Andlegt vítamín

Kæru lesendur.

Í þessu skammdegismyrkri þurfum við að eiga innra með okkur von og styrk til að brjótast í gegnum myrkrið eins og frækornin sem nú bíða í jörðu eftir að brjótast fram í vor og taka á móti næringu himins í formi regns og sólarljóss. 

Að því sögðu leyfi ég mér að deila hér texta sem elskuleg eiginkona mín, Hrafnhildur Sigurðardóttir, skrifaði í morgun og deildi á síðu sem heitir Viska ljóssins, en innihaldið á erindi við okkur öll: sól

Nú grúfir myrkrið yfir öllu og minnir okkur óneitanlega á hversu mikilvægt er að leyfa því ekki að ná yfirhöndinni. Til að létta lundina kveikjum við á kertum, kúrum okkur undir teppum og hlúum vel að okkur. Hafðu það að takmarki þínu að umvefja fólkið þitt hlýju og ljósi, líkt og teppið og kertið gerir. Margir eiga um sárt að binda og þá er gott að gefa sér stund í næði til að hleypa ljósi Guðs í hjartað og sjá síðan fyrir sér hvernig ljósið streymir frá hjartanu til allra þeirra sem í kringum þig eru, sérstaklega þeirra sem standa höllum fæti.
Hugarorkan fer hraðar en allt og ratar á réttan stað. Hugarorkan er eitt sterkasta afl veraldar og því skaltu alltaf dvelja við jákvæðar og uppbyggjandi hugsanir. Allt sem þú hugsar um getur orðið að veruleika. Sjáðu það fyrst fyrir þér í huga þínum, finndu tilfinninguna í hjarta þínu og leyfðu síðan tilfinningunni að streyma um allan líkamann. Sjáðu fyrir þér þann veruleika sem þú óskar þér. Sjáðu fyrir þér bestu mögulegu útkomu eins og sú útkoma sé núþegar orðin að veruleika. Dragðu framtíðina til þín með hugaraflinu. Í því tilliti er gott að fara með jákvæðar staðhæfingar sem byrja á orðunum „Ég er“, til dæmis eins og þessar:
Ég er frjáls
Ég er farvegur ljóssins
Ég er fegurð Guðs holdi klædd/ur
Ég er elskað barn Guðs
Ég er heilbrigð/ur og hraust/ur
Ég er friðsæl sál
Ég er leiðtogi lífs míns
Það er vel hægt að snúa þessum setningum á annan aðila með því að byrja setningarnar á „Þú ert“ og sjá um leið fyrir sér viðkomandi eflast og styrkjast.
Njóttu þess að hleypa ljósinu betur að þér og áður en þú veist af verður myrkrið horfið úr hugum og hjörtum.
Megi Guð vera með þér í dag og vertu meðvituð/meðvitaður um að þú ert farvegur ljóssins, farvegur Guðs.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband