Nýtt tímarit

Hvað sem stólaskipti gærdagsins þýða fyrir framtíð Sjálfstæðisflokksins, þá binda þúsundir Íslendinga vonir við að flokkurinn rati aftur til uppruna síns úr þeirri hugmyndafræðilegu eyðimerkurgöngu sem hann hefur verið á síðustu ár. Ef mönnum er annt um pólitískan og lagalegan stöðugleika þurfa íslensk stjórnmál að eiga lýðræðissinnaðan, borgaralegan og frjálslyndan kjölfestuflokk. Með frjálslyndi er hér vísað til klassísks frjálslyndis sem ver tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi o.fl., en ekki gervifrjálslyndi nútíma vinstri manna sem vilja innleiða ritskoðun, framselja lagasetningarvald Alþingis, þenja út skrifstofuveldið, hækka skatta, auka eftirlit og lúta forsjá ólýðræðislegra, alþjóðlegra stofnana.Heimaey2

Sjálfstætt hugsandi fólk getur enn spornað gegn þessari þróun og kallað eftir endurnýjun stjórnmálanna. Í þeim tilgangi ákvað ég með stuttum fyrirvara að láta gamlan draum rætast og hefja útgáfu nýs tímarits um lög og samfélag, sem gefið verður út mánaðarlega og ber heitið Heimaey. Nafnið vísar til þess að Ísland er heimaey allra þeirra sem landið byggja, þótt það vissulega eigi sér persónulega skírskotun í mínu tilviki. Útgáfan er áframhaldandi liður í þeirri viðleitni að vekja Íslendinga til meðvitundar um varhugaverða þróun stjórnmálanna í átt til valdboðs og stjórnlyndis. Þetta er orðað með eftirfarandi hætti í greín á forsíðu blaðsins:

Valdboðsstjórn býður heim hættu á harðstjórn þeirra sem fara með mikil völd og peninga. Í stað þess að áhersla sé lögð á að halda valdinu í skefjum má nú víða sjá merki þess að valdhafar freisti þess að halda almenningi í skefjum. 

Stjórnmál nútímans eru til sýnis á leiksviði, en framvindunni er stýrt af ósýnilegum handritshöfundum sem fá miðaverðið í sinn vasa. 

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að finna aftur kennileiti sjálfstæðisstefnunnar, hætta ögra fólki með stuðningi við ólýðræðislega löggjöf og hætta að stýrast út frá hugmyndafræðilegum villuljósum. 

Fyrsta tbl. tímaritsins er helgað Sjálfstæðisstefnunni. Blaðið er 24 síður, með fáum myndum og þéttrituðum texta. Næsta tbl. mun fjalla um tjáningarfrelsið. Þeir sem vilja styðja útgáfuna / fá blaðið sent / gerast áskrifendur geta sent mér tölvupóst á arnarthor@griffon.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband