18.1.2024 | 10:08
Raunheimar kalla okkur út úr draumheimum - og til verka
Grindvíkingar eru flóttamenn í eigin landi eftir eldvirkni síðustu daga og ljóst að þess er langt að bíða að þeir komist heim til sín á ný. Þúsundir Íslendinga sem lagt hafa mikið til samfélagsins eru nú á hrakhólum í óvissu um framtíð sína. Ein kona orðaði stöðuna svo á íbúafundi fyrr í vikunni að Grindvíkingar vildu vera sjálfstæð, við viljum fá sjálfsákvörðunarréttinn okkar aftur og fá öryggi til langs tíma. Fram kemur í fréttinni að við þessi ummæli hafi flestir Grindvíkingar risið úr sætum og klappað fyrir henni.
Þegar kreppir að, þegar við finnum að við ráðum ekki lengur okkar eigin för og eigum hvergi höfði að halla, þá vitum við hvað orð eins og sjálfstæði og sjálfsákvörðunarréttur merkja. Fjölskylda mín varð heimilislaus eftir Vestmannaeyjagosið, sem olli margvíslegu umróti og óöryggi. Vestmannaeyjar, fyrir gos, urðu að veröld sem var og sá harmur varð að sári sem aldrei var rætt og aldrei heilað til fullnustu. Þeir sem ekki áttu afturkvæmt seldu eignir sínar í Eyjum fyrir lítið fé, en mörgum tókst að koma undir sig fótunum á nýjum stað. Margt jákvætt má þó læra af þeirri reynslu, svo sem um samstöðu þjóðar og samtakamátt fólksins þegar á reynir. Styrkja verður Grindvíkinga til rísa upp að nýju. Í þeim efnum getum við öll lagt eitthvað af mörkum til að koma okkar eigin fólki til hjálpar. Þar leyfist okkur ekki að vísa allri ábyrgð á ríkið. Jón Axel Ólafsson hefur sýnt lofsverk frumkvæði í þessum efnum og þar getum við öll, almennir borgarar og fyrirtæki þessa lands lagt okkar skerf að mörkum, þar sem sérhver gefi eftir efnum og aðstæðum.
Á tímum sem þessum, þegar húsnæði skortir í landinu, hljótum við að verða að gera hlé á móttöku hælisleitenda og veita færri erlendum flóttamönnum viðtöku, en fyrir liggur að Íslendingar hafa frá árinu 2017 fengið hlutfallslega flestar umsóknir um alþjóðlega vernd í samanburði við önnur norræn ríki, auk þess sem fram kemur í þessari frétt að Ísland hafi fengið margfalt fleiri slíkar umsóknir og einnig samþykkt hlutfallslega fleiri umsóknir en flest hin norrænu ríkin.
Framangreint er sá veruleiki sem við blasir og vinna þarf úr, af eins mikilli mildi og nærgætni og unnt er, án þess að líta á nokkurn mann hornnauga sem hér dvelst og vill leggja sitt af mörkum til uppbyggingar íslensks samfélags.
Að því sögðu má einnig öllum vera ljóst að loka verður fyrir ábyrgðarlaust útstreymi almannafjár, svo sem að kveðja fráfarandi borgarstjóra með þremur stórveislum, að ríkið kaupi svonefndar upprunaábyrgðir fyrir 100 milljónir á þessu ári, að byggt sé ,,hönnunarhús við Alþingi fyrir hundruðir milljóna, o.s.frv. Í því sambandi er fagnaðarefni að atvinnulífið og stjórnmálamenn séu loks að vakna til vitundar um afleiðingar þess að innleiða hér daglega - og hömlulaust erlent regluverk sem samið er fyrir meginland Evrópu og er farið að íþyngja íslenskum fyrirtækjum á ýmsan hátt, sérstaklega þegar íslenskir embættismenn og kjörnir fulltrúar, sem aldrei hafa treyst sér til að beita samningsbundnum synjunarrétti Íslands, kjósa að verja kröftum sínum í það eitt að gullhúða reglurnar, íslenskum hagsmunum til tjóns.
Athugasemdir
Frábær pistill að venju frá þér Arnar.
Sigurður Kristján Hjaltested, 18.1.2024 kl. 17:26
Það þarf ekki að kosta Ríkið mikið að byggja hús fyrir Grindvíkinga með hugsunni hús fyrir hús og þegar þetta er afstaðið og við förum heim þá fær fólk val um hvort húsið er tekið og allir vinna.
Magnús Gunnarsson (IP-tala skráð) 19.1.2024 kl. 01:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.