Rödd samviskunnar á að hljóma, ekki kafna

Með hverri vikunni sem líður dvínar traust mitt til fjölmiðla, sérfræðinga og yfirvalda sem halda því fram að við getum vart lifað ósprautuð, að kynin séu ekki tvö heldur tugir, að æviskeið úttaugaðra, offeitra nútímamanna verði 120 ár, að transkonur keppi á jafnréttisgrunni í kvennaíþróttum, að við munum sökkva í sæ, að Úkraína sé að vinna stríðið , að Justin Trudeau sé frjálslyndur og víðsýnn mannvinur, að stjórnvöld starfi í þágu tjáningarfrelsis, o.s.frv. 

Eftir því sem fleiri ósannindum er haldið að okkur og eftir því sem meira hefur verið þrengt að málfrelsinu og frjálsri skoðanamótun eykst áhugi minn á að kaupa allar eigulegar gamlar bækur sem ég kemst í tæri við. Líta má á þetta sem björgun menningarverðmæta og varðveislu þekkingar sem tapast getur í ritskoðun, minnisholum (í anda 1984) og bókabrennum framtíðarinnar. 

Í einum slíkum gullmola, gamalli alfræðiorðabók, segir að stjórn ríkis miði að því að efla almannaheill (þ.e. velsæld samfélagsins sem stjórnað er). Ríkisstjórnir hafi verið settar á fót til að koma í veg fyrir stjórnleysi, framfylgja lögum, verja borgarana, verja hina veiku gagnvart yfirgangi hinna sterku. Með ríkisvaldi sé stefnt að því að veita yfirvöldum nægilegt vald til að ná þessum markmiðum.  

Frammi fyrir því sem gengið hefur á í hinum vestræna heimi síðustu ár, þar sem alþjóðleg risafyrirtæki hafa dyggri aðstoð stjórnvalda og alþjóðastofnana valtað yfir almenning, bæði afturábak og áfram, verða menn að spyrja grundvallarspurningar: Eru þessi grundvallaratriði gleymd? Þekkja valdhafar ekki undirstöður þess hlutverks sem þeim hefur verið treyst fyrir? Halda stjórnmálamenn (og embættismenn) að stjórnarfarið snúist um þeirra eigin hag, þeirra eigin frama? Stjórnmál snúast ekki um að selja samvisku sína til að þjóna eigin hag. Þau snúast um að þjóna almannahag. Sagan sýnir að hver einasta kynslóð þarf að veita styrkt aðhald í þessum efnum. Afskipta- og áhugaleysi veldur stórslysum, fjárhagstjóni og mannskaða.  

E.S. Áhugasömum um ofangreint er bent á þennan seinni hluta viðtals míns við svissneska lögmannsinn Phillip Kruse, sem er gegnheill maður og talar bæði af þekkingu og greind. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þarfir þankar, Arnar Þór, um hlutverk stjórnvalda hverju sinni.

Þau sem valdið hafa verða oft eins og þau séu á leikvelli fyrir valdabraskara.

Stjórnvöld mega ekki breytast í eitt allsherjar partýi þar sem allt gengur út á að vera kúl og gleypa grunnhyggnar hugmyndir villurráfandi partýfólks sem dansar í samfélagsmðlunum og hefur óheilan gildagrunn.

Nú er allt leyfilegt og allt sem í gegnum aldirnar hefur reynst vel er gengisfellt og því varpað fyrir róða.

Örn Bárður Jónsson (IP-tala skráð) 13.10.2023 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband