8.1.2024 | 10:08
Með ykkar stuðningi mun ég snúa aftur í ræðustól Alþingis
Nú hafa glöggir menn séð ástæðu til að hlusta / horfa aftur á jómfrúrræðuna, sem markaði upphafið að mínum stutta þingferli. Í ræðunni sem sjá má hér á vef Alþingis og hér á fésbókinni fjallaði ég m.a. um meginundirstöður stjórnarfarsins, um valddreifingu, um hlutverk Alþingis, um nauðsyn þess að verja réttarríkið, um mikilvægi þess að almenningur veiti lögmætt, borgaralegt viðnám m.a. í formi spurninga, um hættuna sem steðjar að frjálslyndu og lýðræðislegu stjórnarfari frá fólki sem vill grípa um valdatauma undir yfirskini hættuástands, um það að við verjum Alþingi og þá samfélagsgerð sem fleytt hefur okkur lengst og reynst okkur best.
Verði ég kjörinn forseti lýðveldisins gæfist mér tækifæri til að stíga oftar í ræðustól Alþingis til að færa fram sjónarmið sem telja mætti þörf á hverjum tíma, hvort sem það væri í formi hvatningar eða til áminningar.
Texta ræðunnar má finna á vef Alþingis, en þar sem þessi orð mega kallast tímalaus leyfi ég þeim að birtast hér einnig:
Virðulegi forseti. Það er sannur heiður að fá að koma hér í ræðustól hins háa Alþingis og ég er sannarlega þakklátur fyrir að fá að koma hingað og ávarpa þingið og vonandi þjóðina alla. Þetta er tækifæri sem ég get ekki sleppt og vil ekki sleppa því að ég á erindi við ykkur öll, kæru landsmenn.
Nú fara fram umræður um fjárlög og það hefur komið fram í þeim umræðum að það hefur verið mikill hallarekstur á ríkissjóði frá ári til árs og opinber stuðningur eykst. Það er verið að samþykkja fjáraukalög og það liggur fyrir að hagvöxtur verður skertur. Það liggur fyrir að ýmsar atvinnugreinar eru í vanda og það ýtir undir verðbólgu og ýmiss konar vandamál. Ég get tekið undir það sem hv. þm. Thomas Möller sagði hér fyrr í dag, að nú er hagræðing mikilvæg sem á öðrum tímum. Og talandi um þingmenn þá lýsti hv. þm. Logi Einarsson því svo áðan að fjárlagafrumvarpið væri í raun myndbirting þess sem hann kallaði viðbragðsstjórnmál. Mér fannst sá kafli ágætur hjá hv. þingmanni þótt ég myndi sjálfur ekki leggja til sömu leiðir og sá góði maður.
Alþingi er lykilstofnun lýðveldisins og hér eiga ekki að vera stunduð viðbragðsstjórnmál heldur á að horfa á sviðið út frá heildarsýn, út frá almannahagsmunum og út frá langtímahag. En hættan á svona tímum eins og við lifum núna er sú að vikið sé frá meginreglum stjórnskipunarinnar um temprað ríkisvald, mögulega vikið frá meginreglum, meginviðmiðum um umfang ríkisrekstrar og mögulega vikið frá einhverjum viðmiðum um það hvað teljist viðunandi hallarekstur. En þetta er allt gert frammi fyrir hinu óþekkta sem er þessi veira sem vekur hjá fólki margs konar ótta.
Ég hef spurt mig, og ég vil beina þessari spurningu til ykkar sem hlustið: Er hættan sem við stöndum frammi fyrir orðin slík að það sé réttlætanlegt að ýta til hliðar hefðbundnum viðmiðum? Gengur þetta svo langt að það megi víkja til hliðar viðmiðum sem við höfum lagt til grundvallar, þ.e. um réttarríki, um borgaralegt frelsi eða um lýðræði? Eiga þessar undirstöður stjórnskipunarinnar að vera í uppnámi? Er hættan sem við stöndum frammi fyrir svo alvarleg að það sé réttlætanlegt að raska hér öllu valdajafnvægi milli löggjafar, framkvæmdarvalds og dómsvalds?
Ég tók eftir því í dómsúrlausnum núna fyrir skemmstu þar sem látið var reyna á sjónarmið um það hvort sóttkví og slíkt fæli í sér mismunun út frá jafnræðisreglu, að dómstólar afgreiddu það með þeim orðum að það væri ásættanlegt á þeim tímum sem við lifðum að játa stjórnvöldum ríkt svigrúm. Ég fylltist, verð ég að viðurkenna, ákveðnum ótta, talandi um ótta, en ótti minn laut að því hvort verið væri að tefla í hættu þessari grundvallarreglu um temprun ríkisvalds, því að það er vissulega eitt aðalhlutverk dómsvaldsins að veita framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu aðhald. Er ásættanlegt að afgreiða mál um jafnræðisreglu sem varðar svona mikla hagsmuni með þeim orðum að játa beri stjórnvöldum ríkt svigrúm? Er hættuástandið slíkt að það megi nota sóttvarnalög til almennra skerðinga á réttindum borgaranna? Er hættan sem við stöndum frammi fyrir slík að það sé réttlætanlegt að stýra nú landinu með reglum sem eru settar án þinglegrar umræðu, án lýðræðislegrar temprunar? Ég hef spurt, og mér er fúlasta alvara með þeirri spurningu, hvort það gæti verið að hér sé að renna upp einhvers konar nýtt stjórnarfar og að almenningur, og mögulega þingheimur, átti sig ekki á því hvað sé að gerast.
Þingið þarf að gera sig gildandi í þessu tilliti og má alls ekki láta sniðganga sig. Ég nefni þetta hér vegna þess að það er vert að minna á að í 1. gr. stjórnarskrár lýðveldisins segir, þetta eru upphafsorð stjórnarskrárinnar okkar, að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. Þar stendur ekki: Ísland er lýðveldi með stjórnbundið þing. Þannig að besta vörnin, augljóslega, gegn hvers konar ofríki stjórnvalda er þingbundin stjórn. Þetta felur jafnframt í sér, og það blasir við, að stjórnarskrá okkar geymir enga almenna heimild til að lýsa yfir neyðarástandi. Ég vil undirstrika þetta: Besta vörnin, besta vörn almennings gagnvart hvers kyns neyðarástandi er þingbundin stjórn, þ.e. ríkisstjórn og framkvæmdarvald sem sætir temprun af hálfu Alþingis og síðar dómstóla. Í þessu endurspeglast þá aftur að lýðræðið og réttarríkishugsjónin eru mikilvægasta vörn borgaralegs frelsis og mannréttinda á þessum tímum sem öðrum.
Af hverju er ég að tala um lýðræði? Það er út af því að allt vald stafar í raun og veru frá þjóðinni. Það sem gefur lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum, eins og þá Alþingi, lögmæti er að fulltrúar þeir sem hér sitja sækja vald sitt til þjóðarinnar. Takið eftir þessu, þetta er það sem gefur lýðræðislegum stjórnvöldum lögmæti. Hvert sækja þá ofríkismenn lögmæti sitt? Hvert hafa alræðisstjórnir og harðstjórar fyrri tíðar sótt lögmæti sitt? Því er til að svara, eða þetta er svartilraun mín, að lögmætið í slíkum tilvikum er sótt til þess að ofríkið sé svo skilvirkt, það sé svo hraðvirkt að það sé þess umkomið að túlka vilja almennings og geti gætt hagsmuna almennings svo vel.
Ástandið sem hér hefur verið uppi á Íslandi núna í næstum því tvö ár er til þess fallið að deyfa mörkin í hugum almennings og mögulega í hugum þingmanna milli þess sem við getum kallað lögmætt lýðræðislegt stjórnarfar annars vegar og þess sem ég kalla ofríkisstjórnarfar hins vegar. Annars vegar stöndum við frammi fyrir ofríki sem birtist okkur í formi valdboðs þar sem valdið er í fyrirrúmi og skilvirknin og hraðinn, og hins vegar erum við að tala um réttarríkið þar sem stjórnin er þingbundin, þar sem Alþingi er miðlægt, þar sem við stýrum samkvæmt almennum lögum o.s.frv. Vandinn eins og ég sé hann, og ég vil fá að nefna það hér, er að ég óttast að verið sé að grafa undan réttarríkinu smám saman undir því yfirskyni takið vel eftir, þið sem hlustið að verið sé að styrkja réttarríkið. Í praktísku tilliti stöndum við frammi fyrir því að verið er að veita hér fjármuni í stórum stíl með vísan til hættu- eða neyðarástands. Þetta var vissulega skiljanlegt í upphafi kórónuveirufaraldursins, en ég leyfi mér að efast um að það sé skiljanlegt og réttlætanlegt á þeim tíma sem nú er runninn upp. Ég nefni þetta vegna þess að út frá almennum kenningum í stjórnarfari og stjórnskipunarrétti er ekki viðurkennt að hægt sé að tala um neyðarástand ef valdhafar sjálfir hafa stjórn á þeim aðstæðum sem veldur neyðinni. Takið vel eftir þessu: Það er ekki viðurkennt í fræðunum að hægt sé að tala um neyðarástand ef valdhafarnir sjálfir hafa stjórn á aðstæðunum sem valda neyðinni.
Hvað á ég við með þessu? Ég á við að hér hefur ítrekað verið vísað til þess að við getum ekki gert annað en að þrengja og leggja meiri höft á borgaralegt frelsi í landinu vegna þess að sjúkrahúsin ráði ekki við meira. Það er vísað til þess að það sé plássleysi á Landspítalanum, en þegar gluggað er í heimildir kemur í ljós að legurýmum á íslenskum heilbrigðisstofnunum hefur fækkað á síðustu árum. Þannig sá ég að legurýmum hefur fækkað úr 1.283 á árinu 2007 og niður í 1.009 á árinu 2020. Þetta er augljóslega atriði sem íslensk stjórnvöld hafa fullt forræði á að leiðrétta. Ég hef því kallað þetta heimatilbúna innviðakrísu og ég hef sagt að á slíkum grunni sé ekki hæft og ekki lögmætt að hneppa fólk í einhvers konar helsi. Þá er það skylda stjórnvalda, skylda þingsins, að stíga inn í þetta, að fókusera aðgerðir, auka framlög til heilbrigðisstofnana, fjölga sjúkrarúmum og gera allt sem í valdi stjórnvalda stendur til þess og með það að markmiði að hér sé hægt að sleppa höftum af íslenskri þjóð. Þá er ég að vísa til barna og ungs fólks og allra þeirra sem vilja og geta unnið störf sín og tekið þátt í frjálsu samfélagi.
Virðulegur forseti. Ég vil, núna þegar ég dreg þetta saman, nota tækifærið til að minna áheyrendur á það að réttarríkið, bara svo að það komi fram hér í þessum sal, felur í sér að ríkisvaldið er bundið af reglum og á að sæta aðhaldi í samsvarandi mæli. Þessi hugsjón um réttarríkið felur í sér að borgararnir eru varðir gagnvart ólögmætri valdbeitingu ríkisins. Þetta er hugsjón sem hefur lifað með mannkyni öldum saman og við þekkjum að þetta var heilagt baráttumál t.d. á tímum einveldisins. Í þessu felst að ef skerða á borgaralegt frelsi þá verður það ekki gert nema samkvæmt ströngum reglum og að uppfylltum ströngum skilyrðum. Kórónuveiran opinberar vissulega veikleika hér sem annars staðar. Það liggur fyrir að fjöldi fólks hefur verið sviptur atvinnu sinni og lífsgrundvelli, fjöldi fólks hefur verið sviptur ferðafrelsi og fundafrelsi og börn hafa nánast verið svipt rétti til skólagöngu. Það liggur fyrir að ástandið er vissulega verra víða um heim og á meginlandi Evrópu, en það eitt og sér réttlætir ekki stórkostleg inngrip stjórnvalda í daglegt líf borgaranna með skerðingum. Út frá hefðbundnum viðmiðum, sem ég var að tala um áðan, um hlutverk Alþingis, þ.e. um aðhald og eftirlit og þingbundna stjórn, þá verðum við að draga Alþingi inn á þennan vettvang og gera það aftur miðlægt í allri þessari umræðu. Við eigum ekki að láta það gerast að með vísan til neyðarástands sé Alþingi klippt út, lýðræði gengisfellt og einhvers konar tilskipunarstjórnarfar innleitt hér á landi.
Ég vona að þegar frá líður munum við geta sagt að okkur hafi tekist að verja hér réttarríkið. Ég tel að við Íslendingar séum í dauðafæri að gera það, að í okkar fámenna ríki með okkar góðu embættismenn og lögreglu og heilbrigðisstarfsfólk takist okkur að ná tökum á þessari óáran sem herjar á okkur og leysa okkur úr þeim fjötrum sem hafa hert að okkur nú um tveggja ára skeið. Ég hvet ykkur, ágætu landsmenn og ágætu þingmenn, til að veita hér aðhald í formi spurninga og lögmæts borgaralegs viðnáms. Ég hvet ykkur til að hafa uppi spurningar. Ég kalla eftir því að stjórnsýslan, sérfræðingar og ríkisstjórn svari spurningum sem lúta að því á hvaða grundvelli sé verið að grípa til þessara aðgerða. Ég hvet ykkur, ágætu landsmenn, til þess að veita viðnám gegn því að sérfræðingar grípi í krafti kennivalds í auknum mæli um valdatauma. Ég hvet ykkur til að verja Alþingi og standa með því að Alþingi geri sig gildandi í þessu öllu.
Af því að við erum að ræða um fjárlögin þá var ég einhvern tímann á spænskri sólarströnd og greip það sem var hendi næst til að lesa. Það var þýskt dagblað og þar var verið að fjalla um á þýsku að Þýskalandi væri það sem þeir kölluðu Zahlmeister und Prüegelknabe, þ.e. bæði sá sem mokar peningum úr kassanum, og það má segja að Alþingi sé sett í þá stöðu hér, en líka Prügelknabe, vegna þess að við þýskar hirðir var til sérstakt embætti manns sem var flengdur í hvert sinn sem prinsinn gerði eitthvað af sér. Alþingi á ekki að vera í þeirri stöðu að það bjóði upp á að það verði flengt ef illa fer út af því að sérfræðingar og stjórnsýslan hafa farið offari. Alþingi ber gríðarlega mikla lýðræðislega og pólitíska ábyrgð og við verðum að virkja hana. Við stöndum frammi fyrir því að það er smám saman verið að losa um viðjar hinnar þingbundnu stjórnar og áhrif hennar á lagasetningu.
Virðulegi forseti og kæru alþingismenn. Ég flyt þetta fram hérna til að minna á að það er Alþingi sjálft sem á að halda hér um stýrið, ekki aðeins til að sjá um fjárveitingar heldur einnig hvað varðar stefnumörkun, aðhald og eftirlit með ríkisstjórn og stjórnsýslunni. Hlutverk ríkisstjórnarinnar er að framkvæma lögin, hlutverk stjórnsýslunnar sömuleiðis. En það er ekki hlutverk ríkisstjórnar eða framkvæmdarvalds, stjórnsýslu, að setja lögin. Það er ekki í lagi að stjórnsýslan eða framkvæmdarvaldið taki sér víðtækt lagasetningarvald undir því yfirskyni að hér sé neyðarástand og beiti sóttvörnum til að keyra yfir allt sem heitir frjálst samfélag. Það þarf í það minnsta að skoða vandlega í ljósi raunsæs mats á hættunni og hvort þetta sé heimatilbúin hætta, og ekki láta það renna okkur úr greipum sem við höfum kallað borgaralegt frelsi, réttarríki o.s.frv. Ef stjórnsýslu og framkvæmdarvaldinu er veitt vítt og opið umboð er nefnilega ekki lengur hægt að tala um þingbundna stjórn.
Ég mæli þetta fram í áminningarskyni, virðulegi forseti. Ég mæli þetta fram sem hvatningu til Alþingis og til landsmanna sem þetta heyra til að minna á að mikilvægasta öryggistæki þjóðarinnar á tímum sem þessum er þingbundin stjórn með öllu sem í því felst, þar með talið vörn réttarríkis, borgaralegs frelsis og lýðræðis.
Ég óska þess að heill og hamingja fylgi Alþingi og þjóðinni allri á nýju ári. Ég þakka fyrir þetta tækifæri til að koma hér upp.
Athugasemdir
"Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn en ekki lýðveldi með stjórnbundið þing." Þetta er mergurinn málsins. Hvers kyns lýðræði búum við Íslendingar við, þegar formenn stjórnmálaflokka geta "pínt" lýðræðaislega kjörna þingmenn, fulltrúa kjósenda, til að samþykkja lagafrumvarp sem er þeim þvert um geð og sem samrýmist hvorki þeirra lífskoðun, stefnu flokks þeirra, stjórnarskrá eða lögum landsins eins og gerðist með 3. orkupakka ESB? Hve marga þingmenn er þá hægt að "pína" til að samþykkja frumvarp um Bókun 35 sem framselur löggjafarvald Alþingis til yfirþjóðlegs valds, þ.e. ESB?
Alþingi er í gíslingu óvina Íslands.
Júlíus Valsson, 8.1.2024 kl. 11:35
Værum við ekki enn að borga Icesave ef Ólafur Ragnar hefði ekki gripið inn í þegar Jóhanna og Steingrímur ætluðust til að við greiddum skuldir óreiðumanna? Þess vegna þurfum við forseta sem þorir, gerir og framkvæmir fyrir fólkið í landinu.
Sigurður I B Guðmundsson, 8.1.2024 kl. 13:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.