Píratar spruttu fram á sjónarsvið stjórnmálanna víða um heim árið 2006, en mælast hvergi með yfir 3% fylgi í sviði landsmála, nema á Íslandi og í Tékklandi. Velgengni þeirra hér á landi er ráðgáta sem telja má verðugt verkefni fyrir stjórnmálafræðinga. Flokkurinn lagði áherslu á borgaraleg réttindi, sérstaklega friðhelgi einkalífs, gegn hvers kyns kúgunartilburðum ríkisvalds. Samhliða þessu hafa þingmenn flokksins viljað skipa sér fremst í flokk ,,siðbótarmanna" á sviði stjórnmálanna, þar sem kjörnir fulltrúar hafa átt að vera siðferðileg fyrirmynd kjósenda. Siðapredikanir Pírata koma mörgum spánskt fyrir sjónir, þar sem þeir í hinu orðinu hafa verið eindregnir afhelgunarsinnar og beitt sér af nokkurri hörku gegn hefðbundnum siðum, helgidagalöggjöf og viðteknum samfélagslegum gildum, sérstaklega kristnum gildum. Píratar hafa í framkvæmd komið fram sem afstæðishyggjumenn, þ.e. að enginn sannleikur sé til, nema reyndar sá sannleikur sem þau sjálf boða.
Dæmin sanna að Píratar hafa reitt hátt til höggs yfir þingmönnum annarra flokka og nýtt hvert tækifæri til að láta höggin dynja á fólki úr ræðustól Alþingis með umvöndunum, vandlætingu og kröfum um afsagnir. Mögulega er það misminni, en var ekki sérstök siðanefnd Alþingis sett á fót að frumkvæði Pírata? Í starfi þeirrar nefndar sannaðist að ,,sér grefur gröf þótt grafi", því fyrsti þingmaðurinn sem nefndin taldi brotlegan við siðareglur var helsti siðapostuli Pírata sjálfra, sem kaus að taka ekkert mark á niðurstöðu nefndarinnar.
Með allt framangreint í huga og eftir að hafa fylgst með þingmönnum Pírata bæði í fjarlægð og í návígi, verður stöðugt óskýrara hvað þessi flokkur stendur fyrir. Sú mynd verður enn óskýrari þegar lesin eru eftirfarandi ummæli þingmanns Pírata sem handtekinn var um helgina, en eftirfarandi texta má finna á bls. 2 í Morgunblaði dagsins:
Arndís þakkar lögreglunni skjót og góð vinnubrögð þótt þeir hafi ekkert vitað hvað var í gangi og að mínu mati með öllu tilefnislaust, sem sagt það sem gerist. Ég fagna viðbrögðum lögreglunnar vegna þess að Kíkí er hinsegin staður og þarna eru einstaklingar sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu og það er gríðarlega mikilvægt að öryggi fólks sé tryggt og lögreglan hafi komið án þess að spyrja spurninga. Lögreglan kemur bara vegna þess að dyraverðir óska aðstoðar. Hún bara kemur, spyr engra spurninga. Lögreglan kom mjög fagmannlega fram og ég vil koma þökk um til þeirra. Þeir voru kurteisir og brugðust hratt við og allt frábært þar, segir Arndís.
Íslenskir kjósendur hafa á fyrri stigum séð hvernig siðbótaráherslur flokksins fjúka út um gluggann þegar Pírötum sjálfum verður á. Í tilvitnuðum ummælum má sjá hversu léttvæg borgaraleg réttindi eru í huga handtekins Pírataþingmanns sem þakkar lögreglu fyrir formálalausa og skilvirka handtöku ,,án þess að spyrja spurninga".
Þeir sem hingað til hafa viljað vona að Píratar séu málsvarar borgaralegra réttinda gagnvart sífellt aðgangsharðara eftirlits- og lögregluríki, geta nú gefið þá von frá sér. Ummæli þingmannsins, sem fagnar umyrðalausri og skjótri valdbeitingu lögreglu, eru í takt við aðra framgöngu kjörinna fulltrúa Pírata, sem í verki og framgöngu festast í smáatriðum og missa þannig sjónar á aðalatriðum, virða formreglur meira en efnisreglur og eru, greinilega, tilbúin að fórna borgaralegum réttindum á altari lögregluríkisins.
Kannast ekki við fordæmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki veit ég alveg hvort þetta sé alveg rétt hjá mér en ég tel mig hafa skýringu, að hluta til, á fylgi Pírata hér á landi. Ég tel að mikið af þessu unga fólki og ýmsum "anarkistum" sem ekki hafi fundist þeir hafi ekki fundið sig í hefðbundnu flokkakerfi, hafi fundist P´ratarnir koma inn með "ferskan blæ" og kosið þennan flokk. En svo hefur þetta sama fólk ekki haft fyrir því að endurskoða þessa afstöðu sína heldur halda þeir áfram að kjósa þetta lið.....
Jóhann Elíasson, 27.11.2023 kl. 12:43
Fylgi Pírata er mér að nokkru ráðgáta, en þó eru ákveðnar skýringar.
Í fyrsta lagi nota margir Pírata til að kasta atkvæði sínu af af því að þeir finna engan flokk, sem þeir eru ánægður með.
Í öðru lagi hafa þeir enn náð að halda þeirri ímynd hjá að vísu stöðugt minnkandi hópi, að þeir séu flokkur siðvæðingar í íslenskri pólitík, sem kemur nú betur og betur í ljós að þeir eru ekki .
Í þriðja lagi skýrist fylgi þeirra af óánægju margra vegna þess að við höfum aldrei gert upp hrunið til fullnustu.
Í fjórða lagi skýrist fylgi þeirra af því, að ungliðadeildir annarra stjórnmálaflokka eru meira og minna dauðar eða aðgerðalausar eftir að flokkarnir fóru á ríkisjötuna og urðu stofnanir. Píratar hafa getað varðveitt þá ímynd, að þeir séu ekki stofnun eins og hinir flokkarnir þó þeir séu það.
En nú er sennilega komið að ögurstundu hjá Pírötum. Þeir hafa ekki af neinu að státa, en eru nú umluktir hneykslismálum og þar sem þeir hafa talist stjórntækir þ.e. í Reykjavík, þá er það tóm skelfing hvar sem á er litið.
Jón Magnússon, 27.11.2023 kl. 18:17
Sælir báðir, Jóhann og Jón. Takk fyrir þessar viðbætur, sem eru hjálplegar í leit að skýringum á þessum undarlegheitum öllum. Þessi flokkur sem kenndi sig við einhvers konar anarkisma og jafnvel einhverja útgáfu frjálshyggju í upphafi er orðinn mesti kerfis-útþensluflokkur landsins og er þá mikið sagt. Ríkið á að leysa úr öllu með eftirliti og reglum og síðast en ekki síst með peningaútgjöldum í allt mögulegt. Tíma annarra þingmanna og embættismanna er sóað í tilgangslausar fyrirspurnir. Þarna er öllu snúið á hvolf sem hægt er. Meira er lagt upp úr að tala oft og lengi en að segja eitthvað vitrænt í ræðustól Alþingis. Mér þykir leitt ef ég er leiðinlegur við þau.
Arnar Þór Jónsson, 27.11.2023 kl. 21:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.