14.1.2024 | 22:31
Þegar ógnir steðja að
Í Hugleiðingum Markúsar Árelíusar Rómarkeisara má m.a. lesa eftirfarandi íhugun:
Margt getur staðið í vegi fyrir athöfnum okkar en ekkert getur hamlað áformum okkar og vilja, því við getum snúið atvikum okkur í hag og aðlagast. Mannshugurinn getur breytt hindrun sér í hag og umbreytt henni, þannig að fyrirstaðan verði að stökkpalli. Það sem stendur í vegi okkar verður hluti af vegferðinni.
Í framangreindum orðum birtist forn aðferð, sem Íslendingar nútímans geta enn fært sér í nyt, þ.e. að snúa hindrunum sér í vil og nýta þær sem stökkpall.
Grindvíkingum finnst staðan vafalaust svört og sannarlega er útlitið ekki gott þegar hraun rennur inn í bæinn. En þótt við séum ekki valdamikil, ekki keisarar eða herforingjar, þá þurfum við eins og allir menn, allar kynslóðir, án tillits til kyns, uppruna, útlits, stéttar eða stöðu, að takast á við fyrirstöður, erfiðleika og áskoranir sem virðast óyfirstíganlegar. Verkefni okkar, eins og allra forfeðra okkar og formæðra, er að finna leið til að snúa þessum hindrunum okkur í hag.
Saga Íslands birtir dæmi um það hvernig menn sneru áskorunum í tækifæri, raunum í sigra.
Frammi fyrir hamförunum í Grindavík höfum við val: Ætlum við leggja árar í bát eða halda áfram? Verðum við ekki að einsetja okkur að byggja upp og sýna úr hverju við erum gerð? Í mótlætinu getum við sýnt allt það besta og göfugasta sem við geymum hið innra, en til þess að við getum komist á þann stað verðum við að hlúa að þeim tilfinningum sem búa innra með okkur núna og gangast við þeirri sorg sem brýst fram svo að við getum byggt upp að nýju. Við höfum tækifæri til að skrifa söguna og látið hana enda vel, þannig að við komumst frá þessu betri og sterkari en við vorum áður. Þeirri niðurstöðu verður ekki náð í einu stóru skrefi, heldur í mörgum litlum skrefum. Þrautseigja og þolgæði verða að vera leiðarljós allra Grindvíkinga - og allra Íslendinga - á næstu vikum og mánuðum. En þar erum við á heimavelli, því einmitt þannig höfum við lifað hér af allar fyrri hamfarir.
Nú reynir á samtakamátt okkar Íslendinga. Við þurfum að sýna Grindvíkingum stuðning í orði og verki.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.