15.11.2023 | 10:49
Á WHO að stjórna lífi okkar?
Á meðan athygli almennings beinist öll að jarðhræringum á Reykjanesi hlaðast óveðursský upp við sjóndeildarhringinn, sem enginn veitir athygli. Þegar rætt er við alþingismenn og ráðherra um þær rúmlega 300 breytingar sem verið er að gera á alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni og nýjum faraldurssáttmála WHO kemur í ljós að fáir þeirra hafa kynnt sér málið. Slíkt athugunarleysi er alvarlegt þegar haft er í huga hvílíkt valdainngrip verið er að opna hér fyrir. Í reynd er WHO að seilast til ákvörðunarvalds yfir heilbrigðismálum allra þjóða. Þetta ákvörðunarvald á að virkjast þegar nýr faraldur brestur á í líkingu við Covid-19. Við þær aðstæður á WHO að fá vald til að mæla fyrir um útgöngubann, lokun skóla, veitingastaða, fyrirtækja o.fl. Einnig á WHO að geta fyrirskipað að beita megi þvingunaraðgerðum til að framfylgja vilja valdhafa, hvort sem það snýr að skyldu til að þiggja lyfjasprautur, skyldu til að ganga með grímu o.fl.
Í farvatninu eru breytingar sem í raun munu kippa úr sambandi þeirri vernd sem borgararnir telja sig njóta gagnvart stjórnvöldum á grunni gildandi stjórnarskráa. Verið er að afhenda ríkisvald til alþjóðlegrar stofnunar án þess að mælt sé fyrir um endurskoðunarrétt, málskot, valddreifingu eða aðra vernd borgaranna. Allt er þetta réttlætt með skírskotun til ,,öryggissjónarmiða", þ.e. verið sé að gera þetta til að vernda borgarana. Á þeim grunni er sem sagt talið réttlætanlegt að skerða þau réttindi sem til skamms tíma töldust stjórnarskrárvarin.
Á alþjóðlegum fundum virðast þjóðarleiðtogar og embættismanna alþjóðlegra stofnana nú oftar koma saman til að kyssast og knúsast en að skiptast á skoðunum og verja ólíka hagsmuni. Í opinberum yfirlýsingum um framangreint mál liggur greinilega mikið á og áðurnefndar breytingar virðist þurfa að keyra í gegn á ljóshraða til að allir geti verið ,,öruggir".
Íslenskir þingmenn hafa verið áhugalausir um þessi mál, sbr. grútmáttlausa umræðu um nýtt frumvarp heilbrigðisráðherra til sóttvarnalaga, sem lagt var fram á síðasta þingi og hefur að geyma tugi tilvísana til alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar. Í ljósi umfangs þessa máls er þögn þingheims með öllu óásættanleg. Um er að ræða breytingar sem myndu í framkvæmd fela í sér röskun á stjórnarskrá okkar og raska ennfremur því valdajafnvægi sem ríkja þarf í samskiptum borgaranna við handhafa opinbers valds. Hér er borgaralegt frelsi í húfi, ekkert minna.
Í fréttum er fullyrt að þjóðir muni í reynd ekki glata neinu af fullveldi sínu, en á sama tíma er verið að færa WHO óheyrilegt vald sem óljóst er hvernig farið verður með í framkvæmd. Um er að ræða völd sem beita má þegar ógn er talin steðja að almannaöryggi, en vandinn er sá að skilgreiningarvaldið er sett í hendur sömu stofnunar sem fær neyðarvaldið í sínar hendur. Slíkt fyrirkomulag er ekki góð hugmynd, því enginn á að vera dómari í eigin sök.
Stjórnarskrár voru settar af góðri ástæðu og á grunni biturrar reynslu, þ.e. til að koma böndum á valdbeitingu og verja borgarana fyrir ofríki stjórnvalda. Með þessu nýja fyrirkomulagi er verið að flytja valdið á hærra stig, þar sem menn búa ekki lengur við þær hömlur sem stjórnarskrárnar setja. Hömlulaust vald hefur í mannkynssögunni verið samheiti yfir valdamisnotkun.
Ég skora á heilbrigðisráðherra og aðra sem hugsanlega vilja styðja innleiðingu þessa nýja fyrirkomulags heilbrigðismála að sýna fram á hvaða ákvæði þessa nýja alþjóðlega regluverks eru gerð til að verja okkur fyrir slíkri misnotkun. Á fyrirhuguðum fundi mínum með heilbrigðisráðherra, sem væntanlega verður boðaður innan skamms, vænti ég þess að ráðherrann muni, e.a. með aðstoð starfsmanna ráðuneytisins, leggja fram tilvísanir sem sýna að framangreindar breytingar á alþjóðlegum reglum muni í engu raska grundvelli stjórnarskrár okkar um sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar, fullveldi Íslands, valddreifingu, réttarríkið, virka mannréttindavernd og tjáningarfrelsi.
Í dag, 15. nóvember 2023, er vika liðin síðan ritari ráðherra tilkynnti að mér yrði sent fundarboð á næstu dögum. Lesendur verða upplýstir um framgang málsins.
E.S. Fundarboð frá ráðherra hefur nú verið móttekið, kl. 14.30 15.11.23 vegna fundar 30.11. nk.
Athugasemdir
Það er hægt að lögsækja fyrir landráð (brot á stjórnarskrá). Mjög einfalt, og skjótt geta pólitískir vindar snúist.
Guðjón E. Hreinberg, 15.11.2023 kl. 13:52
þá gjörum við Íslendingar það Gðjón!
Helga Kristjánsdóttir, 15.11.2023 kl. 22:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.