Ríkisreknir stjórnmálaflokkar hirða meir um völd en prinsipp

Síðustu daga hef ég farið víða um land til að ræða við Sjálfstæðismenn um stefnu okkar ágæta flokks. Í sameiningu höfum við leitað svara við þeirri spurningu hvort leiðin sé rétt vörðuð. Í gær var fundað um þessi mál bæði í Hveragerði og á Hvanneyri. Þetta var góður dagur. Sérstaklega var fundurinn í Hveragerði vel heppnaður, þar sem fjölmenni mætti og umræður voru mjög líflegar um þann grunn sem Sjálfstæðisflokknum er ætlað að standa á og verja.

Þegar heim var komið opnaði ég tölvuna og las færslu frá ágætum félaga mínum þess efnis að hann væri búinn að segja sig úr VG. Færslan hefst með orðunum "Prinsipplaus flokkur yfirgefinn". Við þennan lestur rifjaðist upp lýsing Dave Allen á manni sem þreifar eftir svörtum ketti í myrkvuðu herbergi. Á einhverjum tímapunkti þarf að taka þá spurningu til alvarlegrar umræðu hvort starf íslenskra stjórnmálaflokka snúist í reynd um hugsjónir þeirra eða hvort það snýst fyrst og fremst um allt annað, þ.e. að ná völdum og verja þau, manna feitar stöður í nefndum, ráðum og sjóðum, tryggja hagsmuni flokksgæðinga og standa dyggan vörð um kerfið sjálft, sem fjármagnar tilveru flokkanna. Um þetta verður ekki rætt án þess að horfast í augu við að stjórnmálaflokkarnir eru orðnir að ríkisstofnunum og að þeir hafa allir sína ,,embættismenn" á ríkislaunum, sem vilja halda sinni stöðu. Þingmenn úr fleiri en einum flokki hafa tjáð mér í tveggja manna tali að þeir séu sammála ýmsu því sem ég hef sagt, en tekið fram um leið að það gætu þeir aldrei tjáð opinberlega því þá yrðu þau útilokuð í þingflokki sínum. Slíkt má ekki henda fólk sem lítur á þingsetu sem starfsferil.

Ef það er svo að hugsjónir og ,,prinsipp" stjórnmálaflokkanna eru aðeins upp á punt þá er nauðsynlegt að kjósendur átti sig á þeirri tálmynd, því margt yrði skiljanlegra þegar þeirri hulu hefur verið svipt frá sjónum kjósenda. Þá væri hægt að skilja hvers vegna VG tekur ekki einarða afstöðu gegn stríðsrekstri, hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram frumvarp um bókun 35, hvers vegna Framsóknarflokkurinn tekur ekki stígur ekki fast til jarðar til varnar íslenskum landbúnaði, hvers vegna Samfylkingu er meira umhugað um háskólamenn en hinar vinnandi stéttir, hvers vegna Píratar eru mesti kerfis-varnarflokkur á Alþingi o.s.frv. 

En þetta eru bara hugleiðingar skrifaðar í eins manns hljóði á sunnudagsmorgni. Ef einhver móðgast þá verður svo að vera. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband