30.12.2023 | 10:39
Hver er framtíðarsýnin?
Í framhaldi af fyrri færslu um skólakerfið hef ég átt samtöl um stöðu náms og kennslu á Íslandi. Hvað er verið að kenna / í hvað fer tíminn í skólakerfinu ef stór hluti barnanna lærir ekki að lesa á 10 árum þar? Þjónar skólakerfið þeim tilgangi að kenna börnum að hlýða fyrirskipunum? Að framleiða hlýðna þegna sem spyrja ekki spurninga og vilja helst láta lítið fyrir sér fara? Miðar kerfið að því marki að útskrifa fólk sem er þjálfað í að ganga í takt, hlýða bjölluhringingum, sitja í lokuðum rýmum fyrir framan skjá og er í stuttu máli fyrirsjáanlegt og auðvelt að stjórna?
Þetta eru spurningar sem vel er þess virði að ræða um, því ekki er lengur hægt að láta eins og allt sé í lagi í okkar rándýra skólakerfi. Getum við ekki bætt nám og kennslu með því að af-kerfisvæða það? Með því að leggja áherslu á að börnin þjálfist í að birta það sem innra með þeim býr? Fái þjálfun í að tjá hugsun sína? Fái tækifæri til að tengjast bæði eldra og yngra fólki í stað þess að vera einangruð, árum saman, með jafnöldrum sínum? Þegar fólk er hólfað niður eftir aldri og þegar dagarnir lúta stífri dagskrá excel-skjals er kannski ekki mikið rými eftir til að kynnast fjölbreytileika lífsins og litbrigðum tilverunnar. Niðurnjörvað skólakerfi einangrar nemendur ekki aðeins frá fortíð, heldur einnig frá framtíðinni. Eða hver er framtíðarsýn ungra Íslendinga þegar þau koma út úr þessu kerfi, mögulega með laskaða sjálfsmynd? Er það að komast í vel launað starf við að selja þjónustu sína? Flytja vörur á milli staða? Senda tölvupósta? Tala í síma? Koma sér í mjúkinn hjá yfirvaldinu til að fá stöðuhækkun? Segja ekkert sem gæti hægt á eða hindrað framgang í starfi? Er þetta sú framtíðarsýn sem við viljum bjóða börnunum okkar?
Við getum boðið betur. Við eigum að hjálpa þeim að finna og rækta hæfileika sína, þora að treysta á eigin getu, geta staðið á eigin fótum, verða sterkir einstaklingar sem geta létt undir með öðrum. Við eigum að ganga á undan með góðu fordæmi, því landið okkar og umheimurinn þarfnast fólks sem býr yfir kjarki og visku og getur sýnt hófsemi og iðkað réttlæti í raunheimum og á sjálfstæðum forsendum. Takist þetta ekki aukum við líkurnar á því að næsta kynslóð verði háð öðru fólki, ríkinu, ánetjist spilafíkn, vímuefnum eða öðrum löstum.
Hvernig framtíð viljum við sjá? Það er i okkar valdi að móta þá sýn og hjálpa æskunni að blómstra. Það gerum við ekki með því að hvetja til þess að menn hafi trú á ,,kerfinu", heldur að menn hafi trú á sjálfum sér og æðri mætti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.