Kjarni frímúrarastarfsins er að höggva til steininn svo að listaverkið, sem þú ert, geti birst

Þegar Michelangelo var rúmlega tvítugur skapaði hann hið ódauðlega listaverk Pieta. Þegar samferðamenn hans undruðust snilld hans svaraði hann þeim með því að segjast hafa séð styttuna inni í marmaranum og ekki gert annað en að fjarlægja umframefnið til að frelsa myndina sem bjó hið innra.Pieta  

Síðustu daga hafa sumir viljað gera aðild mína að Frímúrarareglunni að sérstöku umtalsefni. Af því tilefni vil ég undirstrika og árétta að þangað hef ég sótt mikinn þroska og andlegan styrk, því á þeim vettvangi vinna menn að því göfuga marki að bæta sjálfan sig á grundvelli kristinnar trúar. Um þetta segir nánar á heimasíðu Frímúrarareglunnar:

[...] starfið í Frímúrarareglunni byggist á kristnum boðskap og þeirri lífssýn að við höfum Guð yfir okkur og náungann við hlið okkar. Í því felst að Guð er stærri en sköpunarverkið og allir menn hafa skyldum að gegna gagnvart samferðamönnum sínum í daglegu lífi. Aðeins þeir sem játa kristna trú geta orðið félagar. Ekki er gerð krafa um ákveðinn trúarstyrk eða tilteknar trúfræðitúlkanir kristinnar trúar. Slíkt er einkamál hvers og eins.  

Ég er þakklátur fyrir árin mín í Frímúrarareglunni, fyrir þann þroska sem starfið þar hefur fært mér og dýrmæta vináttu, en ég vil um leið undirstrika og árétta að ég tala hvergi fyrir hennar hönd og að umræða um stjórnmál fer ekki fram á þeim vettvangi, enda tekur Reglan ,,enga afstöðu í stjórnmála-, trúar- eða hagsmunadeilum í þjóðfélaginu, er óháð öllum en lýtur löglegum yfirvöldum hér á landi". 

Í bókum á almennum markaði kemur fram að frímúrarar temji sér að mæta áskorunum og erfiðleikum með jákvæðni að leiðarljósi. Þar er lögð áhersla á sjálfstæða hugsun – og stúkur frímúrara hafa raunar öldum saman staðið undir nafni í því sambandi með því að vera hugsandi mönnum athvarf og vettvangur til frjálsrar hugsunar og tjáningar, ekki síst á tímum alræðis og trúarofsókna. Bent hefur verið á að Reglan kenni mönnum að sigrast á hindrunum með því að beita þeim hæfileikum sem okkur hafa verið gefnir, horfa á styrkleika okkar (fremur en veikleika), og minnast miskunnsemi Guðs fremur en neikvæðra og illra afla sem einnig eru að verki í heiminum.

Um starfið og aðild mína að Frímúrarareglunni hef ég ítarlega fjallað á liðnum árum. Áhugasömum vil ég benda sérstaklega á grein mína Tímariti lögfræðinga (1. tbl. 2018), sem hefst á eftirfarandi orðum: 

Til er íslenskur málsháttur sem er á þessa leið: „Betra er að maðurinn prýði embættið en embættið manninn.“ Í þessu birtist djúpur skilningur á gildi þess að heilsteypt fólk veljist til ábyrgðarstarfa og á því að manneskjan er annað og meira en það embætti sem hún sinnir. Að baki býr jafnframt viðurkenning á því að hver og ein manneskja hafi rétt til að velja og móta þau viðmið og gildi sem viðkomandi kýs að leggja lífi sínu og starfi til grundvallar. Eitt af aðalsmerkjum lýðfrjálsra ríkja er að verja þennan rétt borgaranna. Slík ríki hafa þannig skuldbundið sig til að slá skjaldborg um tjáningar- og athafnafrelsi fólks. Á þessum forsendum hafa ákvæði um samviskufrelsi einnig verið færð í mannréttindasáttmála og stjórnarskrár víða um heim. 

Framangreind grein var rituð í tilefni af því að félagar mínir í Dómarafélagi Íslands vildu banna mér að eiga aðild að mannbætandi félagsskap sem hefur veitt mér mikinn andlegan styrk og hjálpað mér að skerpa sýn mína á það sem er fagurt, gott og satt. Á starfstima mínum sem dómari frá 2018 til 2021 gerðist það ítrekað að kollegar mínir reyndu með fortölum, bæði í einkasamtölum og á lokuðum félagsfundi, að beita mig þrýstingi til að samræmast hugmyndum þeirra um hvernig dómari ætti að vera og hvernig dómari mætti tjá sig. Til samanburðar má benda á að á þeim bráðum 15 árum sem ég hef átt aðild að Frímúrarareglunni á Íslandi, hefur enginn þeirra ca. 3500 félaga sem þar eru reynt að skerða tjáningarfrelsi mitt eða takmarka félagafrelsi mitt. Í þeim samanburði kemur Dómarafélag Íslands ekki nógu vel út, því dómarafélagið er hagsmunagæslufélag, öfugt við Frímúrararegluna. Frímúrarareglan hvetur mig til að finna minn innri kjarna og vera ég sjálfur á meðan Dómarafélagið vildi fá mig til að aftengjast sjálfum mér og stíga inn í hlutverk sem ákvarðað er af öðrum. Eðlilega gat ég ekki þrifist innan slíks félagsskapar þar sem leiðarstef mitt í lífinu er að vera ég sjálfur og tala út frá samvisku minni og sannfæringu, líkt og ég vona að aðrir finni hjá sér.

Hér á landi starfa tvenn samtök sem kenna sig við frímúrara. Hvorug þeirra verða flokkuð sem leynifélög, enda leyna þau ekki tilvist sinni á nokkurn hátt. Á almennum bókasöfnum má nálgast upplýsingar um lög og reglur Frímúrarareglunnar á Íslandi. Félagatal Reglunnar er prentað í þúsundum eintaka og upplýsingar um félagsaðild eru auk þess fúslega veittar af skrifstofu Reglunnar við Bríetartún í Reykjavík. Félagatal hennar er því bæði opið og aðgengilegt. Yfirlit um trúnaðarstöður og skipulag reglunnar eru aðgengilegar á opnum almennum vettvangi. Reglan heldur úti vandaðri heimasíðu þar sem finna má ítarlegar upplýsingar um markmið hennar, starfsemi og sögu, auk þess að birta svör við algengum spurningum. Hið sama má segja um hina Alþjóðlegu frímúrarareglu karla og kvenna, LE DROIT HUMAIN, sem hefur starfað hér á landi í tæplega 100 ár. Þá má jafnframt geta þess að tímarit Frímúrarareglunnar á Íslandi, sem kemur út tvisvar á ári, er öllum aðgengilegt á vefsíðu reglunnar. Á vefsíðunni segir þetta um markmið reglunnar:

Markmið Reglunnar er að göfga og bæta mannlífið. Reglan vill efla góðvild og drengskap með öllum mönnum og auka bróðurþel þeirra á meðal. Þannig leitast Reglan við að gera bræðurna að góðum þjóðfélagsþegnum, skilningsríkum og hjálpsömum samborgurum, réttsýnum og velviljuðum mönnum. Frímúrarareglan kemur fram út á við sem mannúðar- og mannræktarfélag. Inn á við leitast hún við að efla hjá bræðrunum sjálfsþekkingu, umburðarlyndi, góðvild og náungakærleika. Frímúrarareglan hefur hvorki opinber né dulin pólitísk markmið og tengist á engan hátt neinum stjórnmálastefnum. Hún hefur engin markmið um gagnkvæma aðstoð eða stuðning við einkahagsmuni bræðranna. Það hefur hvorki fjárhagslegan ávinning né önnur forréttindi í för með sér að vera þar bróðir.

Í fréttablaði Reglunnar hef ég birt fjölda viðtala og greina þar sem fjallað er um lög og lögfræði, trú og guðfræði, siðfræði, heimspeki og starf í Reglunni. Af handahófi má benda á þetta viðtal við herra Karl Sigurbjörnsson biskup, sem lesa má hér á bls. 9 o.á. sem og þessa grein hér um ,,Frímúrarastarfið og ljós frjálsrar hugsunar", sjá hér bls. 31 o.á., en þar skrifaði ég m.a.:

Á hinu stóra leiksviði lífsins getur [okkar innri rödd] auðveldlega drukknað í hávaðanum frá skoðunum annarra. Sá sem aldrei gefur sér tóm til að hlusta á rödd samviskunnar og skynseminnar verður farþegi í eigin lífi því fyrr en varir sitja aðrir við stjórnvölinn í lífi hans. Á öllum tímum er þetta vafalaust eitt stærsta verkefni mannanna, þ.e. að stíga út úr erli hversdagsins og inn í þögnina þar sem hlusta má eftir svörum sannrar visku. Þagmælska frímúrarans miðar ekki síst að þessu marki. En það er ekki nóg að hlusta og heyra. Við verðum að hafa þrek og kjark til að fylgja hjartanu og standa gegn alræðistilburðum ríkjandi viðhorfa á hverjum tíma, sem bjóða aðeins fram þröngt sniðmát sem farísear nútímans ætlast til að allir lúti. Frímúrarareglan býður mönnum vettvang til að leita og finna svör við stóru spurningunum sem áður voru nefndar. Hún minnir okkur á það að hver og einn maður fetar lífsbrautina undir sverðsegg samviskunnar. Hún hvetur okkur til að hlusta eftir því hvert leiðarljós samviskunnar og skynseminnar vísa. Þeim ljósum er sjálfsagt best að beita samhliða því samviskan ein getur leitt okkur út á tilfinningalegar villigötur og skynsemin ein út á villigötur vélrænnar og ómannúðlegrar hugsunar. Hér komum við að gamalkunnum sannindum sem frelsisáherslur nútímans gefa lítinn gaum að. Frelsið er ekki aðeins fólgið í lausn undan valdbeitingu og ofríki. Hið sanna frelsi felst í því að sigrast á illum tilhneigingum sjálfs sín, bæla niður lestina og beygja viljann undir lögmál skynseminnar og samviskunnar. Sá sem öðlast hefur slíkt frelsi þekkir nauðsyn þess að menn þröngvi ekki gildismati, viðhorfum, hugmyndum og lífsmáta upp á aðra. Á sama tíma blasir við að mönnum er ekki heimilt að nota frelsið hvernig sem þeim sýnist. Ef allir íbúar landsins kysu að líta á sjálfa sig sem óháða einstaklinga væri ekkert eiginlegt samfélag til. Ef enginn vildi bera skyldur, gangast við skuldbindingum og efna loforð væri ekkert traust, engin tengsl, engin samvinna og þar af leiðandi ekkert eiginlegt samfélag. Eftir stæði þá aðeins einstaklingurinn, einn og óstuddur. Þá mætti enn spyrja eins og gert er í Hávamálum: „Hvað skal hann lengi lifa?“ Í umhverfi sem einkennist af eilífri baráttu er erfitt fyrir mannskepnuna að fóta sig og finna öryggi. Frelsið eitt reynist lítils virði við slíkar aðstæður. Rökleg afleiðing slíks óhefts frelsis birtist í einsemd og siðferðilegri upplausn, þar sem hver og einn maður gerist dómari í eigin sök. Róttæk einstaklingshyggja er samkvæmt þessu ógn við mannlegt frelsi ekki síður en kæfandi miðstýrð valdbeiting. Í framkvæmd fær frelsið best þrifist í óþvingaðri samvinnu á vettvangi fjölskyldna, félagasamtaka, skóla, trúfélaga, góðgerðarstarfs og viðskipta, þar sem samstarfið byggist á viðurkenndum félagslegum reglum og gagnkvæmu trausti. Án borgaralegs samstarfs á þessum grunni myndu öll önnur kerfi, þ.m.t. hagkerfið, fljótlega hrynja til grunna vegna innri veikleika. Hvernig fetar hinn frjálsi maður lífsgönguna og til hvers skal unnið? Frímúrarareglan lætur okkur í té verkfæri til að feta rétta braut, sjálfum okkur og samfélaginu til þroska og framdráttar. Verkefnin liggja og bíða okkar. Enginn er svo snauður að hann hafi ekkert fram að færa. Sérhver maður þarf sjálfur að finna sín verkefni og nýta þær gjafir sem honum hafa verið gefnar, en ekki láta þær liggja ónotaðar. Úr 300 ára sögu frímúrarastarfs má finna fjölmörg dæmi um menn sem hafa verið framangreindum markmiðum trúir, veitt ljósinu móttöku og leyft því að skína í gegn: Bertel Thorvaldsen, Wolfgang Amadeus Mozart, Mark Twain, Oscar Wilde, Louis Armstrong, George Washington, Benjamin Franklin, Voltarie, Chrysler, Winston Churchill, Franklin Roosevelt, Arthur Conan Doyle, Henry Ford, Johann Wolfgang von Goethe, Joseph Haydn, Henrich Heine, Harry Houdini, Rudyard Kipling, Franz Liszt, Thomas Edison, Harry Truman, Wright bræður. Sérhver frímúrari getur litið á sjálfan sig sem lifandi fulltrúa þeirrar hefðar sem veitti þessum mönnum styrk til að gefast ekki upp; til að halda áfram að keppa að settu marki þrátt fyrir áskoranir, erfiðleika og mótlæti. Sem frímúrarar höfðu þessir menn lagt kapp á að byggja sitt „innra musteri“ og þangað hafa þeir getað sótt styrk til að vinna sitt veraldlega starf. Að þessu sögðu er ástæða til að undirstrika að upptalning sem þessi má ekki verða til þess að okkur yfirsjáist sá styrkur sem við hinir, þeir nafnlausu og „venjulegu“, hafa haft af frímúrarastarfinu með því að tileinka sér frímúrarafræðin og gera boðskapinn að leiðarljósi í lífi sínu, til styrktar fjölskyldu sinni og samfélaginu öllu. Í þessu felst skýr áminning – og áskorun – um að hinn „innri heimur“ á að endurspeglast í hinum ytri heimi. Frímúrarastarf okkar er ekki unnið í eiginhagsmunaskyni. Markmiðið er að gera okkur að betri borgurum; betri eiginmönnum, betri feðrum og sonum, betri vinum og samferðamönnum. Með því að iðka dyggðirnar bætum við samfélagið og sáum fræjum til framtíðar. 

Hér má einnig benda á grein mína sem ber heitið ,,Frelsi krefst ábyrgðar" og lesa má hér (sjá bls. 16 og áfram), þar sem orðrétt segir m.a.: 

Frjálst samfélag gefur mönnum kost á að standa jafnfætis í öðrum skilningi, þ.e. að koma saman á jafnræðisgrunni í þeim tilgangi að nýta sem best þá fjölbreyttu hæfileika og getu sem í þeim býr. Slíkt fyrirkomulag miðar að því að gefa öllum jöfn tækifæri. Í frjálsu samfélagi nýtur fólk ekki aðeins frelsis til orðs og athafna, heldur gefst mönnum svigrúm til að virkja þá krafta sem í þeim búa. Frjálst samfélag virðir sérhvern einstakling, viðurkennir sérstöðu sérhvers manns og dýrmæti. Leiðin til alræðis byggir á annarri sýn. Þar eru menn dregnir í dilka og alhæft um þá á grundvelli sameiginlegra en þó sérvalinna einkenna, svo sem uppruna, eignastöðu, kynferðis o.fl. Sagan sýnir að síðastnefnd aðferð hefur verið háskalegt tæki í höndum talsmanna ofstjórnar, alræðis og ofbeldis. Hættan er sú að þessi aðferð ofríkisanda og alhæfinga sé notuð til að svipta menn mennsku sinni. Frammi fyrir sleggjudómum, óígrundaðri afstöðu og hvers kyns lýðskrumi þar sem hópum fólks eru gerðar upp sakir eða dregin upp yfirborðskennd og villandi mynd, er ástæða til að minna á eftirfarandi staðreyndir: Hópar hugsa ekki og hópar hafa ekki skoðanir. Eða hvað? Ert þú, lesandi góður, tilbúinn að afsala þér forræði á eigin hugsunum og tjáningu? Ertu reiðubúinn til að veita vald yfir örlögum þínum þeim sem vilja stýra vali þínu, hugsunum og athöfnum? Hver er þá verðmiðinn? Á degi hverjum má spyrja: Hef ég gengist nýrri kreddu á hönd? Hef ég lýst fyrirvaralausum stuðningi við hugmyndafræði? Hef ég tileinkað mér skoðanir annarra gagnrýnislaust og án raunverulegrar ígrundunar? Lifi ég jafnvel eftir þeim hugsunarlaust? Hver og hvað stjórnar lífi mínu, orðum og athöfnum? Frímúrarastarf stuðlar ekki að hjarðhugsun, heldur hvetur hvern einasta mann til að láta ljós sitt skína í samræmi við lög, góða siði og kærleiksboðorð Krists „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera“.Frímúrarastarfið gengur samkvæmt þessu ekki út á innantómt umburðarlyndi, heldur bræðralag, ekki út á samræmda hugsun (með valdboði eða heilaþvotti) heldur samlíðan og samkennd þrátt fyrir mismun í skoðunum og viðhorfum. Frímúrarareglan krefst þess ekki af nokkrum manni að hann afsali sér sjálfstæðri hugsun eða því sem gerir hann einstakan og dýrmætan. Svo að við rifjum það þá upp: Hvað er það sem gerir manninn svo sérstakan og gefur lífi hans sérstakt gildi? Er ekki allt ákall um mannlegt frelsi með skírskotun til þess að maðurinn sé annað og meira en líkami? Býr ekki að baki viðurkenning á því að maðurinn er andleg vera sem hugsar og trúir, biður og vonar?

Til viðbótar má á heimasíðu Reglunnar finna þessa vönduðu heimildamynd sem frumsýnd var á 100 ára afmæli Frímúrarareglunnar á Íslandi, árið 2019, þar sem m.a. er viðtal við mig.

Á heimasíðu Frímúrarareglunnar segir orðrétt: 

Frímúrarareglan á Íslandi er ekki leynifélag. Trúnaður um innri starfshætti jafngildir ekki leyndarhyggju.

Sérhver innsækjandi mætir nýrri reynslu við upptöku í Frímúrararegluna með sama hætti og viðgengist hefur um aldir. Það eina sem trúnaður ríkir um í starfsemi Reglunnar eru siðabálkar hennar, táknmyndir og líkingar. Allt annað í starfsemi Reglunnar er opinbert, þ.m.t. uppbygging hennar, skipulag, lög og félagatal.

Það að frímúrarar lofa að gæta trúnaðar um innra starf Reglunnar er ekki vegna þess að einstök stig Reglunnar eða þau í heild hafi nokkuð það að geyma sem ekki þolir dagsins ljós. Trúnaðarkrafan er tilkomin vegna þess lærdómsgildis sem inntakan felur í sér fyrir félagsmenn. Þess vegna skýra frímúrarar hvorki frá því sem felst í hinum ýmsu stigum né heldur hvaða siðaathafnir þar eru viðhafðar. Slíkt er einkamál hvers og eins félagsmanns.

Félagafrelsi er grundvallaratriði í frjálsu samfélagi. Í öllu félagsstarfi gefst mönnum kostur á að vinna með öðrum að sameiginlegum áhugamálum, sjálfum sér og samfélaginu til heilla. Þess vegna hvet ég þig, kæri lesandi, til að finna þér félagsskap sem nærir þig og veitir þér gleði, og ganga aldrei í lið með þeim sem vilja hefta þetta dýrmæta frelsi okkar.  

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Takk fyrir góða grein.

Því miður virðist almennur félagi í frímúrum ekki vita að þeir tilheyra satanískum zæónista söfnuði sem flaggar merki Molocks í sínu skrauti. Gaman væri að vita í hvaða gráðu Arnar Páll Postuli er komin í.

Hlakka til að rökræða um ýmsa fleti ef fjölmellurnar hætta að hunsa mig en svo virðist sem Arnar Páll Postuli sé vægari útgáfa af mér og eflaust ágæt byrjun á ferlinu . . .

https://youtu.be/RG0CKHwqSBM

Axel Pétur Axelsson, 9.1.2024 kl. 16:03

2 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Sæll Axel. Ég hlustaði á u.þ.b. 30 sekúndna hljóðbrot af þessu þar sem ég heyrði þig strax fara með rangt mál um það að þú hafir spurt mig í einhverjum þætti hvort ég væri frímúrari og að ég hafi neitað því. Það er þér ekki til framdráttar að fara með ósannindi og vísa í eitthvað sem aldrei hefur átt sér stað, enda hef ég hvergi villt á mér heimildir. Að öðru leyti óska ég þér alls velfarnaðar og bið Guð að blessa þig. P.S. Af nafngiftinni sem þú velur mér hér að ofan dreg ég þá ályktun að þú skrifir á FB undir dulnefni og segir þar margt sem þú myndir kannski ekki þora að setja fram undir eigin nafni. En vonandi er það merki um framför hjá þér að merkja athugasemdir þínar nú með eigin nafni. Góð kveðja.

Arnar Þór Jónsson, 9.1.2024 kl. 16:35

3 identicon

Vona að fólk sjái hver þú ert í raun og Veru.. allveg siðlaus 

Steinunn Dùa (IP-tala skráð) 9.1.2024 kl. 19:44

4 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Sæll Meistari Arnar,

1. Ég hef aldrei verið í þætti með þér því miður þannig að ég skil ekki alveg hvað þú ert að tala um.

2. Ég sigli aldrei undir fölskum fána og skrifa allt undir mínu nafni.

3. Ég hef lítinn áhuga á persónulegum árásum og ég vona að þú takir ekki mínum málflutningi þannig, hins vegar þarf að fjalla um hvaðan fólk kemur. Ef fjölmellur væru ekki í frúin í Hamborg við mig værum við eflaust búnir að spjalla saman í einhverjum þætti.

4. Ég óska þér og þínum alls þess besta:)

Axel Pétur Axelsson, 10.1.2024 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband