26.9.2023 | 13:15
Harðstjóri lætur sig hverfa
Þegar horft verður til baka yfir atburði síðustu ára munu ófáir stjórnmála-,,leiðtogar" fá nöfn sín rituð á svartan lista yfir þá sem smánuðu lýðræðishefðir og sjálfa sig, misnotuðu völd sín og grófu undan réttarríkinu. Þeirra á meðal er Daniel Andrews, sem nú hefur fyrirvaralaust hefur sagt af sér sem forsætisráðherra Viktoríu-fylkis í Ástralíu. Á ferli sínum umbreytti Andrews þessu áður frjálslynda svæði í lögregluríki, þar sem stjórnað var með boðum og bönnum, m.a. með lengsta útgöngubanni sem beitt var í kófinu, bólusetningarskyldu og aðskilnaðarstefnu sem gerði óbólusetta að annars flokks borgurum, sem bætir gráu ofan á svarta mynd umframdauðsfalla í Ástralíu. Öllu þessu framfylgdu Andrews og handbendi hans af grimmilegri hörku svo sem sjá má m.a. hér, viðkomandi lögreglumönnum til ævarandi skammar og almennum borgurum um víða veröld til viðvörunar um það hvernig verðir laganna geta umbreyst í þrælmenni valdsins ef höggvið er á samfélagslegar rætur opinbers valds og menn fara að ímynda sér að valdið eigi uppruna sinn í ráðherrastólum en ekki hjá þeim sem landið byggja.
Hvort sem skyndileg afsögn Andrews stendur í beinu eða óbeinu sambandi við þá staðreynd að stöðugt koma fram nýjar upplýsingar sem benda til að bólusetningarskylda hafi ekki stuðst við læknisfræðileg rök og í reynd borið öll einkenni valdboðs og geðþótta, þá má gleðjast yfir því að stjórnlyndu gerræðisfólki fækki á valdastólum hins vestræna heims.
Athugasemdir
Margra ára heit bæn er heyrð kraftur krists er að verki og breyðir sig yfir heiminn.
Helga Kristjánsdóttir, 26.9.2023 kl. 16:52
Varðandi Annus horibilis greinina. Það væri gaman að fá mat þitt á því hvort það hafi haft einhver áhrif á þetta hlutfall að Bretar lögðu mikla áherslu á að bólusetja fólk sem glímir við króníska sjúkdóma og veiklað ónæmiskerfi. M.ö.o. að hlutfall fólks sem býr við lægri væntar lífslíkur en aðrir er hærra í bólusetta hópnum.
Grímur (IP-tala skráð) 27.9.2023 kl. 08:35
Sæll Grímur.
Mögulega verðum við nær því að geta svarað slíkum spurningum eftir að hafa hlustað á þessa umfjöllun J. Campbell, sem hefur lagt mikla vinnu í að greina þessi mál sl. misseri, sjá hér umfjöllun hans um þessa nýju skýrslu: https://www.youtube.com/watch?app=desktop&si=F5QiFOb7VP8N8l4p&fbclid=IwAR2My27QWIifQAWulF83-wUGpS0KyA1g5kGDAdbyBF-yu3MIhq0SOveLSUc&v=0rO9DDganV4&feature=youtu.be
Arnar Þór Jónsson, 27.9.2023 kl. 10:52
Hann fjallar ekki um þessa spurningu.
Ef ég tek mjög ýkt dæmi sem gæti skýrt það sem ég var að spyrja um.
Dauðsföll í hópi þeirra sem taka blóðþrýstingslyf eru hlutfallslega fleiri en meðal jafnaldranna sem ekki gera það.
Með sömu aðferð og Campbell og greinarhöfundur nota á bóluefnin væri hægt að reikna út umframdauðsföll í hópi þeirra sem meðhöndla háþrýsting, en við vitum að það má rekja til annars en lyfjanna.
Er ekki of mikil einföldun að ætla sér að komast að svona afgerandi niðurstöðu út frá þessari einu breytu?
Grímur Sæmundsson (IP-tala skráð) 27.9.2023 kl. 12:27
Sæll Grímur, þessar vangaveltur eru réttmætar og sjálfur leitaði ég að slíkum skýringum þegar ég las skýrsluna. Vandinn sem við blasir er að fjöldi ótímabærra andláta (155þ) er svo langt yfir viðmiðunarmörkum að áhyggjur hljóta að vakna og skýringa verður að leita. Miðað við það sem fram hefur komið í fjölmörgum ritrýndum greinum um skaðlegar aukaverkanir þessara lyfja er nærtækt að álykta að yfirvöld hefðu mögulega átt að fara sérlega varlega í að nota þau gagnvart fólki með króníska sjúkdóma og veiklað ónæmiskerfi. Í þessu sem öðru er frjáls umræða nauðsynleg og hana á ekki að kæfa niður. Góð kveðja.
Arnar Þór Jónsson, 27.9.2023 kl. 14:17
Það var viðurkennt að enn var margt í óvissu þegar byrjað var að bólusetja gegn covid/19, bæði um framgang veikinnar og áhrif bólusetningarinnar. Eftir á má e.t.v. segja að þar hafi sumstaðar verið gengið of langt. Samkv. fréttum þá gengu Ísraelsmenn mjög langt fram við að bólusetja sitt fólk. Enda þótt margt megi segja um ísraelsk yfirvöld þá trúi ég því ekki að þar hafi annað búið að baki en að reyna eftir bestu getu að vernda þjóðina fyrir faraldrinum.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 27.9.2023 kl. 16:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.