Vinnandi fólk má gagnrýna starfshætti lífeyrissjóðanna

Íslenskir lífeyrissjóðir eru ríki í ríkinu. Slík fyrirbæri þurfa meira aðhald, ekki minna. Í því ljósi má hafa vissan skilning á því að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafi ásamt fleira fólki farið inn á skrifstofur lífeyrissjóðsins Gildis til að láta menn heyra rödd félagsmanna sinna, sem vilja að sjóðurinn veiti Grindvíkingum grið meðan þeir eru á vergangi. Félagsmenn í VR sem borga í Gildi hafa fullan rétt á að gagnrýna vinnubrögð sjóðsins. 

Hér skal ekki útilokað að Ragnari eða félögum hans kunni að hafa verið heitt í hamsi og vera má að einhver hafi leyft sér að segja sínar skoðanir umbúðalaust við þetta tækifæri. Í frjálsu samfélagi hafa menn rétt til að tjá skoðanir sínar, jafnvel með gjallarhorni kjósi þeir það. Í frjálsu samfélagi er ekki bannað að ,,viðhalda neikvæðri umræðu".  

En hverju skyldu nú stjórnendur lífeyrissjóðsins hafa svarað? Er hægt að sjá að gagnrýni Ragnars Þórs og félaga hafi verið svarað málefnalega? Nei, ekki ef marka má forsíðu Morgunblaðsins í dag, þar sem framkvæmdastjóri sjóðsins freistar þess að beina sjónarhorninu frá aðalatriðinu (raunverulega viðkvæmri stöðu Grindvíkinga gagnvart sjóðnum) að aukaatriði (tilfinningum starfsmanna sjóðsins, með fullri virðingu fyrir tilfinningalífi þeirra).  

Stjórnendur íslenskra lífeyrissjóða starfa í fílabeinsturnum. Dvelji fólk of lengi í slíkum turnum missir það jarðsamband. Fólk með silkihúfur getur haft mikið gagn af því að hitta þá sem fjármagna fílabeinsturnana og silkihúfurnar. Ef menn telja sig þurfa gjallarhorn til að rjúfa þagnarmúrinn, þá hlýtur það að vera í lagi meðan ekki er gengið lengra en það. Ekkert í frétt Morgunblaðsins bendir til að Ragnar Þór og félagar hans hafi yfirstigið þær markalínur sem dregnar eru í lýðræðislegu samfélagi. Vinnandi fólk má hafa sína rödd og beita henni eins og þeim þykir þurfa. Tilfinningar áheyrenda eiga ekki að ráða því hvernig launamenn tala. ,,If liberty means anything at all it means the right to tell people what they do not want to hear". 


mbl.is Framganga Ragnars gagnrýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Orðsending til Sjálfstæðismanna sem vilja gagnrýna þessa starfshætti Ragnars Þórs: Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður til að standa vörð um frelsi fólks til orðs og athafna. Allir sem hafa lifandi sjálfstæðistaug ættu að taka afstöðu með málfrelsinu og gegn þöggunartilburðum sem byggðir eru á tilvísun til þess að gagnrýni (með eða án gjallarhorns) valdi þeim tilfinningalegu uppnámi. Málfrelsið er kjarni alls frelsis. Með fullri virðingu fyrir tilfinningum annarra eiga þær ekki að víkja hornsteinum laga og stjórnarskrár til hliðar.

Arnar Þór Jónsson, 7.12.2023 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband