Vita ,,sérfræðingar ríkisins" alltaf betur en þú?

Varúð, eftirfarandi athugasemdir kunna að hafa að geyma sjónarmið sem stjórnlyndir Íslendingar vilja ekki að heyrist. 

Opinberir talsmenn barnfóstru-ríkisins eru aftur mættir í fjölmiðla til að upplýsa okkur um leyfilega háttsemi. Talsmenn öryggis, sem í kófinu vildu loka okkur inni til að verja okkur fyrir ,,veirunni skæðu", hafa nú ákveðið að loka Grindvíkinga úti til að verja þá fyrir jarðhræringum. Vandinn er sá að, rétt eins og í kófinu, virðast sérfræðingar ríkisins ekki vita vel hvað þeir eru að gera og ekki hafa skýrari dómgreind en flestir Grindvíkingar sem yfirgáfu heimabyggð sína skömmu eftir að þeir voru fullvissaðir um að það þyrftu þeir ekki að gera, sbr. nánar hér á eftir.

Rétt eins og í kófinu er keyrt áfram með tilskipunum sem bera yfirbragð geðþótta fremur en yfirvegunar. Rétt eins og í kófinu spila fjölmiðlar með og skipa sér í klapplið stjórnvalda í stað þess að spyrja gagnrýnna spurninga, veita aðhald og kalla eftir meðalhófi. 

Af handahófi um meðvirkni fjölmiðla má benda á að visir.is virðist hafa eytt út pínlegri frétt sem birtist 10.11. sl. þar sem Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna, sagði að það væri ,,engin ástæða fyrir Grindvíkinga að fara úr bænum". Ummælin má sjá í meðfylgjandi skjáskoti og einnig í þessari frétt hér, en upprunalega fréttin virðist hafa verið sett í ,,minnisholu" í anda 1984.  

engin ástæða

Fyrir þá sem voru enn í einhverjum vafa um stöðuna 10.11. sl. þá tók Víðir af allan vafa síðar þennan dag og sagði kl. 18.43 að það væri ,,ekkert eldgos að byrja". Mér er tjáð að fæstir Grindvíkingar hafi tekið mark á þessu og notað sína eigin dómgreind, en þeir sem á fyrri stigum höfðu vanið sig á að ,,hlýða Víði" vöknuðu upp við vondan draum síðar um kvöldið, nánar tiltekið kl. 23.01, þegar neyðarstigi var lýst yfir og gefin út sú yfirlýsing að Grindavík yrði rýmd.

Ef einhverjir aðrir en sérfræðingar ríkisvaldsins hefðu gefið út svona misvísandi yfirlýsingar hefði það verið kennt við ,,upplýsingaóreiðu". Nú sakna landsmenn þess væntanlega að fjölmiðlanefnd hafi ekki stigið fram til að greina þessa framvindu með gleraugum falsfrétta, upplýsingafölsunar (e. disinformation) og rangra upplýsinga (e. misinformation). En við slíku er þó líklegast ekki að búast, því eins og Winston Smith í 1984 vita starfsmenn Fjölmiðlanefndar það sem meirihluti almennings verður raunar líka að fara að skilja, að talsmenn ríkisins hafa aldrei rangt fyrir sér (!). 

Eru þetta stjórnarhættir sem Íslendingar vilja búa við í hvert sinn sem eitthvað gerist? Erum við að stefna inn í framtíð þar sem dómgreind Víðis Reynissonar og félaga á að yfirtrompa dómgreind hins almenna manns? Á sjálfsábyrgðin sér engan tilvistarrétt lengur? Áður en menn svara þessum spurningum er rétt að menn íhugi að þegar menn afsala sér sjálfsábyrgð í hendur valdhafa fylgir frelsið óhjákvæmilega með. 

Frelsið er of dýru verði keypt til að það sé selt ódýrt eða gefið í blindni.

ekkert eldgos

neyðarstig


mbl.is Hleypa íbúum vonandi heim til að sækja nauðsynjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Að mörgu leyti má segja að sérfræðingar búi til upplýsingaóreiðu. Þegar fréttir eru skoðaðar síðustu daga þá segja sérfræðingarnir eitt í dag, annað á morgun og svo að engin leið sé að segja til um. Erum við nokkru nær um hvað sé í gangi frekar en sérfræðingarnir?

Rúnar Már Bragason, 13.11.2023 kl. 11:57

2 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Ég fór til eins þeirra manna, er höfðu orð á sér fyrir að vera vitrir … Þegar ég fór nú að reyna manninn … þá reyndist mér og leizt svo, að bæði mörgum öðrum og þó einkum honum sjálfum þætti hann vera vitur, en hann væri það ekki í raun og veru. Leitaðist ég því næst við að sýna honum fram á, að hann þættist reyndar vera vitur, en væri það ekki. Af þessu lagði hann fæð á mig og margir aðrir, sem við voru staddir. En á leiðinni heim til mín hugsaði ég svo með sjálfum mér: Vitrari er ég þó en þessi maður. Reyndar virðist hvorugur okkar vita neitt fagurt né gott, en hann þykist vita eitthvað, þótt hann viti ekkert, en það er hvorttveggja um mig, að ég veit ekkert, enda þykist ég ekki vita neitt. Þess vegna virðist ég vera ofurlitla ögn vitrari en hann að þessu eina leyti, að það sem ég veit ekki, þykist ég heldur ekki vita.

Platón, Málsvörn Sókratesar (þýð. Sigurður Nordal og Þorsteinn Gylfason) 

Arnar Þór Jónsson, 13.11.2023 kl. 20:43

3 identicon

Hvernig sérðu fyrir þér að best sé að gera þetta? Er best að hvert heimili leggi sitt eigið net jarðskjálftamæla í nærumhverfinu eða er betra að nokkur heimili sameinist um að leggja eitt net? Þetta er umtalsverð fjárfesting þó að maður vilji náttúrulega að fólk beri ábyrgð á sjálfu sér.

Síðan kemur að þekkingunni sem þarf til að lesa úr gögnunum. Hvort ætli sé betra að hvert heimili sendi einn fjölskyldumeðlim í mastersnám í jarðfræði eða að allir heimilismenn sæki námið?

Þegar ég hugsa mig um þá er líklega betra að allir fjölskyldumeðlimir sæki námið. Börn vaxa úr grasi og það er óttaleg lausung á hjónaböndum nú til dags þannig að stöku fjölskyldur gætu lent í því að hafa ekki aðgang að nauðsynlegri sérfræðiþekkingu til að lesa úr og meta þau hættumerki sem berast.

Grímur (IP-tala skráð) 13.11.2023 kl. 23:49

4 Smámynd:   Heimssýn

Víðir er hvorki með net jarðskjálftamæla, né meistarapróf í jarðskorpufræðum. Hann hefur gögn sem liggja fyrir og allir hafa aðgang að eða ættu að hafa aðgang að.  Sérfræðingar lesa úr gögnunum og segja frá því sem þeir sjá.  Almenningur hefur þegar öllu er á botninn hvolft sömu forsendur til að meta stöðuna og Víðir sjálfur. 

Haraldur Ólafsson

Heimssýn, 14.11.2023 kl. 00:55

5 identicon

Er ég að þá að misskilja þennan pistil Haraldur? Er þetta sem sagt persónuleg árás á talsmann opinberrar stofnunar?

Ég hélt í fávisku minni að þetta væru hugleiðingar um tengsl ríkisvaldsins og borgaranna. Að hvaða leiti það væri sniðugt að hafa vit fyrir fólki í krafti sérfræðiþekkingar og hvort hyggjuvit hvers og eins væri nóg til að verjast aðsteðjandi hættum.

Þú vanmetur greinilega flækjustigið í hugum flestra við það að túlka skjálftagögn í ljósi nýjustu rannsókna á samsetningu jarðskorpunnar í nágrenni Grindavíkur.

Ég er sjálfur sérfræðingur á afmörkuðu sviði gagnavinnslu og hef á þrjátíu árum náð að afla mér nægilegrar þekkingar til að fúnkera vel á því sviði. Ég leita hinsvegar til sérfræðinga í t.d. netöryggi þegar upp koma álitamál á því sviði enda þótt sviðin séu nátengd. Ég get ekki ímyndað mér að ég næði að afla mér nægilegrar þekkingar á sviði jarðskorpufræða á nokkrum vikum til að mér væri treystandi fyrir lífi og limum eins né neins. Tala nú ekki um ef ég ætti líka að setja mig inn í áhættur í fjármálakerfinu, sóttvarnir, burðarþolssútreikninga, eiturefnaöryggi og allt þetta sem er úthýst til eftirlitsstofnana.

Ég hef hins vegar ekkert til málanna að leggja í umræðum um persónu og frammistöðu Víðis Reynissonar.

Grímur (IP-tala skráð) 14.11.2023 kl. 08:26

6 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Grímur, þú ert mögulega einn af þeim sem vanmetur hinn almenna borgara en ofmetur um leið visku sérfræðinganna. Í Bretlandi var þetta skoðað eftir kóvid og komist að raun um að sérfræðingarnir voru iðulega fjær sannleikanum í spám sínum en fólk sem hafði almenna og breiða þekkingu. Menn komast lengra á hyggjuviti sínu en sérfræðingarnir með sína þröngu og afmörkuðu þekkingu láta í veðri vaka. Sjá nánar tilvitnanir mínar til Guðmundar S.Jóhannssonar í bloggfærslu dagsins. Þar eru orð sem þú gætir haft gagn af að lesa. Góð kveðja, Arnar Þór Jónsson. 

Arnar Þór Jónsson, 14.11.2023 kl. 10:47

7 identicon

Bókin hans Guðmundar er greinilega geysi vel skrifuð og ábyggilega skemmtileg en þessir punktar eru betur til þessir fallnir að staðfesta skoðun þeirra sem eru honum sammála en að sannfæra þá sem ekki eru það.

Nú hefur þú það fram yfir mig að hafa verið sérfræðingur á vegum hins opinbera og hefur betri skilning á hvað í því felst. En ég hef hins vegar oft verið fenginn til að veita ráðgjöf á mínu sviði til fólks sem ver vinnudögunum í annað. Oftast einkaaðilum en stundum opinberum aðilum. Það eru margar ástæður fyrir því að ég er kallaður til, t.d. að ég nenni að setja mig inn í efni sem enginn annar nennir að setja sig inn í eða hefur tíma til að setja sig inn í. Auðvitað koma margir góðir punktar frá fólki sem ekki eru sérfræðingar en það þarf engu að síður að kafa ofan í þá og meta hversu fýsilegir þeir eru út frá þeirri sérfræðiþekkingu sem liggur fyrir og greiningu á umhverfinu. Ég get ekki ímyndað mér að annað eigi við um jarðskorpuhreyfingar.

Það tekur tíma að setja sig inn í flókin mál og það er ekki á færi nokkurs dauðlegs manns að setja sig sjálfur inn í allt sem þarf að fúnkera í nútímaþjóðfélagi. Adam Smith var alveg með þetta þegar kemur að sérhæfingu o.s.frv.

Ertu annars búinn að útfæra þessa hugmynd  um hyggjuvit í stað sérfræðiþekkingar á því sviði sem þú ert sérhæfður í? Það standa líklega engir opinberir starfsmenn að róttækari inngripum í líf borgaranna en dómarar. Hvernig sérðu t.d. fyrir þér að skipta út sérfræðiþekkingu í lögum og taka upp hyggjuvit í staðinn í samningsrétti?

Grímur (IP-tala skráð) 15.11.2023 kl. 09:05

8 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Titillinn er kannski svolítið villandi, því maðurinn sem hér er rætt um er enginn sérfræðingur heldur lögga. Hann virðist hins vegar telja sig þess umkominn að segja fólki til að eigin geðþótta, enda var hann vaninn á það fyrir fáeinum árum, greyið. Blessunarlega hlustuðu margir Grindvíkingar ekkert á hann. Annars hefði rýmingin á föstudagskvöldið eflaust ekki gengið jafn vel og hún gerði.

Þorsteinn Siglaugsson, 15.11.2023 kl. 17:12

9 identicon

Það er hægt að vera sérfræðingur í mörgu enda er það er ekki verndað starfsheiti. Sérfræðiþekking Sviðsstjóra Almannavarna er m.a. á sviði almannatengsla. Hann er mjög góður í að fá fólk með sér og miðla flóknum og oft neikvæðum skilaboðum á þann hátt að meginþorri Íslendinga finnst þeir skilja það sem hann er að segja og vill vera með honum í liði þrátt fyrir að það kosti fórnir. Hann kann að flytja mál sitt á þann hátt að áhorfendur upplifa bæði auðmýkt og kærleika en það er ekki öllum gefið og sumir sem tjá sig um sama efni verða í besta falli skrípakallar í huga fólks og eftir því sem ég hef lesið á þessu bloggi og Krossgötum punkti is þá mæta sumir jafnvel hatri samborgara sinna.

Grímur (IP-tala skráð) 15.11.2023 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband