5.1.2024 | 07:40
Val um nýja leið
Framboð mitt - og okkar hjónanna - snýst ekki um persónulegan metnað okkar, heldur um það að hjálpa hverjum og einum Íslendingi til að finna styrk og hugrekki til að nýta hæfileika sína til fulls og rísa upp sem sjálfstæður einstaklingur, því saman myndum við sterka heild, eins og þegar margir grannir þræðir fléttast saman í sterkan kaðal.
Þessar áherslur undirstrikaði ég í viðtölum í gær, sbr. eftirfarandi upptökur:
1. Samtal mitt við Þorgeir Ástvaldsson á Bylgjunni (Reykjavík síðdegis), þar sem við ræðum m.a. um það betra sé að feta hinar troðnu slóðir í lífinu og um kosti / galla þess að velja fáfarnari leiðir. Hverjum manni er frjálst að velja sína leið.
2. Hluti (10 mín) úr nýju samtali okkar Frosta Logasonar í Brotkasti þar sem ég geri m.a. grein fyrir þeirri skoðun minni að íslenskir stjórnmálaflokkar séu marghöfða en samgrónir og ólýðræðislegir. Mygla hefur skotið rótum í flokkakerfinu. Tillögur mínar til úrbóta eru þær að beina sólarljósi inn í þessa fúnu innviði, lofta út og leyfa fólki að tjá sig. Valdhöfum ber að framfylgja þeim stefnumálum sem þeir hafa lofað kjósendum að standa vörð um. Hér eru efst á blaði sjálfstæði Íslands, frelsi þjóðarinnar, sjálfsákvörðunarrétturinn og málfrelsið.
Af öðrum vettvangi má benda lesendum á eftirfarandi skrif um framboð mitt og ég þakka þessum bloggurum fyrir jákvæða umfjöllun í gær: Páll Vilhjálmsson, Ómar Geirsson, Heimssýn, Frjálst land, Birgir Loftsson, Jóhann Elíasson, Tómas Ibsen Halldórsson.
Athugasemdir
Heill og sæll Arnar Þór, til hamingju með ákvörðun þína og megi Guðs blessun fylgja þér á þessari vegferð og þá sérstaklega í forsetatíð þinni. Það gleður mig að maður sem þú með skíra sýn á lýðræðið og mikilvægi á rétt almennings til orðs og æðis, bjóði sig fram í þetta mikilvæga embætti. Ef ég skil rétt þá sýn sem blasir við þá mun embætti forseta verða mikilvægur varnagli á ríkisstjórn og þing. Þar trúi ég að þú verðir góður fulltrúi okkar fólksins í landinu.
Þakka þér fyrir að vilja taka þetta verkefni að þér.
Tómas Ibsen Halldórsson, 5.1.2024 kl. 18:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.