Lítum okkur nær

Í ágætri Morgunblaðsgrein sinni í dag fjallar Óli Björn Kárason um pólitíska arfleifð John F. Kennedy og spyr: ,,Hvar eru arftakarnir?" ,,Hvar eru arf­tak­ar Kenn­e­dys, Reag­ans og Lincolns? Hvar eru stjórn­mála­menn­irn­ir sem berj­ast fyr­ir hug­sjón­um? Hvar eru stjórn­mála­menn­irn­ir sem hafna smán­un, slauf­un, árás­argirni og lýðhyggju? Hvar eru kjós­end­ur sem vilja for­seta með skýra framtíðar­sýn – sem sam­ein­ar í stað þess að sundra? Hvers vegna á 340 millj­óna þjóð ekki aðra og betri val­kosti en Joe Biden og Don­ald Trump?" 

Því er til að svara að bandarískan þjóðin hefur betri valkost: Robert F. Kennedy yngri, sem er í framboði til embættis forseta þar í landi og heldur á lofti hugsjónum föður síns, RFK eldri, og föðurbróður. RFK er ærlegur maður sem hefur sýnt mikið pólitískt hugrekki í baráttu sinni gegn því sem ÓBK lýsir sem ,,vélvæddum stjórnmálum" [...] sem stjórnað er ,,af atvinnustjórnmálamönnum og almannatenglum." Orð í þessum anda skrifaði ég beint eftir RFK á fundi með honum fyrr í þessum mánuði, sjá mynd.RFK 2023

Þegar hlustað er á ræður John F. Kennedy, þá enduróma þar hugsjónir hinnar klassísku sjálfstæðisstefnu um að maðurinn sé fæddur til að vera ,,frjáls og sjálfstæður" (e. free and independent), um lýðræðislega stjórnarhætti, um lága skatta, um baráttuna gegn alræðisöflum, um samvinnu frjálsra þjóða á jafnræðisgrunni o.s.frv. Í forsetaframboði sínu hefur RFK fylgt samvisku sinni í baráttu við hergagnaiðnaðinn og lyfjaiðnaðinn sem hafa náð kverkataki á stjórnarstofnunum og fjölmiðlum í Bandaríkjunum. Þessa staðfestu sína hefur RFK goldið því verði að hafa verið gerður útlægur úr flokki föður síns og föðurbróður, enda lýsir ÓBK því rétt í grein sinni að Demókrataflokkurinn er orðinn ,,þjakaður af pólitískri rétthugsun og sósíalisma." 

En ef horft er á framgöngu þingflokks Sjálfstæðisflokksins nú, væri þá ósanngjarnt að segja að hann sé einnig þjakaður af pólitískri rétthugsun og sósíalisma? Hefur flokkurinn staðið nægilega dyggan vörð um lýðræðislega stjórnarhætti hér á landi eða hvaða sögu segir stuðningur þingflokksins við frumvarp um bókun 35 sem lagt var fram á síðasta þingi? Hefur flokkurinn staðið gegn skattahækkunum? Hefur hann staðið nægilega dyggan vörð um tjáningarfrelsið? Hefur hann verið málsvari frjálslyndis í baráttunni gegn hin ágengu stjórnlyndisöfl sem sækja að okkur bæði innanlands og erlendis frá? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn áhuga á að fá til liðs við sig fólk sem vill berjast fyrir hugsjónum þessa flokks ... eða eru slíkir menn of óþægilegir fyrir atvinnustjórnmálamennina og almannatenglana sem stjórna flokknum? Hafa kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins komið til varnar þeim sem hafna smánun, slaufun, árásargirni og lýðhyggju? 

Kannski hef ég verið of leiðinlegur / of hvass við kjörna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Í gagngjald hef ég fengið þau skilaboð að mér verði aldrei hleypt aftur inn á Alþingi sem varamanni. Slík útilokun er léttvæg þegar hún er lögð á á vogarskálar samvisku, sannfæringar og innri heilinda. En að því sögðu óska ég Sjálfstæðisflokknum alls góðs og bind enn vonir við að allt það góða fólk sem þar er finni hjá sér styrk til að rísa undir merkjum flokksins og vera ,,arftakar Kennedys, Reagans og Lincolns".   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það er orðið nokkuð langt síðan hið frjálsa orð var gert útlægt úr Sjálfstæðisflokknum,en að gera þig útlæga úr ræðustól alþingis er hrein móðgun við kjósendur. 

Ragnhildur Kolka, 22.11.2023 kl. 14:13

2 Smámynd: Grímur Kjartansson

Vandamál stjórnmálamann í dag liggur í málskrúðinu sem búið er að troða inn alls staðar
t.d. vilja sumir enn bæta við stjórnarskrána einhverjum skilgreiningum á "sínum" jaðarhópum
svo í stað þess að þar standi bara að - allir skuli vera jafnir fyrir lögum
þá komi enn lengri listi með upptalningu á öllum mögulegum mengjum mannlífsins

 65. gr.
 [Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
 Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.] 1)

Grímur Kjartansson, 23.11.2023 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband