Alþýðuheimspeki til ánægju og upprifjunar

Íslendingar mættu að ósekju hafa vakandi auga með því hvernig handhafar ríkisvalds nota hverja einustu ,,krísu" til að færa mörk hins opinbera stöðugt lengra inn á svið einkalífs. Þróunin er sú sama í nágrannaríkjum okkar austan hafs og vestan. Í stað þess að rikið standi vörð um persónufrelsi fólks tekur það smám saman á sig mynd eftirlits- og lögregluríkis. 

Af þessu tilefni vil ég deila með lesendum nokkrum völdum gullkornum úr smiðju Guðmundar Sigurðar Jóhannssonar (1958-2018), ættfræðings og verkamanns, sem eiga brýnt erindi við þann hluta þjóðarinnar sem kýs að láta aðra hugsa fyrir sig:

  • "Góðir lesendur! Snemma tók ég afstöðu [...] á móti fanatík, snobbi og smáborgarahætti, en þessar þrjár ódyggðir fylgjast æði oft að." 
  • "Fjöldi fólks lítur á [viðfangsefnið] frá einni og aðeins einni hlið, hinni einlitu, blindu, sauðþrjóskulegu og heimskulegu hlið fanatíkurinnar. Mörgum manninum hefur verið legið á hálsi fyrir að þjóna guðinum Bakkusi. Mín skoðun er sú að að sé engu betra að láta guð þann, er Fanatíkus er nefndur, tröllríða sér; sumir hafa reyndar kvenkennt þetta fyrirbrigði og nefnt fanatík, og eru flestir þenkjandi menn sammála um það, að hvolpur undan henni væri hvimleiður og illa í húsum hafandi. Hver maður hefur sínar skoðanir, og það er ekki nema rétt, að sá hinn sami berjist fyrir þeim, en það er þó sjálfsögð lágmarkskrafa, að menn geti rætt málin á breiðum grundvelli og litið á þau frá fleiri en einni hlið. Þetta er fanatíkusum ómögulegt, því þeir eru allir einsýnir."
  • "Þessi hópur menntamanna samanstendur af afturhaldssömum og stöðnuðum einstaklingum, flestum nokkuð öldnum að árum. Þeir hafa goldið menntun sína því verði að fyllast öfugsnúnu ofurdrambi yfir henni, loka sig inni í sinni eigin skel og verða að nátttröllum í hinni öru þróun síðari ára."
  • "Því miður eru þeir margir, sem trúa, að [hér má setja inn heiti ríkisstofnunar að eigin vali, innsk. AÞJ] sé hávísindaleg, óhlutdræg stofnun, sem hægt sé að byggja allt sitt traust á. Því miður er svo ekki, það meðhöndlar vísindalega vitneskju á áróðursfullan og hlutdrægan hátt, vinsar úr og birtir almenningi oftast aðeins það, sem er í samræmi við hinn fyrirfram ákveðna ,,sannleika" þeirra, sem haldnir eru fanatík. Þessu hrekklausa fólki rita ég þessa grein til vinsamlegrar ábendingar."
  • "[...] en þar kom nú loks, að vilji meirihlutans náði fram að ganga þrátt fyrir að fámennur öfgahópur afturhaldssamra sérviskuþursa reri að því öllum árum að ,,haft yrði vit fyrir" almenningi í þessum efnum hér eftir sem hingað til."
  • "Það má teljast dæmafár hroki og ósvífni af fólki, sem á að heita heilvita að telja sig þess umkomið ,,að hafa vit fyrir" fullorðnum lögráða meðbróður sínum í þeim sökum hvaða neysluvörur hann lætur inn fyrir sínar varir." 
  • "Er það mála sannast, að flestir þeir menn, sem hvað áfjáðastir eru í að ,,hafa vit fyrir" öðrum eru lítt eða ekki aflögufærir um vit. [...] Þessir menn eru sem sagt haldnir þeim kynjum að geta aldrei látið sér nægja að rækta sinn eigin garð í friði við annað fólk -- heldur virðist lífsfylling þeirra vera fólgin í að ráðskast með líf annarra. [...] Orðið valfrelsi skilja þessir menn ekki, jafnvel þótt þeir lesi það á prenti, og i tímans rás hafa þeir markvisst unnið að því að innræta fólki sektarkennd fyrir þær sakir einar, að það skuli hafa vogað sér að hafa aðrar skoðanir og breytni [...] en þeir sjálfir. [...] Það er vinsamleg ábending mín til þeirra hvort ekki sé nú orðið tímabært fyrir þá að reyna að átta sig ofurlítið á breyttum og þroskaðri hugsunarhætti fólksins í landinu og láta af bróðurgæslukomplexum og brunnbyrgingaþrugli [...]." 

Heimild: Víman gefur lífinu lit (útg. á kostnað höfundar Sauðárkróki 1996)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband