21.12.2023 | 08:32
Dagsbirta frjálsrar umræðu mun koma sér illa fyrir þá sem starfa í þögn og myrkri
Íslendingar verða, ég endurtek verða, að fara að líta upp og skilja hvað er að gerast. Undir merkjum alþjóðlegra stofnana er unnið að því að skerða íslenskt ríkisvald, rýra efnahag Íslendinga og framselja sjálfsákvörðunarrétt okkar sem einstaklinga og sem þjóðar. Þetta er gert með beinum og óbeinum atbeina kjörinna fulltrúa okkar og framkvæmt af embættismönnum sem eru á launaskrá hjá íslenskum skattgreiðendum. Alvarleiki þessarar þróunar, sem kalla mætti atlögu að þjóðaröryggi, er slíkur að Íslendingum leyfist ekki lengur að horfa fram hjá því sem hér er að gerast.
Fullveldi er mögulega ógagnsætt orð, en allir geta skilið kjarna þess, sem er sjálfsákvörðunarrétturinn. Sjálfsákvörðunarrétturinn liggur til grundvallar öllum almennum mannréttindum, þ.e. til tjáningar, trúar, funda, ferða o.s.frv. Enginn heilvita maður myndi afsala sér þessum rétti í hendur fjarlægra stofnana. Hvers vegna ættu Íslendingar að vilja styðja slíkt framsal og skerða þar með möguleika sína á að móta eigin nútíð og framtíð? Sagan sýnir skýrlega að þjóðir sem missa frá sér þennan rétt glata ekki aðeins völdum úr landi, heldur einnig auði.
Þetta er nú að raungerast í beinni útsendingu, sbr. nú síðast þessa umræðu á Alþingi 16.12. sl. um viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir, þar sem meirihluti Alþingis samþykkti, þegjandi, að skerða samkeppnishæfni Íslands og gera allan innflutning til landsins dýrari. Þessi nýju lög munu því ekki aðeins leiða til hækkaðs verðlags, heldur einnig auka verðbólguþrýsting.
En þetta er ekki það eina. Þann 30.11. sl. sendi ég öllum þingmönnum minnisblað um regluverk WHO sem nú er í undirbúningi. Afrit var sent öllum helstu fjölmiðlum hérlendis. Í dag, 20 dögum síðar, vil ég vekja athygli lesenda á því að þessari sendingu minni hefur verið svarað með þögninni einni.
Hvernig ber að túlka þessa þögn kjörinna fulltrúa Íslendinga um mál sem varða fullveldi þjóðarinnar og afskipti erlendra stofnana af innanríkismálum, friðhelgi fólks og sjálfsákvörðunarrétti okkar sem einstaklinga og sem þjóðar? Eru þessir kjörnu fulltrúar okkar farnir að vinna gegn okkur? Hafa þeir snúist í hollustu sinni? Ef svo er, þá er tímabært að kjósendur minni á hverjir eru hinir raunverulegu valdhafar, því ríkisvaldið stafar frá þjóðinni og kjörnir fulltrúar hafa engin önnur völd en þau sem við höfum afhent þeim tímabundið.
Góðu fréttirnar eru þær, að í Bretlandi og víðar eru sjáanleg merki um straumhvörf. Í breska þinginu fór fram merkileg umræða um WHO í síðustu viku, þar sem sjá má að Andrew Bridgen stendur ekki lengur einn, heldur hafa fleiri þingmenn fundið hjá sér kjark, sem mögulega stafar af auknum skilningi, til þess að rísa á fætur, spyrja gagnrýninna spurninga, lýsa efasemdum, andmæla og koma lýðræðinu, fullveldinu og sjálfsákvörðunarréttinum til varnar.
Úr því að þessi jákvæða þróun er hafin er erfitt að sjá að hún verði stöðvuð. Þingmenn sem vinna gegn eigin þjóð, sem með þögn sinni vega að þjóðaröryggi, sem með athafnaleysi grafa undan efnahag fósturjarðarinnar, munu líta illa út þegar reikningsskilin verða.
Athugasemdir
Ég sé i hyllingum einskonar vönd sem ógnar þessum svikurum,nei engar gamaldags flengingar,en ég el með mér von að það hljóti að mega beita löglegri hegningu sem stöðvar eyðileggingu þeirra á þjóð okkar.Hvernig sækir þjóð rétt sinn við opinberu broti á okkar helgustu vörnum Stjórnarskrárinnar? Sendum öll kröfu um að Ríkisstjjórnin segi af sér.
Helga Kristjánsdóttir, 22.12.2023 kl. 08:53
Hér er þér gefin línan sem þér er sagt að fara. Getur þú spornað a móti?
https://www.youtube.com/watch?v=lCz7V3iT8ew
Guðmundur Örn Ragnarsson, 22.12.2023 kl. 23:22
Ertu að tala um sama Andrew Bridgen og var vikið af þingi og rekinn úr Íhaldsflokknum fyrir að dreifa bulli og hræðsluáróðri um Covid bóluefnin?
Grímur (IP-tala skráð) 23.12.2023 kl. 10:06
Grímur, í ljósi þess að breski Íhaldsflokkurinn er orðinn viðskila við allt sem heitir íhald og í raun orðinn hluti af mygluðu stofnanakerfi, sem þjónar sjálfu sér fremur en kjósendum, þá kemur á óvart að þú skulir telja það mælikvarða á verðleika mannsins hvort hann er flokkseigendunum þóknanlegur. Þessi ágæti maður hefur sýnt vilja til að sinna aðhaldshlutverki sem þingmaður, m.a. með því að spyrja gagnrýninna spurninga um umframdauðsföll og alvarlegar aukaverkanir af þessum lyfjum, sem raunar er orðið ljóst að eru alvarlegar í mörgum tilvikum ... og það er því miður ekkert bull. Sjá t.d.
https://www.medrxiv.org/content/10.1101/2023.11.14.23298544v1.full.pdf
https://www.medrxiv.org/content/10.1101/2023.11.15.23298565v1.full.pdf
https://hatchardreport.media/korean-studies-indicate-what-our-government-is-hiding/
https://hartuk.substack.com/p/vax-harms
Arnar Þór Jónsson, 24.12.2023 kl. 10:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.