra að rækta garðinn okkar í þessu lífi hér, en í sýndarveruleika tölvuleiks? Með sama hætti má út frá kristindómnum spyrja hvort líf okkar hér í þessum heimi sé sýndarveruleiki og nokkurs konar próf sem kemur til skoðunar í hinum sanna heimi, handan þessa lífs. Slíkar spurningar skipta máli og því ber að hrósa þeim þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins sem lagt hafa fram frumvarp um breytingu á lögum um grunnskóla, nánar tiltekið um kristinfræðikennslu. Kristin trú er snar þáttur í íslenskri og vestrænni menningu og ef skera á þessar rætur í burtu er hætt við að hinn vestræni heimur standi aðeins eftir sem afskorið blóm, sem dæmt er til að glata bæði lífi og lit. Með því að höggva á þessar rætur veikist mótstöðuafl Vesturlanda gegn alræðisógninni sem ávallt er yfirvofandi og hótar að svipta okkur lífi og frelsi. Abraham Lincoln er sagður hafa haft aðeins eina bók á náttborðinu, þ.e. Biblíuna, og allar ræður hans eru gegnsýrðar af tilvitnunum í hina helgu bók. Af handahófi má einnig nefna hér Edmund Burke (1729-1797)og nýja bók Samuel Burgess um þann kristilega grundvöll sem Burke byggði alla sína stjórnmálaheimspeki á.
Svo lengi sem sögur herma hefur fólk lifað lífi sínu í samhengi við umhverfið, menninguna, kynslóðirnar á undan (og eftir) og síðast en ekki síst trúarvitund og lifandi trúarhefðir. Nútíminn færir okkur annars konar skilaboð, um yfirborðslegt og afbakað frelsi. Í því felst að við séum óbundin af hefðum, að við rjúfum tengsl við það sem íþyngir okkur á einhvern hátt, slítum okkur úr samhengi við þá sögu eða menningu sem við erum sprottin úr. Alvarlegasta hættan er þó kannski sú að við slítum sambandið við okkar innra sjálf, við samvisku okkar og sálarlíf, við Guð sem gaf okkur lífið. Ef þetta samband rofnar er snaraukin hætta á að við festumst í að leika hlutverkið sem við höfum valið okkur, ímyndum okkur að við séum starfið okkar, að við séum ekki andi heldur aðeins líkami, að ekkert standi á bak við grímuna sem við berum dags daglega.
Á hljóðum stundum ævinnar finnur sérhver maður óminn frá hinu sanna sjálfi. Þá bæra grundvallarspurningar á sér: Hvaðan kem ég? Hvert er hlutverk mitt í lífinu? Hvert er ferð minni heitið? Á hinu stóra leiksviði lífsins getur þessi lágmælta innri rödd auðveldlega drukknað í hávaðanum frá skoðunum annarra. Sá sem aldrei gefur sér tóm til að hlusta á rödd samviskunnar og skynseminnar verður farþegi í eigin lífi, því fyrr en varir sitja aðrir við stjórnvölinn í lífi hans. Á öllum tímum er þetta vafalaust eitt stærsta verkefni mannanna, þ.e. að stíga út úr erli hversdagsins og inn í þögnina þar sem hlusta má eftir svörum sannrar visku. Við verðum að hafa þrek og kjark til að fylgja hjartanu og standa gegn alræðistilburðum ríkjandi viðhorfa á hverjum tíma, sem bjóða aðeins fram þröngt sniðmát sem farísear nútímans ætlast til að allir lúti.
Í framkvæmd fær frelsið best þrifist í óþvingaðri samvinnu á vettvangi fjölskyldna, félagasamtaka, skóla, trúfélaga, góðgerðarstarfs og viðskipta, þar sem samstarfið byggist á viðurkenndum félagslegum reglum og gagnkvæmu trausti. Án borgaralegs samstarfs á þessum breiða hugmyndafræðilega (og kristilega) grunni myndu öll önnur kerfi, þ.m.t. hagkerfið, fljótlega hrynja til grunna vegna innri veikleika.
Athugasemdir
Takk fyrir greina góða lýsingu á lífinu. Vel mælt hjá þér.
Jóhann Páll Símonarson.
Jóhann Páll Símonarson, 22.9.2023 kl. 11:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.