Skýrir valkostir í birtu þessara jóla - og allra hina fyrri

Í aðdraganda jóla erum við nánast þvinguð til að horfast í augu við okkur sjálf. Á jólum verður tíminn ekki lengur láréttur (í gær - í dag - á morgun) heldur lóðréttur í þeim skilningi að aðfangadagur þessa árs rennur saman við sama dag fyrri ára. Við verðum aftur börn, endurupplifum gamla reynslu, gleymdar tilfinningar, skynjum tilvist okkar á annan hátt en venjulega. Við erum hlekkur í langri keðju sem tengir okkur við reynslu fyrri kynslóða og minnir okkur á ábyrgðina sem við berum gagnvart síðari kynslóðum. Við megum ekki vera veikasti hlekkurinn, þar sem samhengið rofnar.

Við værum ekki hér ef fyrri kynslóðir hefðu ekki hætt lífi sínu, stritað, byggt upp og lagt grunninn að því sem við höfum í dag. En verðmætin eru ekki aðeins það sem áþreifanlegt er. Hinn sönnu verðmæti eru óáþreifanleg og þau eru ekki af þessum heimi, því lífi okkar lifum við ekki aðeins í láréttu tilliti, þar sem menn reyna að meta virði sitt og velgengni í samanburði við aðra menn, heldur einnig í lóðréttu tilliti, þar sem mælikvarðinn er alvarlegri, þ.e. mælikvarði góðs og ills. Þegar við fetum okkur út úr skammdegismyrkrinu er gott að spyrja sig hvernig orð okkar og athafnir eru metnar á síðarnefnda mælikvarðann, þar sem prófsteinarnir eru þessir: Er þetta gott, er þetta fagurt, er þetta satt? 

Hinn vestræni heimur ársins 2023 er uppfullur af blekkingum, sjónhverfingum, afstæðishyggju og ósannindum. Þessi heimur vill færa okkur þau skilaboð að ekkert sé til annað en það sem er áþreifanlegt og mælanlegt; að efnishyggjan sé það eina sem veitir okkur hald í ólgusjó lífsins. 

Jólin eru áminning um aðra sýn á líf okkar. Í helgi jólanna leysist efnið upp í frumeindir og ef djúpt er skoðað þá skynjum við annan heim að baki. Frammi fyrir þessu getum við samt sem áður valið að leika hlutverk Pílatusar og láta eins og við þekkjum ekki sannleikann þótt hann standi holdi klæddur fyrir framan okkur. En við höfum líka alltaf val um að leggja niður varnir okkar, reyna ekki að belgja okkur út með veraldlegu valdi, peningum og hégóma, heldur játa það sem satt er og verja það sem telja má heilagt, saklaust og hreint. Ef það þýðir að við þurfum að taka afstöðu gegn ráðandi öflum, þá verður svo að vera, því á mælikvarða eilífðarinnar eldist afstæðishyggja og hugleysi ekki vel: 

Þá segir Pílatus við hann: „Þú ert þá konungur?“
Jesús svaraði: „Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er sannleikans megin heyrir mína rödd.“
Pílatus segir við hann: „Hvað er sannleikur?“ 

(Jóh. 18:37-38)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleðileg jól!

Grímur (IP-tala skráð) 24.12.2023 kl. 11:28

2 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Takk sömuleiðis Grímur. Haltu áfram að beita gagnrýnnni hugsun á það sem þú sérð og heyrir. Málefnaleg gagnrýni er vel metin. 

Arnar Þór Jónsson, 24.12.2023 kl. 11:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband