29.12.2023 | 10:10
Sigling þjóðarskútunnar á ekki að vera í höndum áttavillts fólks
Allir sem hér búa - og allir sem hingað flytja - vilja búa í góðu þjóðfélagi. Slíkt samfélag verður ekki til af sjálfu sér, því þetta er samvinnuverkefni. Um borð í þjóðarskútunni eru fá, ef nokkur, farþegasæti í boði. Frá fyrstu dögum Íslandsbyggðar hefur það verið grunnstef að allir taki ábyrgð á sjálfum sér og nærumhverfi sínu. Um það má lesa í Hávamálum, hvernig allir geti orðið að liði í þessu samhengi, þrátt fyrir fötlun eða veikleika.
Áhyggjur mínar af stöðu Alþingis og íslensks lýðræðis hafa aukist eftir því sem ég kynnist stjórnmálunum betur. Þar eru stundaðar endalausar málamiðlanir, án sjáanlegrar stefnufestu. Íslensk stjórnmál eru iðkuð í einhvers konar tilbúnu tómarúmi, í prinsippleysi, þar sem flestir stjórnmálamenn virðast hafa mestan áhuga á hagsmunagæslu fyrir eigin flokk og sínum eigin pólitíska frama. Fulltrúalýðræðið er að bregðast okkur.
Við stöndum frammi fyrir þríþættum vanda:
1. Ríkisvaldið er að renna saman við hið fjárhagslega vald og þar vísa ég sérstaklega til alþjóðlegs ofurfjármagns.
2. Stjórnmálaflokkar á íslandi eru að renna saman í eitt marghöfða skrímsli, þar sem engu skiptir hvað er kosið, því alltaf er framfylgt sömu stefnu.
3. Stjórnmálaflokkarnir hafa verið höggnir af sinni lýðræðislegu rót og þurfa ekki lengur á neinu grasrótastarfi að halda. Flokkarnir lúta forsjá og forystu flokkseigenda sem ekki hafa sig þó endilega mikið í frammi. VG eru orðnir hvatamenn ófriðar, Samfylkingin hefur ekki staðið vörð um hagsmuni hins almenna launamanns, Sjálfstæðisflokkurinn hefur brugðist vonum sinna kjósenda með því að þenja út ríkisvald, hækka skatta og þrengja að borgaralegu frelsi. Um Framsóknarflokkinn þarf ekki að tala sérstaklega, enda hefur hann aldrei staðið fyrir nein prinsipp.
Um þetta og margt fleira fjalla ég í þessu nýja viðtali og vona að sem flestir hlusti. Islendingar geta ekki lengur leyft sér að sýna áhugaleysi og sofandahátt, því hér er mikið í húfi. Þegar siglt er um úfið haf er ábyrgðarlaust að leyfa áhugalausu og áttavilltu fólki að stýra för.
Athugasemdir
Mikið hefði ég viljað að þú hefðir verið að finna upp "hjólið" en svo er ekki. Það er gott að þú fjallar um þetta sem þó flestir vita en því miður heldur fólkið í landinu áfram að kjósa og treysta "fjórflokknum" og meðan svo er þá gerist ekkert annað en kyrrstaða og reddingar fyrir "sérhagsmunaöflin" sem hér virðast stjórna öllu.
Sigurður I B Guðmundsson, 29.12.2023 kl. 13:19
Ég er sammála. Þetta er sorgleg þróun. Það er eins og fólk sé hætt að hugsa sjálfstætt. Það getur verið hættulegt vægast sagt.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 29.12.2023 kl. 14:38
Til hamingju, þér tókst einhvern veginn með þessum pósti að segja nákvæmlega ekki neitt. Dæmigerð stjórmála þvæla.
Hin raunverulega vá og mestan hættan sem steðjar að Íslendingum er lýðfræðilegt hvarf Íslendinga.
Málefni eins og skipting fjárhagsvalds og herslumunur á stjórnmálaflokkum á Íslandi skiptir nákvæmlega engu máli ef engir Íslendingar eru eftir á landinu til þess að þrasa um það. Hugleysi og kóun stjórnmálamanna með þessari þróun er vottur að landráðum og mun vera skráð á spjöld sögunar sem bæði skömm og glæpur gegn Íslenskri þjóð.
Mordur (IP-tala skráð) 30.12.2023 kl. 22:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.