4.1.2024 | 07:54
Tilkynning um framboð til embættis forseta Íslands
Ávarp flutt á blaðamannafundi 3. janúar 2024
Við Íslendingar státum af merkri laga- og lýðræðishefð. Landnámsmenn komu hingað úr ýmsum áttum, frá Bretlandseyjum, Noregi og víðar. Hingað kom fólk með mismunandi bakgrunn og talaði mismunandi tungumál. Færð hafa verið rök fyrir keltneskum menningaráhrifum í tungumáli og ritmenningu Íslendinga. Ef lagt er til grundvallar að landnám hafi hafist um 870, þá er líka almennt talað um að landnámsöld hafi lokið árið 930 með því sem kalla má heimssögulegan viðburð, þ.e. stofnun Alþingis, þar sem menn lýstu því yfir að hér vildu menn útkljá sín mál með lögum, en ekki með hnefarétti. Íslenska þjóðveldið stóð fram á 13. öld, en vegna innri veikleika og ytri íhlutunar magnaðist sundurlyndi og vantraust manna á milli sem leiddi til beinna átaka og innanlandsófriðar, sem lauk með því að Íslendingar gengust erlendu konungsvaldi á hönd árið 1262/1264 í skiptum fyrir frið, verslun og viðskipti. Áhugavert er að rifja upp að innan við 10 árum síðar, nánar tiltekið árið 1271 og aftur 1281 sendi konungur hingað lögbækur með vísan til þess að nú væri runninn upp nýr tími þar sem lögin birtust sem valdboð að ofan. Þetta neituðu Íslendingar að samþykkja því okkar lagahefð byggðist á því að lögin mótuðust í daglegu lífi manna, yxu úr grasrótinni og upp. Öldum saman eftir þetta mótmæltu Íslendingar einhliða lagasetningarvaldi konungs.[1] Á þessum grunni byggðist sjálfstæðisbarátta Íslendinga á 19. og 20. öld, þ.e. að við vildum fá að ráða okkar eigin örlögum, ekki að lúta erlendu yfirvaldi eða ólýðræðislegri yfirstétt. Frjáls þjóð í frjálsu landi býr við lög sem ver tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi, trúfrelsi og vinnur að því að skapa börnum sínum bjartari framtíð í þjóðfélagi þar sem allir eru jafnir fyrir lögunum og njóta frelsis til skoðanaskipta og til að gagnrýna á yfirvöld. Á grundvelli viðskiptasamnings (EES samningsins) seilist ESB nú eftir því að ráða lögum hérlendis í sífellt ríkari mæli. Í nafni öryggis seilast erlendar stofnanir nú til áhrifa og ítaka hér á landi.
Með þessu er ég ekki að segja að sagan endurtaki sig en sagan birtir endurtekin stef og hún færir okkur viðvaranir sem rétt er að menn þekki og dragi viðeigandi lærdóm af, því vítin eru til að varast þau.
Við lifum nú enn á ný á tímum vantrausts, sundrungar og ófriðar, þar sem verið er að reka fleyga á milli manna og þjóðfélagshópa, þar á meðal milli karla og kvenna. Í ljósi sögunnar þurfum við að verjast slíku niðurbroti og vera vera vakandi gagnvart þeim sem vilja tvístra okkur / auka á vantraust / ala á óvild. Hver sem elur á sundrungu og vill skapa óvild / hatur út frá kyni, kynhneigð, húðlit, trú eða öðru gerir málstað sínum meira ógagn en gagn.
Við þurfum að minna hvert annað á að við eigum hér sameiginlega hagsmuni, sameiginlegt heimili, sameiginleg gildi. Þorri þjóðarinnar á sér sama siðgæðisgrundvöll til að standa á. Um meginstefin er samhljómur og þau sameina okkur.
Hér er um að ræða málefni sem standa ofan við pólitík: Um sjálfstæði þjóðarinnar, um jafnrétti allra fyrir lögunum, um frelsi okkar og sjálfsákvörðunarrétt. Þetta eru mikilvægustu hagsmunamál okkar og að þeim hefur verið sótt á síðustu árum. Þetta eru málefni sem standa hjarta mínu svo nærri að ég sagði upp dómaraembætti árið 2021 til að geta, óhindrað, tekið þátt í frjálsri umræðu um það hvernig verja megi lýðveldið okkar, landið okkar og sjálfstæði þess. Þetta eru stærstu viðfangsefni okkar kynslóðar, því sjálfsákvörðunarréttur okkar og frelsi eru í húfi.
Í þessum efnum hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina á síðustu árum, með sífellt víðtækari innleiðingu erlendra lagareglna sem miðast ekki við aðstæður hér. Við getum vissulega ekki framleitt peninga með því að skrifa betri lög, en hitt er ljóst, að unnt er að skaða / eyðileggja efnahaginn með vondum lagareglum. Erlend löggjöf sem hingað streymir í stöðugt ágengari mynd er farin að hafa neikvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf og skerða hér lífsgæði.
- Stöndum frammi fyrir tilbúnum orkuskorti
- Nýjasta myndbirting þessa valdaafsals birtist í Morgunblaðsgrein Harðar Arnarsonar 27.12. sl., þar sem orðrétt segir:
- Landsvirkjun bar lengi vel ábyrgð á raforkuöryggi almennings. Það fyrirkomulag var afnumið fyrir tuttugu árum þegar evrópskar raforkutilskipanir voru innleiddar á Íslandi.
- Verið að leggja gjöld á flutninga til og frá Íslandi, sbr. lögleiðingu viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir
- Einnig: Frumvarp um bókun 35, sem tókst að stöðva með einbeittu átaki.
- Fyrr í þessum mánuði lét varaformaður Sjálfstæðisflokksins í veðri vaka að hún teldi ekki ástæðu til að almenningur fengi að tjá sig um aðild Íslands að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu, heldur væri það hlutverk stjórnmálamanna.
- WHO: Enginn þingmaður tjáir sig / svarar efnislega aðvörunum mínum um það fullveldisframsal sem nýjar reglur WHO munu hafa í för með sér.
Af framangreindu dreg ég alvarlega ályktun:
Þingmenn farnir að haga sér eins og embættismenn og vísbendingar um að þeir séu ekki að vinna í okkar þágu. Alþingi virðist iðulega bremsulaust. Ef fulltrúalýðræðið er í hættu, þá getur þjóðkjörinn forseti verið öryggisinnsigli í mikilvægustu málum þjóðarinnar.
Þjóðin vill ekki samþykkja það að Ísland sé að fornum og vondum sið gert að léni fárra útvalinna manna sem gengist hafa erlendu valdi á hönd. Slíkt valdafyrirkomulag endar alltaf með því að landsvæði, auðlindir og auður færast á fárra manna hendur, á meðan þorri þjóðarinnar festist í viðjum fátæktar, áhrifaleysis og valdaleysis.
---
Menn og þjóðir þurfa að lúta einhverri stjórn. Mér sýnist, því miður, að kjörnir fulltrúar okkar séu orðnir hallir undir það að afsala sér þessu hlutverki í hendur erlendra stofnana.
Staðreyndin er þessi: Ef við höfum ekki stjórn á sjálfum okkur og ef við tökum ekki stjórn landsins í okkar eigin hendur, þá munu aðrir taka stjórnina til sín.
Við eigum að stjórna okkar eigin för, okkar eigin landi, okkar eigin framtíð. Af því leiðir að ef fulltrúalýðræðið er að bregðast, þá verðum við að taka upp beint lýðræði í mikilvægustu málum.
---
Sérhver kynslóð þarf að axla ábyrgð á varðveislu lýðveldisins og lýðræðisins. Við sem nú lifum þurfum því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að sporna gegn því valdaframsali og þeirri stjórnarfarslegu hnignun sem hefur átt sér stað og enn er að eiga sér stað: Við erum að missa frá okkur sjálfstæðið.
Ísland krefst þess af okkur að við endurheimtum sjálfstæðið, en til að svo megi vera þá þarf að snúa þessari óheillaþróun við og stýra lýðveldinu á rétta braut. Við getum verið fyrirmyndarþjóð, farsæl og friðsöm, en það gerist ekki af sjálfu sér. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum. Með því móti styrkjum við innviði landsins og bætum líf okkar sjálfra. Á þeim grunni getum við litið björtum augum til framtíðar og mætt öllum áskorunum með æðruleysi og af yfirvegun.
---
Ég hef á mínum starfsferli lengst af starfað á vettvangi dómstólanna. Þar blasir við að rétt niðurstaða verður hvorki fundin né varin með því að vera í hlutlausum gír. Dómari þarf að skoða málefnin, finna út úr því hvað sé rétt, taka ákvörðun á grundvelli bestu samvisku, rökstyðja niðurstöðuna og vera reiðubúinn að verja hana því hún þarf að geta staðist gagnrýni. Lýðveldisstjórnarformið byggir á því að æðstu embættismenn ríkisins séu sjálfstæðir í starfi, geti staðið af sér sviptivinda samtímans, hafi yfirsýn og óbrenglaða dómgreind, styrk til að þola gagnrýni, mótlæti, óvinsældir. Þetta fólk þarf í stuttu máli að geta sýnt sjálfstæði í erfiðustu málum og verið heiðarlegt gagnvart sjálfu sér og öðrum.
Um borð í þjóðarskútunni hefur forseti leiðsagnarhlutverk með höndum, auk þess að hafa vald til að geta kastað út akkerum til að hægja á ferðinni ef skipinu er hætta búin.
Þegar núverandi forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti á nýársdag að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri, þá stóð ég frammi fyrir skýrum áskorunum um að bjóða mig fram til þjónustu til að verja þau gildi sem áður voru reifuð. Ég hef lifað þannig að ég vík mér ekki undan áskorunum, því ég trúi því að ef það er gert þá þurfi ég að mæta þeim tvíefldum síðar. Og nú fannst mér teningunum vera kastað og að ég stæði skyndilega í brennipunkti alls þess sem ég hef fjallað um í skrifum mínum og stendur hjarta mínu nærri. En ef satt skal segja, þá stóð ég ekki aðeins frammi fyrir ytri þrýstingi, heldur einnig innri þrýstingi, því ég tel að hvernig svo sem þessar kosningar fara, þá hafi ég skyldu við sjálfan mig, við þjóðina og við skapara minn, að stuðla að vitundarvakningu hér á landi um þessi mikilvægu mál. Því hef ég, að höfðu samráði við eiginkonu mína, ákveðið að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands í kosningum sem fara munu fram síðar á þessu ári. Þessa ákvörðun hef tilkynnt forseta vorum, sem þjónað hefur almenningi og lýðveldinu af góðvilja, auðmýkt og velvild.
Æðsti embættismaður ríkisins á að vera öðrum fyrirmynd. Guðni Th. Jóhannesson hefur sýnt háttvísi og hófsemi í samskiptum við almenning. Ég vil vinna áfram á þeim grunni og þjóna af auðmýkt, en leggja áherslu á að það er þjóðin sem er hinn sanni valdhafi, ekki embættismennirnir. Á næstu vikum og mánuðum hyggst ég hvetja fólk um allt land, í öllum stéttum til að láta láta rödd sína heyrast, láta ljós sitt skína, til að stækka, ekki minnka, til að blómstra, hvert og eitt á sínum forsendum. Forsetinn á að þjóna þjóð sinni af heilindum, trygglyndi og einurð, en hann á ekki að vera hafinn yfir gagnrýni. Í frjálsu landi er nauðsynlegt að forseti, eins og aðrir, fái málefnalegt aðhald, sé gagnrýndur fyrir það sem miður fer en njóti stuðnings í því sem vel er gert og verði dæmdur af verkum sínum.
Góðir gestir, ég vil undirstrika að ég tek þessa ákvörðun ekki af neinni léttúð, ég er hlédrægur að eðlisfari og kann ekki vel við mig í sviðsljósinu, en ég tek þessa ákvörðun óhræddur og óhikað, því frelsi þjóðarinnar og sjálfstæði Íslands er mér hjartans mál: Ég ber ást til landsins míns og hag þjóðarinnar fyrir brjósti. Ekkert mál er mikilvægara en að standa vörð um landið okkar og sjálfsákvörðunarrétt okkar sem manna og sem þjóðar.
Ég geri þetta í trausti þess að ég er ekki einn. Ég veit að herskarar Íslendinga standa með mér og þeim fjölgar óðum sem vaknað hafa til meðvitundar um mikilvægi þeirra málefna sem ég hef viðrað. En ég hef líka annað sem veitir mér öryggi og kjark til að taka þessa ákvörðun, þ.e. mína góðu eiginkonu, Hrafnhildi Sigurðardóttur, lífsförunaut minn til rúmlega 30 ára, sem ég leyfi mér að kalla fjallkonu í besta skilningi þess orðs, konu sem gæti borið alla þjóðina á herðunum ef þess þyrfti, konu sem getur fært ljós inn í svartasta myrkur, kærleika, þar sem hatur ríkir, trú, þar sem efinn ræður, von, þar sem örvæntingin drottnar.
Saman viljum við vera Íslendingum góðar fyrirmyndir og kalla þá til liðs við okkur - og hér vísum við til allra sem vilja með stolti kalla sig Íslendinga, hvort sem þeir fæddust hér eða ekki.
Við hjónin erum sammála um að tímabært sé orðið og nauðsynlegt að Íslendingar skerpi markmiðin, að við ákveðum hvert við viljum stefna, hvaða gildum við viljum lifa eftir, hvað við viljum verja. Horfa á það sem sameinar okkur, ekki það sem sundrar okkur.
Verkefnin eru stór og krefjandi, en þetta eru verkefni sem við treystum okkur í, með ykkar stuðningi og samvinnu okkar allra.
[1] Réttlátur konungur (lat. Rex Iustus) = Sá sem, eins og aðrir, er bundinn af hinni arfhelgu venju / grundvallarreglum. Harðstjóri (lat. Tyrannus) = Sá sem setur lög á eigið eindæmi og virðir ekki hinn eldri rétt / hinn forna rétt landsins.
Athugasemdir
Þetta er besta frétt ársins.
Takk fyrir að bjóða þig framm.
Sigurður Kristján Hjaltested, 4.1.2024 kl. 12:44
Sæll Arnar Þór,
Það virðist allt vera bilað á þessum vef erfitt að setja inn ummæli.
Hvar eru öll ummælin þér til stuðnings? Allavega er hér eitt frá mér. You complete me fyrir að hafa tekið þessa mikilvægu ákvörðun að bjóða þig fram til forsætiskjörs.loksins kemur verðugur kandicat fyrir þetta embætti.
Mun gera allt mitt að mörkum þér til stuðnings.
Þröstur R., 4.1.2024 kl. 13:10
Heill og sæll Arnar Þór! Það tók mig drjúgan tíma að byrja skrif mín hér í dag.Það er aðeins smátími af biðinni eftir hugdjörfum landa eins og þér,til að vera í forystu gegn eyðandi öflum sem eru við það að ganga frá ættjörð okkar. Hafðu ævarandi þökk og blessun fyrir; Ég trúi að hann verði stór og öflugur flokkurinn sem fylgir þér.
Helga Kristjánsdóttir, 4.1.2024 kl. 16:07
Vel gert og gangi þér vel! Þetta er ein jákvæðasta fréttin í langan tíma :)
Pétur Ari Markússon (IP-tala skráð) 4.1.2024 kl. 16:14
Nú er bara að auglýsinga meðmælendalista sem maður getur skrifað sig á! Frábært framboð.
Birgir Loftsson, 4.1.2024 kl. 18:44
Þú talar um að æðsti embættismaður ríkisins á að vera öðrum fyrirmynd. Og Guðni hafi sýnt háttvísi og hófsemi í samskiptum við almenning. Gerði hann það þegar hann skrifaði undir að veita Róberti Árna uppreist æru? Líka þegar hann sat heima þegar íslenska kanttspyrnu landslið okkar hóf leik á HM í Rússlandi en studdi ekki "strákana okkar" á staðnum svo ég taki bara tvö dæmi. Vonandi gangi þér vel.
Sigurður I B Guðmundsson, 4.1.2024 kl. 19:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.