24.11.2023 | 09:16
Prinsipplaus stjórnmál, bremsulaust vald
Ágætur samherji minn, sem stundum vill þó vera fjandvinur minn, sendi mér þau skilaboð í gær að honum þætti ég hafa ,,ákaflega þröngan og allt að því kjánalegan skilning á eðli flokkastjórnmála". Svar mitt var á þá leið að ef það ef telst ,,þröngur" og ,,allt að því kjánalegur" skilningur á stjórnmálum að halda að menn eigi að framfylgja þeim stefnumálum sem þeir hafa gefið sig út fyrir að aðhyllast ... og ef upp er runninn sá tími að flokkastjórnmál í ,,víðum skilningi" gefi mönnum heimild til að víkja frá grunnstefnumálum síns flokks og kasta öllu í hrærivélarskál til að baka klessuköku undir merkjum ,,nútímalegra stjórnmála", þá kalla ég það óheilindi, fals og svik við kjósendur. Stjórnmál sem leyfa slíkt eru þá ekki annað en sviðsetning, þar sem menn leika hlutverk til að ganga í augu kjósenda, skjóta hvern annan með púðurskotum og heyja gervi-stríð, en hlæja svo saman á bak við tjöldin og rækta þar sameiginlega hagsmuni með því að belgja út lífeyrisréttindi, setja menn í nefndir og ráð, skipa í sendiherrastöður o.fl. Kannski er þessi "víði" skilningur betur í takt við raunveruleikann, en hann er óþolandi í augum allra þeirra sem hafa séð ljótleikann á bak við tjöldin - og þeim fer ört fjölgandi. Hinn víði skilningur mun verða kallaður sínu rétta nafni áður en langt um líður.
Hinn ,,víði skilningur" hefur leitt íslensk stjórnmál út á glapstigu, þar sem prinsipp skipta ekki lengur máli, þar sem hækkun skatta er samþykkt án umræðu og án andmæla, þar sem ríkið belgist út með hverjum deginum sem líður, þar sem ríkisstarfsmönnum fjölgar en þjónustan versnar, þar sem almenningur og smærri fyrirtæki eru skattpínd, en stórfyrirtæki beita lobbýisma og lagaklækjum til skattasniðgöngu, þar sem stjórnvöld reisa varnarmúra (jafnvel í bókstaflegum skilningi) utan um stórfyrirtæki fyrir almannafé, veita grindvískum fyrirtækjum rúmar heimildir til að bjarga eignum sínum en skammta venjulegu fólki 5 mínútur undir eftirliti til að vitja um eignir sínar og heimili.
Allt framangreint má kalla ávextina af verkum núverandi vinstri stjórnar: Við þekkjum tré af ávextinum og mennina af verkum þeirra. Þegar kemur að næstu kosningum munu Íslendingar hafa val um marga vinstri flokka sem aðhyllast valdboð og stjórnlyndi. Með sama hætti munu Íslendingar geta valið milli framboðslista þar sem menn eru sammála um að jörðin sé að soðna, að karlar geti breytt sér í konur og að framtíðarhagsmunir íslensku þjóðarinnar séu best geymdir í höndum umboðslausra embættismanna í erlendum borgum. Hver sem vogar sér að efast um framangreint og vill beita gagnrýninni hugsun, verja frjálsa tjáningu, hver sem leggur til að settar verði bremsur á handhafa ríkisvalds, hver sem vill ekki að lyfjafyrirtæki stjórni því hvaða lyf við tökum, hver sem leyfir sér að halda að daglegt líf í landinu gangi betur ef almenningur ræður sinni för fremur en að lúta sérfræðingastjórn, slíkur maður er úthrópaður með öllum þeim illyrðum sem ,,einflokkurinn", fjölmiðlamenn og alþjóðlegir valdboðssinnar treysta sér til að klína á hann.
Kæru Íslendingar, næst þegar frambjóðendur mæta okkur með gylliboðum og útprentuðum stefnuskrám, þá ættum við að staldra við, spyrja og íhuga hvað við erum í reynd að kjósa, því það er að líkindum eitthvað allt annað en lofað er. Ég get því ekki annað en ítrekað þá lýsingu að þetta séu óheilindi, fals og svik við kjósendur.
Athugasemdir
Við búum nú við verstu ríkisstjórn allra tíma, sem er verri er ríkisstjórn Steingríms (og eftir atvikum) Jóhönnu. Þá er mikið sagt. Umskiptingar stjórna Sjálfstæðisflokknum. Það sýnir innleiðing 3. orkupakka ESB og ekki síst frumvarp utanríkisráðherra og varaformanns flokksins um Bókun 35. ESB-sinnar i flokknum nota nú EES-samninginn sem hækju til að troða Íslandi inn í ESB bakdyramegin. Þetta eru hrein svik við flokksmenn, landsmenn alla og brot á stjórnarskránni og hegningarlögum landsins.
Júlíus Valsson, 24.11.2023 kl. 09:35
Sæll Arnar Þór; líka sem aðrir gesta, þinna !
Þakka þjer ádrepuna; einnig er mjög þakkarverð athugasemd Júlíusar Valssonar, ekki síður.
Má til; að koma að, spjalli Jakobs Bjarnar á Vísis punkti is, við Þorvald Logason í þessu
samhengi, að nokkru :
Ísland sem dótakassi fyrir spillingu
Ein af bókum þessa jólabókaflóðs kemur úr óvæntri átt. Þorvaldur Logason heimspekingur og félagsfræðingur var að senda frá sér bókina Eimreiðarelítan – spillingarsaga og það verður að segjast eins og er að maður er í hálfgerðu áfalli eftir lestur hennar. Þó var allt þetta kunnuglegt.
„Líklega hefur jafn fámennur hópur aldrei ráðið jafn miklu í jafn langan tíma í vestrænu lýðræðisríki,“ segir Þorvaldur. Og eftir lestur bókarinnar mætti botna þessa setningu með því að segja að sjaldan hefur eins miklu verið klúðrað á eins skömmum tíma, og er þá vísað til hrunsins 2008. En áfram skal haldið, á sömu braut nema eitthvað mikið komi til.
Bókin byggir á B.A.- og meistaraprófsritgerðum Þorvaldar auk umfangsmiklum óbirtum trúnaðargögnum innan úr Landsbankanum. Þetta gæti allt eins verið hrollvekja. Þar greinir frá áformum frægustu valdaelítu vorra tíma um yfirráð; Eimreiðarelítan hljóp eftir baki Sjálfstæðisflokksins til áhrifa og Ísland varð eins og frumgerð tilrauna nýfrjálshyggjunnar. Þetta er saga um ris og fall því árið 2008 misheppnaðist tilraunin herfilega með hinu „svokallaða“ hruni. Þetta er auðvitað nokkuð sem kemur þeim sem vita vilja ekki á óvart en í bókinni setur Þorvaldur þetta allt í samhengi og rekur söguna.
Spurður segist Þorvaldur hafa gefið bókina út sjálfur. Hann sýndi einum útgefanda bókina, sá var eitthvað hikandi enda verið að fjalla um valdamikla menn. Þannig að hann ákvað að láta slag standa. Og sér varla eftir því. Fyrsta prentun, 500 einstök, eru að verða uppurin og Þorvaldur bíður nú eftir 2. prentun.
Eimreiðarhópurinn mun engu svara
En Þorvaldur hefur ekki þungar áhyggjur af þessu. Hann nefnir til sögunnar umdeilda heimildamynd sem átti að fjalla um hrunið og var sýnd á RÚV. Hún sé gerólík bókinni. Og þetta er element sem varð meðal annars til þess að hvetja hann til verksins. Að það sé verið að teikna upp kolskakka mynd af því sem raunverulega gerðist. Meðal annars gagnvart útlendingum. Þetta er baráttan um hver skrifar söguna.
„Þarna var verið að birta mynd en skýringar sem eru alveg út í móa. Að það hafi verið einhverjir vondir útlendingar sem orsökuðu hrunið?!“
Þorvaldur segir að verið sé að fela pólitíska ábyrgð með slíku uppleggi. Og sú hafi í raun verið línan lengi. Á ýmsum vígstöðvum. Því vill hann mótmæla. Sín nálgun sé krítískari og dýpri.
„Já, ég þykist nú vera með hana.“
Eins og áður sagði hefur Þorvaldur unnið að þessu verki lengi, eiginlega frá því fyrir hrun. Í fyrstu hafði hann hugsað sér að gefa bókina út sem rafbók en svo fékk hann mikla hvatningu, ákvað að láta slag standa og koma þessu í almennilega útgáfu. „Ég lét slag standa. Ég vissi ekkert hvernig fólk tæki þessu en verð að segja eins og er að viðbrögðin hafa verið æðisleg. Endalaust jákvæð.“
Og hverjir skipuðu svo Eimreiðarhópinn? Það er rakið ítarlega í bókinni:
Hefur engar áhyggjur af ofsóknum Eimreiðarhópsins
Nú má búast við því að bók þín verði afgreidd með þögninni, nema Hannes stingi niður penna og svo verður þú sakaður um að vera geðbilaður. Ertu búinn að ákveða hvernig þú bregst við því?
„Haha! Já hef engar áhyggjur af því. Bókin hefur fengið svo góð viðbrögð hjá svo mörgum að skilaboðin lifa og rannsóknin kveikir hugmyndir og lífgar baráttuna fyrir betra samfélagi.“
Þorvaldur segir að nú sé runnin upp ögurstund. Þó Eimreiðarhópurinn hafi svo gott sem lokið sínu erindi sé baráttunni um Ísland hvergi nærri lokið.vísir/vilhelm
Þorvaldur starfar nú sem stendur hjá ERA viðskiptaþjónustu við svona allt mögulegt. Hann segist ekki óttast hefndaraðgerðir af hálfu hópsins?
Nei, ekkert sérstaklega. Lögfróðir menn hafa lesið handritið. Þetta á allt að vera svo vel undirbyggt að hætturnar eru ekki miklar. Og eins og áður sagði, þá er ekkert sem kemur manni beinlínis á óvart.“
En það sem ég velti fyrir mér er hvers vegna stór hópur Íslendinga ýmist lokar augunum fyrir þessu eða afneitar?
„Það er eiginlega magnað. Því þarna blasir stórspillingin við út um allt. Og upphæðirnar sem hlutfall af landsframleiðslu brjálæðislegar.“
Lifum á viðsjárverðum tímum
Og nú erum við á ögurstundu, við erum uppi á sögulegum tímum. Fellur þetta allt í sama farið eða verður einhver breyting?
„Það er risaspurningin. Þegar allt fjármálakerfið verður einkavætt, andlit Kaupþings stýrir Seðlabanka Íslands og krónuleikfangið á floti, þá er voðinn vís. Hvað hindrar leikinn með krónuna? Ný vaxtamunarviðskipti? Eða tæmingu Seðlalanka Íslands? Erlendu lánin, undanlit eftirlitsins. Þetta getur svo auðveldlega farið af stað aftur.“
Jú.
„Það var aldrei tekið á Seðlabankanum. Aðgengi að upplýsingum er hörmung. Rannsókn var aldrei gerð. Ég reyndi að spyrjast fyrir um þetta vegna þess að Davíð sagðist ekki hafa leyfi til að kíkja í bókhald bankanna. Hvort lögfræðisvið Seðlabanka Íslands hefði gefið álit, en ég fékk ekkert svar. Hundruð milljarða undir og norrænir seðlabankastjórar áttu ekki orð. Svo sjálfsagt að þurfti ekki einu sinni lög. Við verðum að opna fyrir aðhald blaðamanna og stjórnarandstöðu?“
Þorvaldur segir stöðuna eins og hún er stórhættulega og Seðlabankinn geti auðveldlega rústað hagkerfinu. Ég geri ekki ráð fyrir því að þú kjósir xD?
„Haha, nei. Einhver sem las bókina sagði að hann gæti ekki skilið hvernig nokkur maður gæti kosið xD eftir að hafa lesið bókina.“
(tekið af stangli: úr fórum Jakobs, af visi.is 24. XI. 2023)
Það jaðrar við Arnar Þór; að Síkileyjar Mafían ásamt Congó- Skæruliðum
og Skínandi stíg í Suður- Ameríku sjeu virðingarverðari í sínu brambolti
en það hjerlenda niðurrifslið, sem hefur fengið að leika lausum hala allt
of lengi - og:: gerir því miður enn.
Með beztu kveðjum; af Suðurlandi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 24.11.2023 kl. 15:49
SÆll Arnar;
ert þú með það á hreinu hvað þú ætlar að kjósa í næstu kosningum?
Dominus Sanctus., 24.11.2023 kl. 15:53
Mér sýnist að því skarpari sem Arnar er,fari langreyndir ráðherrar hjá sér! Nema hvað?
Helga Kristjánsdóttir, 25.11.2023 kl. 02:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.