2.10.2023 | 09:16
Frjálsar raddir
Við heimkomu eftir stutt ferðalag las ég helgarútgáfu Morgunblaðsins nú í morgun. Þar eru tvær greinar sem allt hugsandi fólk þarf að lesa: Ritstjórnargrein sl. laugardag um valdaásælni Mannréttindadómstóls Evrópu og harða gagnrýni Sumption lávarðar, fyrrum hæstaréttardómara í Bretlandi sem færir rök fyrir því í Spectator að pólitísk framganga MDE kalli á að Bretar tryggi að MDE eigi ekki lengur lögsögu í Bretlandi. Með þessu er Sumption ekki að leggja til að dregið verði úr vörn mannréttinda, heldur séu þetta nauðsynleg viðbrögð við því hvernig MDE grafi undan stjórnskipun og lýðræði aðildarríkjanna.
Sambærilega gagnrýni setti undirritaður fram í Morgunblaðsgrein 19. mars 2019, þar sem ég kallaði inngrip MDE í íslensk innanríkismál vegna skipunar dómarar í Landsrétt ,,nýja tegund óskapnaðar".
Lokaorð greinar minnar voru þessi:
Niðurstaða MDE hefur sett íslenskt réttarkerfi í algjört uppnám og að öllu óbreyttu munu eftirskjálftarnir vara lengi. Í millitíðinni krefjast dæmdir menn þess að afplánun þeirra verði frestað. Enn alvarlegri tel ég þó þá staðreynd að hér hefur erlendur dómstóll tekið fram fyrir hendurnar á lögmætum handhöfum íslensks ríkisvalds. Þeir síðarnefndu svara til ábyrgðar gagnvart íslenskum almenningi, en MDE ekki. Vilji menn láta þetta yfir sig ganga er eins gott að þeir séu meðvitaðir um fórnarkostnaðinn. Ef íslenska ríkið mótmælir ekki niðurstöðunni væri búið að leggja línu sem er á skjön við ákvæði stjórnarskrár um æðstu handhöfn ríkisvalds. Afleiðingar þess má nú þegar sjá í því uppnámi laga og friðar sem niðurstaða MDE hefur valdið. Hér er því um grundvallarmál að ræða fyrir lýðveldið Ísland, sem kallar á sérstaka athygli og snör viðbrögð. Úrlausn MDE má jafna til þess að dómstóllinn ýti til hliðar stjórnskipunarhefðum sem hafa verið öldum saman í mótun. Með því má segja að MDE taki sér æðsta (og ótemprað) vald yfir lögum, stjórnmálum og lagaframkvæmd á Íslandi. Í því samhengi geta menn velt fyrir sér hvort MDE hefði komist að sömu niðurstöðu ef stærra ríki en Ísland hefði átt í hlut. Fái þessi niðurstaða að standa er verið að skera á böndin milli íslensks almennings og þeirra stofnana sem fara með æðsta ákvörðunarvald í málefnum þjóðarinnar. Dómur MDE endurspeglar vafalaust færni dómaranna í lögtækni, en getur verið að þarna hafi menn farið að hugsa of mikið um hið tæknilega á kostnað yfirsýnar, heildarsamhengis og þess sem kenna mætti við efnisleg mannréttindabrot? Ef svo er, þá hefur MDE misst sjónar á boltanum sem dómnum er ætlað að vakta. Miðað við opinberar málatölur um mál sem bíða meðferðar hjá MDE færi þá kannski betur á að dómstóllinn beindi kröftum sínum aftur að því að fást við mannréttindi, fremur en að framkvæma það sem Alexis de Tocqueville (1805-1859) lýsti sem nýrri tegund harðstjórnar, þ.e. að smætta hverja þjóð niður í að vera ekki meira en hjörð ofurvarkárra og vinnusamra dýra, sem ríkisstjórnin gætir. Það er illa fyrir lýðveldinu komið ef stjórnmálamenn og æðstu embættismenn lýðveldisins eiga að kasta frá sér hlutverki sínu gagnvart stjórnarskrá, stjórnskipunar- og lagahefðum í því skyni að ofurselja sig ólýðræðislegu valdi. Slíka valdbeitingu á að kalla sínu rétta nafni, jafnvel þótt hún skrýðist búningi mannréttinda.
Óhætt er að segja að tilvitnuð grein mín hafi valdið nokkrum skjálfta meðal kollega minna, sem virtust telja að MDE væri yfir gagnrýni hafinn. Þetta var dæmi um það sem Kolbrún Bergþórsdóttir fjallar um í sunnudagsblaði Moggans undir fyrirsögninni ,,Hin eina rétta skoðun". Þar bendir Kolbrún á það hvernig skoðanamótun hérlendis virðist byggjast á því að kanna vel landslag leyfilegra skoðana á samfélagsmiðlum ,,og þá er maður allt í einu kominn með réttar skoðanir á öllum málum" því Íslendingum finnist heppilegast að ,,kúra í þægilegum skoðunum sem engjan styggja og flestir geta verið sammála um. Því fylgir alls ekkert vesen. Og flest viljum við vera laus við vesen".
Óskandi væri að við ættum fleira fólk eins og Kolbrúnu Bergþórsdóttur, leiðarahöfund Morgunblaðsins og Lord Sumption. Við þá upptalningu vil ég nú bæta Ole Anton Bieltvedt, sem ég er sjaldan sammála, en birtir góða og holla hugleiðingu í Morgunblaðinu í dag undir yfirskrifinni ,,Falskt vörumerki?".
Megi frjálsar raddir heyrast sem víðast og sem lengst, lausar undan oki þeirra sem aðhyllast þöggun, fábreytni, ritskoðun og eina stýrða útgáfu af sannleikanum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.