Andmælendur stígi fram og tjái sig

Í tveggja manna tali lýsa flokks-forystu-hollir Sjálfstæðismenn því að þeir séu ósammála mér um flest. Þessi samtöl eiga sér stað að mér fjarstöddum, en ómurinn berst mér frá móttakendum skilaboðanna, sem fá engar skýringar á því hvar þessi skoðanamunur liggur. Þetta er samskiptamáti 21. aldar, þar sem óheilindi, tvískinnungur og fagurgali þykja vel til framapots fallin. Á slíkum tímum veigra metnaðargjarnir menn sér ekki við að tala þvert gegn sannfæringu sinni og brjóta gegn sannfæringu sinni og samvisku. Á slíkum tímum læðist heiðarlegt, grandvart og friðsamt fólk með veggjum til að halda starfi sínu og til að forðast athygli.

Sjálfstæðisflokkurinn er sagður vera breiðfylking fólks með sömu lífssýn. En þegar menn segjast vera ósammála mér um flest væri æskilegt að viðkomandi gætu hert sig upp í að lýsa því beint í mín eyru eða á opinberum vettvangi í stað þess að tala í hálfkveðnum vísum á bak við þann sem um er rætt.

Hvað sameinar Sjálfstæðismenn nú á tímum og um hvað er deilt? Menn væru í betri stöðu til að svara því ef landsfundur, flokksráðsfundur og aðrir almennir fundir væru nýttir sem vettvangur opinna skoðanaskipta. Frá því hefur verið horfið og þessi í stað tekin upp einhvers konar sovésk ,,fundaraðferð" þar sem almennir flokksmenn mega láta sér lynda að hlusta á meðan flokksforystan og flokksgæðingar tala á stóra sviðinu. Sem dæmi hef ég lýst síðasta flokksráðsfundi sem leiksýningu, þar sem allt var gert til að koma í veg fyrir að ég og aðrir fundarmenn fengjum að ávarpa fundinn og tjá sýn sem hugsanlega teldist víkja frá þeirri línu sem forystan hefði áður markað. 

Að öllu þessu sögðu og með hnífasettin í bakinu er ég þakklátur þeim sem hafa komið beint framan að mér og gagnrýnt - oftast málefnalega - þau sjónarmið sem ég hef fært fram. Í svipinn dettur mér reyndar ekki annar í hug en Kristinn Hugason. Sem dæmi um það hversu heilnæm og hressandi hreinskilin skoðanaskipti eru, þá kann ég sífellt betur að meta Kristinn Hugason. 

Ég rita þessar línur á laugardagsmorgni eftir að hafa í gær átt samskipti við yfirlýstan Sjálfstæðismann á fésbókarvegg mínum í gær, en sá ágæti maður hampar ,,Heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna" og telur þau samrýmanleg stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Því er ég ósammála. Ég veit ekki til þess að kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi veitt umboð sitt til þess að sveitarstjórnarmenn, þingmenn eða ráðherrar láti ,,Heimsmarkmið SÞ" yfirtrompa Sjálfstæðisstefnuna. Með því er verið að veita undirstofnunum og embættismönnum SÞ mikið stefnumótunar- og túlkunarvald, á kostnað lýðræðislegs aðhalds og valddreifingar, en stjórnarfarið þess í stað fært í átt til stjórnlyndis og valdboðs, án umræðu. Ef allir stjórnmálaflokkar á Íslandi og öll sveitarfélög eru farin að vinna að þessum markmiðum þá er það staðfesting á því að kosningar hérlendis séu í raun nokkurs konar leikrit, þar sem engu skiptir hvaða listi fær flest atkvæði, því stefnan hefur þegar verið mörkuð og henni verður ekki haggað hverjir svo sem kunna að setjast í bæjarstjórn / ríkisstjórn að kosningum loknum.

Málflutningur minn sl. ár miðar að því að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að Íslendingar standi vörð um sjálfstæði landsins og fullveldi þess. Í því felst nánar að við verjum hér lýðræðislega stjórnarhætti og sjálfsákvörðunarrétt sérhvers manns, höfnum þróun í átt til eftirlits- og lögregluríkis, stöndum gegn útþenslu ríkisins og höfnum valdaásælni erlendra stofnana, erlendra ríkja og yfirþjóðlegs valds. Í þessu felst að við verjum okkar eigin stjórnarskrá, sem er brjóstvörn lýðfrelsis hérlendis. Við núverandi aðstæður er sérlega brýnt að menn komi tjáningarfrelsinu til varnar, enda er það kjarni alls annars frelsis. Ég hvet þá sem treysta sér til að andmæla þessu til að stíga fram með þær skoðanir og verja þær í samtali við mig, fremur en að ástunda pískur og baknag á bak við luktar dyr. (Öllum er frjálst að rita athugasemdir hér að neðan). 

E.S. Lesendum til yndisauka fylgir hér texti Páls J. Árdals með lagi Bergþóru Árnadóttur, en lag og texta má finna á hljómplötunni "Eintaki", sem kom út árið 1977, þ.e. fyrir 46 árum síðan.

Bergþóra Árnadóttir - Ráðið - YouTube 

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka,
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.
 
En biðji þig einhver að sanna þá sök,
þá segðu að til séu nægileg rök,
en náungans bresti þú helst viljir hylja,
það hljóti hver sannkristinn maður að skilja,
 
og gakktu nú svona frá manni til manns,
uns mannorð er drepið og virðingin hans,
og hann er í lyginnar helgreipar seldur,
og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur,
 
en þegar svo allir hann elta og smá,
með ánægju getur þú dregið þig frá,
og láttu þá helst eins og verja hann viljir,
þótt vitir hans bresti og sökina skiljir.
 
Og segðu hann brotlegur sannlega er
en syndugir aumingja menn erum vér,
því umburðarlyndið við seka oss sæmir,
en sekt þessa vesalings faðirinn dæmir.
 
Svo leggðu með andakt að hjartanu hönd,
með hangandi munnvikjum varpaðu önd,
og skotraðu augum að upphimins ranni,
sem æskir þú vægðar þeim brotlega manni.
 
Já, hafir þú öll þessi happsælu ráð,
ég held þínum vilja þú fáir náð,
og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður,
en máske að þú hafir kunnað þau áður. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Hollur pistill og sannur Arnar Þór. "Menn skyldu aldrei að vanmeta frelsis- og fullveldisþrá sjálfstæðismanna", sagði Styrmit Gunnarsson heitinn, f.v. ritstjóri Mbl og hugsjónamaður. Núverandi fotysta flokksins er ekki á sama máli. Þar á bæ ríkir hreinn Evvrópusósíalismi.

Júlíus Valsson, 18.11.2023 kl. 10:54

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hvað sem stefnu íslenskra flokka líður, þá held ég að betur kynni að fara á því að menn kynntu sér almennilega stefnumið sem þeir taka upp áður en tekið er til við að sóa milljörðum eða milljarðatugum í "innleiðingu" þeirra. Í því samhengi er ekki úr vegi að benda á áfellisdóm þeirra Bill Gates og Björns Lomborg um hin svonefndu heimsmarkmið, sem lesa má hér: https://www.gatesnotes.com/Global-Goals-Op-Ed 

Greinin birtist raunar í íslenskri þýðingu í Morgunblaðinu í sumar og áskrifendur geta nálgast hana þar. 

Þorsteinn Siglaugsson, 18.11.2023 kl. 11:52

3 Smámynd: Birgir Loftsson

Kannski ert þú ekki í réttum flokki? Miðað við málflutning þinn, myndir þú smellpassa við Miðflokkinn. En þér er velkomið að reyna að breyta Sjálfstæðisflokkunum innan frá mín vegna. En ef flokkurinn á að breytast, verður að skipta um skipstjórann og alla stýrimennina úr brú, til að endurvekja Sjálfstæðisflokkinn. Á eftir að sjá það gerast....Svo er alltaf hægt að stofna hægri flokk.

Birgir Loftsson, 18.11.2023 kl. 13:26

4 Smámynd: Einar Sveinn Hálfdánarson

Hvað segirðu Arnar Þór, birtirðu allar athugasemdir sem þér eru senda hér?

Með góðri kveðju,

Einar Sveinn Hálfdánarson, 18.11.2023 kl. 17:08

5 identicon

Ég er einn af þeim sem fá kjánahroll þegar menn fara að mæra sjálfstæðisstefnuna vegna þess að framferði flokksins síðan ég fór að muna eftir mér leiðir svo greinilega í ljós að hún er ekkert annað en gluggaskraut og hentistefna. Síðasta áratug hefur flokkurinn sett á fjármagnshöft, ferðahömlur, samþykkt skorður á fjölmiðlarekstur o.s.frv. o.s.frv. „Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar“ eins og gaurinn á fjallinu sagði.

Ef maður gengur út frá að eitthvað sé til sem heitir „sjálfstæðisstefna“ þá er líklega betra að ganga út frá því að það sé stefnan sem flokkurinn fylgir í það og það skiptið frekar en stefnan sem hann sagðist fylgja fyrir kosningar. Ég get ekki tekið alvarlega umræður sem snúast um hvort þetta eða hitt sem flokkurinn gerir í ríkisstjórn sé samrýmanlegt sjálfstæðistefnunni.

Ég stríði stundum félögum mínum í flokknum með því að segja að sjálfstæðisstefnan sé eins og dulspekikenning sem enginn getur útskýrt en maður þarf að uppljómast til að skilja.

En ég átta mig ekki á hvað fer í taugarnar á þér með Heimsmarkmiðin. Er það að þau koma að utan eða að þau er ný? Ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður sé á móti því að auka menntun, minnka fátækt, vernda náttúruna o.s.frv. enda þótt menn greini á um leiðir eða efist um að hægt sé að ná markmiðunum á þeim tíma sem gefinn er.

Grímur (IP-tala skráð) 19.11.2023 kl. 09:41

6 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Þakka ábendingar og athugasemdir. Já, ég ritskoða ekki það sem hér birtist en vona að menn séu málefnalegir. Grímur, sjálfstæðisstefnan er rammi sem bæði frjálslynt fólk og íhaldsmenn geta sameinast um. Hún er nokkurs konar varnargarður utan um grundvöllinn sem vestræn ríki hafa byggt á sl. 200 ár, um virkt lýðræði, tjáningarfrelsi, vernd eignarréttar o.fl. Slík grunngildi eru ekki léttvæg og menn ættu að forðast að gera lítið úr þeim. Að því sögðu hef ég líka skilning á því sem þú segir um það hvernig þessu hefur verið háttað í framkvæmd. Ég er sammála því að það sé ekki í lagi að menn starfi undir öðrum formerkjum en þeir hafa lofað kjósendum að gera. 

Arnar Þór Jónsson, 19.11.2023 kl. 10:23

7 Smámynd: Jónatan Karlsson

Mér þykir ekki við hæfi að þú berir kjör þín og kurteislegt tuð við þá sem teknir eru þessa dagana bókstaflega af lífi á þann veg að þeir eru svívirtir á þann hátt að mannorð þeirra er eyðilagt til frambúðar með illmælgi, rógi og jafnvel algjörlega tilhæfulausum ásökunum.

Ég tek aftur á móti undir með flestum þínum umkvörtunum, en undrast þó líka trúfestu þína við Bjarna, Gulla og hina strákana, því ekki er harla líklegt að þeir tapi atkvæðum á því að þér leyfist nokkuð óáreyttum að blása, frekar þvert á móti.

Það rifjaðist upp fyrir mér nýlega þegar ég sá Jóni Gnarr bregða fyrir í fréttaskoti RÚV frá einhverri samkomu á vegum Samfylkingarinnar því snildarbragði þeirra þegar á móti blés, að ráða vinsælasta skemmtikraft landsins til að safna öllu óánægjufylginu undir nýju nafni, en færa síðan að kosningum loknum Degi og Samfó nýja fólkið á silfurfati, eins og blasir nú eftirá að hyggja við all flestum.

Jónatan Karlsson, 19.11.2023 kl. 10:38

8 identicon

Finnst þér eins og að ég sé að gera lítið úr þeim grunngildum sem vestræn samfélög byggja á? Það er alls ekki þannig. Ef ég er að gera lítið úr einhverju þá er það sú furðulega ranghugmynd að þessi grunngildi séu eitthvert einkamál Sjálfstæðisflokksins. Það má nefnilega finna þessi vestrænu gildi í stefnuskrám allra íslenskra flokka.

Grímur (IP-tala skráð) 19.11.2023 kl. 12:34

9 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Grímur, allir flokkar á Íslandi gefa sig út fyrir að aðhyllast það sem þeir kalla ,,frjálslyndi" í stefnuskrám síum en í framkvæmt vinna þeir flestir að því, í sameiningu og án verulegra sýnilegra átaka, að þrengja að málfrelsi, ganga á eignarétt fólks með skattahækkunum, framselja vald í hendur óþekktra embættismanna sem enga ábyrgð bera, framselja vald úr landi til erlendra stofnana, auka eftirlit með almenningi o.s.frv. Aðalpunkturinn minn er sá að það er ekki nóg að hafa ,,vestræn gildi" upp á punt í stefnuskrá. Þetta þarf að verja í verki. Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá. 

P.S. Orðið frjálslyndi er orðið öfugmæli í tilviki yfirlýstra vinstrimanna, sbr. t.d. sjálfskipaðan holdgerving slíks ,,frjálslyndis" á Íslandi, þ.e. fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins, sem í víðsýni sinni og umhyggju lagði til að óbólusettir yrðu sviptir borgaralegum réttindum. Þetta má finna á Netinu ef leitað er að nafni Sigmundar Ernis Rúnarssonar og leiðara hans sem bar heitið ,,Herkvíin".

Arnar Þór Jónsson, 19.11.2023 kl. 17:22

10 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Fyrir þá sem eru svo lánsamir að vera ekki á fésbók, þá er hér athugasemd sem ég var að birta þar í samtali við yfirlýstan sjálfstæðismann sem aðhyllist valdboð, stjórnlyndi og ,,aukinn jöfnuð" í anda Samfylkingar og telur að heimsmarkmið SÞ séu ávísun á fyrifmyndarríkið og að SÞ, sem eru undir miklu áhrifavaldi alræðisríkja, muni geta vísað okkur leiðina þangað:

ég vil búa í samfélag þar sem valdamenn svara til ábyrgðar gagnvart kjósendum, þú vilt framselja vald til fólks sem ber enga slíka ábyrgð. Þín leið liggur í alræðisátt, meirihluti Íslendinga kýs að velja hina leiðina, sem er leið lýðræðis. Þú kokgleypir slagorð um "aukinn jöfnuð", ,,enga fátækt" o.fl. og virðist vera tilbúinn til að láta tilganginn helga meðalið. Meirihluti Íslendinga lætur ekki blekkjast af loforðum um fyrirmyndarríkið (útópíuna), þvi þeir þekkja hvílík valdníðsla og ofríki hefur fylgt slíkum loforðum frá ríkisvaldi sem ætlar að skapa slíkt fyrirmyndarsamfélag. Þú telur að til séu patentlausnir. Meirihluti Íslendinga veit að þær eru ekki til og að við þurfum á öllum tímum að taka ákvarðanir á grundvelli hagsmunamats miðað við breytilegar aðstæður. Þú ert tilbúinn að ofurselja þig eftirlits- og lögregluríkinu sem elur á ótta með hræðsluáróðri. Meirihluti Íslendina er að vakna upp við það að við slíkt sé ekki búandi. Annað hvort ert þú í röngum flokki eða ég. Þú af því að þú hefur ekki lesið stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins eða finnst hún ekki skipta máli - eða ég af því að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur það sem honum var ætlað að vera og það sem hann gefur sig út fyrir að vera í aðdraganda kosninga.

Arnar Þór Jónsson, 19.11.2023 kl. 17:55

11 identicon

Við virðumst þá vera sammála um að vestræn lýðræðis- og frjálslyndishefð sé ekkert tengdari sjálfstæðisflokknum en öðrum flokkum á Íslandi.

Á upplýsingafundunum hjá Þríeykinu var algengt í byrjun að fjölmiðlamenn kæmu með lýsingar á róttækum sóttvarnaraðgerðum í útlöndum og fylgdu eftir með spurningu um af hverju við værum ekki að grípa til jafn róttækra aðgerða hér. Svarið var yfirleitt að það væri mikilvægt að gæta meðalhófs og fara ekki út í róttækari aðgerðir en ástandið krefðist hverju sinni.

Þegar maður les greinina sem þú bentir mér á er augljóst að Sigmundur Ernir taldi sig vera að berjast fyrir frelsi „venjulegs fólks“ með því að vekja máls á því hvort kanna ætti að fara sömu leið og víða væri farin erlendis. Þeir örfáu sem hefðu tekið ákvörðun um að láta ekki bólusetja sig héldu allri þjóðinni í „herkví“ með því að auka álag á heilbrigðiskerfið. Frelsi fylgir nefnilega ábyrgð.

Það er útbreidd skoðun meðal frelsiselskandi manna að fólk eigi að fá að haga lífi sínu eins og það vill þangað til það fer að skerða frelsi annara og ég hef lesið fjölmargar greinar af hægri vængnum sem segja það sama.

Mér sýnist að þessi grein sé alveg innan eðlilegs ramma tjáningarfrelsisins þó ég sé ekki sammála henni og feginn að það voru nógu margir sem gerðu eins og þau voru beðin um til að það þyrfti aldrei að fara í jafn róttækar aðgerðir hér á landi og algengt var erlendis.

En úr því að við erum að tala um málflutning frá kófárunum sem eldist illa þá á ég hins vegar erfitt með að lesa greinar sem segja að það hafi svo fáir verið í lífshættu vegna Covid að það hefði ekki átt að grípa til neinna sóttvarnaraðgerða. Boris Johnson talar í fyrirsögnum og mun hafa orðað þessa hugsun á kraftmeiri hátt en flestir myndu leyfa sér og sagt: "Má ekki bara leyfa þessu liði að drepast svo að við hin getum lifað eðlilegu lífi?!".

Grímur (IP-tala skráð) 20.11.2023 kl. 07:34

12 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Grímur, ef þú kynnir þér rætur sjálfstæðisstefnunnar, þá er hún i´grundvallaratriðum andsnúin hvers kyns alræði, ofstjórn og ofríki. Sósíalistaflokkar meta rétt hópsins ("venjulegs fólks" / alþýðunnar / verkalýðsins) meira en rétt einstaklingsins. Í því liggur hættan fólgin og þar er rót þeirrar valdbeitingar og mismununar sem þú, SER o.fl. gervi-frjálslyndismenn eruð tilbúnir að framkvæma til að þjóna hugmyndafræði um ,,aukinn jöfnuð" o.fl. Dæmin, bæði gömul og ný, sanna að þá eru skoðanabræður ykkar SER tilbúnir að mismuna fólki, svipta það málfrelsi, fangelsa það o.s.frv. Samkvæmt sjálfstæðisstefnunni eru allir jafnir fyrir lögunum, en í ykkar heimi eru sumir jafnari en aðrir. En mínum tíma er ekki vel varið í að reyna að sannfæra þig um neitt. 

Arnar Þór Jónsson, 20.11.2023 kl. 09:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband