23.11.2023 | 10:57
Stjórnmálaflokkarnir þurfa fleiri gagnrýnisraddir, ekki færri
Í þessari frétt á Vísi furðar þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sig á því að ,,varaþingmaður sækist eftir því sérstaklega að taka sæti á þingi fyrir flokk sem hann hefur sagt opinberlega að muni leggja sitt að mörkum til að útrýma þeim flokki. En hann verður að eiga það við sjálfan sig.
Hér kýs þingflokksformaðurinn að slíta orð mín úr samhengi, en samhengið má heyra hér. Í tilvísuðu viðtali í sagðist ég hafa áhyggjur af því að Sjálfstæðisflokkurinn væri í tilvistarkreppu og hefði með hægum skrefum breyst í eitthvað annað en honum er ætlað að vera. Ég vísaði til þess að Sjálfstæðisfokkurinn hefði mikilvægu, sögulegu, menningarlegu og lagalegu hlutverki að gegna sem forysta flokksins hefði hörfað undan í seinni tíð. Rifja þurfi upp hverjar skuldbindingar Sjálfstæðismanna eru við fortíð, samtíð og framtíð. Læra þurfi af biturri reynslu fyrri kynslóða sem bjuggu hér við undirokun, kúgun og arðrán. Ég sagði að við ættum ekki að selja Ísland í hendurnar á erlendu valdi eða erlendum stórfyrirtækjum sem telja sig ekki hafa neinar skuldbindingar við land og þjóð og hirða ekki um velferð fólksins sem hér býr.
Við eigum ekki að skattleggja fólk í drep eins og búið er að gera, við eigum ekki að þenja ríkið út eins og búið er að gera, við eigum að draga úr þessu eftirlitsbulli. Við eigum að ráða okkar eigin för. Við eigum ekki að afsaka okkur með því að segja að við séum skuldbundin af því að gera hitt og þetta.
Sjálfstæðisflokkurinn á að standa undir nafni sem Sjálfstæðisflokkur. Það er að segja stjórnmálahreyfing sem að ver hér það dýrmætasta, sem er frelsi okkar sem einstaklinga og sjálfstæði okkar sem þjóðar og sjálfsákvörðunarrétt okkar þannig að við séum þjóð á meðal þjóða, en að við séum ekki tuskuð til og séum ekki eins og strengjabrúður í bandi erlendra valdhafa sem Íslendingar hafa ekki veitt lýðræðislegt umboð: Þetta er skrifræðisbákn sem þenur sig út með hverjum deginum sem líður, íþyngir hér íslensku atvinnulífi, er farið að skattleggja okkur í þokkabót. Ég vil að Sjálfstæðisflokkurinn snarhætti allri þjónkun við þetta fyrirbæri og fari þess í stað að þjóna hér íslenskum almenningi. Þetta væri það sem hann á að gera. Ef hann gerir það ekki þá skal ég, leggja mitt af mörkum til þess að útrýma Sjálfstæðisflokknum ef þess þarf.
Við þessi orð bætti ég að ,,fram að því ætla ég að vinna innan Sjálfstæðisflokksins svo það komi líka fram", því best væri að Sjálfstæðisflokkurinn stæði undir nafni og verji þau gildi sem honum er ætlað að verja en sé ekki bara notaður sem pólitískur stökkpallur fyrir fólk sem trúir ekki á hugsjónir Sjálfstæðisstefnunnar og vill beina flokknum inn á brautir sem honum var aldrei ætlað að vera á, t.d. með því að vinna að framsali íslensks ríkisvalds úr landi og m.a. lagasetningarvald til Brussel.
Gagnrýni mín á Sjálfstæðisflokkinn á fullan rétt á sér, því miður, því flokkurinn hefur villst af leið. Sambærilega gagnrýni ætti að setja fram á hina þingflokkana, sem allir eru villuráfandi og þjóna sjálfum sér fremur en almenningi. Þannig fæ ég t.d. ekki séð að Framsóknarflokkurinn sé sannur og góður málsvari bænda, sem lepja nú dauðann úr skel. Samfylkingin hefur ekki verið málsvari vinnandi stétta, heldur fyrst og fremst háskólaborgara og opinberra starfsmanna. VG hefur ekki verið málsvari friðar. Píratar hafa umbreyst í mesta kerfis- og formhyggjuflokk Íslands. Upptalningin gæti verið lengri.
Athugasemdir
Þetta er dapurt, en satt.
Gunnar (IP-tala skráð) 23.11.2023 kl. 16:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.