Lengri göng

John Quinton, sem hlýtur að hafa verið góður húmoristi, sagði að stjórnmálamenn væru fólk, sem þegar þau sjá ljós við enda ganganna, panta lengri göng. Þessi orð komu mér í hug þegar Bjarni Benediktsson birti fallega mynd af undirgöngum fyrr í vikunni. Bjarni Benediktsson er greindur og hæfileikaríkur maður, sem ég og margir fleiri hafa bundið miklar vonir við. Ég vil leyfa mér að fullyrða að Bjarni sé í hjarta sínu sammála mörgu því sem ég hef sagt um nauðsyn þess að stefna Sjálfstæðisflokksins birtist skýrar í stjórnarframkvæmdinni, þótt honum kunni að finnast óþægilegt að heyra slíkt tal þegar hann stendur í miðri á með samstarfsfólki sem virðist ekki vilja ná þurru landi. Skilja mátti á orðum Bjarna fyrr í vikunni að afsögn úr embætti fjármálaráðherra væri honum þungbær og að honum væri brugðið. Á slíkum stundum endurhugsa menn oft sitt ráð og ástæðulaust er að útiloka að atburðir liðinnar viku kunni að fæða af sér eitthvað gott, svo sem skarpari fókus á það sem gera þarf og fyrir hverja er unnið.

Allir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa það hlutverk að bæta almannahag hérlendis, þ.e. að starfa í þágu íslensku þjóðarinnar og verja hagsmuni hennar. Þeir hafa ekki umboð kjósenda til að starfa í þágu WHO eins og forsætisráðherra hefur opinberlega skuldbundið sig til að gera. Þeir hafa heldur ekki umboð til að starfa sérstaklega í þágu hvala eins og matvælaráðherra hefur lýst yfir að hún geri. Síðast en ekki síst hafa íslenskir ráðherrar ekki umboð til að starfa í þágu ESB eins og (fráfarandi?) utanríkisráðherra hefur gert í verki með framlagningu frumvarps um bókun 35. Taki Bjarni Benediktsson við embætti utanríkisráðherra, eins og Morgunblaðið gefur í skyn í þessari forsíðufrétt sinni í dag, þá mun hann sem formaður Sjálfstæðisflokksins næsta örugglega leggja bókunarfrumvarpið á hilluna og vona að það gleymist að slíkt frumvarp hafi nokkurn tímann verið lagt fram undir merkjum flokks sem tekið hefur sér það göfuga hlutverk að standa vörð um frelsi og sjálfstæði Íslands.  


mbl.is Bjarni og Þórdís skiptast á stólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband