21.1.2024 | 12:01
Auður okkar er í einstaklingunum
Á síðustu árum hefur átt sér stað alvarleg umpólun í stjórnarfari okkar. Hægt en bítandi höfum við séð (og heyrt) alþingismenn og ráðherra umbreytast úr því að vera fulltrúar kjósenda yfir í að vera fulltrúar fjarlægs erlends valds. Hinn rauði þráður í svörum þeirra er sá að okkur beri að innleiða tilgreindar reglur, takast á herðar tilgreindar skyldur, með vísan til þeirra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist á alþjóðavettvangi. Ekki er spurt hvar ytri mörk þessara skuldbindinga er að finna, hvort Íslendingar hafi mögulega nú þegar gert meira (t.d. á sviði loftslagsmála) en flestar aðrar þjóðir, hvort reglurnar skaði hagsmuni Íslands, hvort skuldbindingarnar eigi rætur að rekja til raunverulegs samstarfs eða einhliða ákvarðana áhrifamestu þjóða / stofnana.
Samhliða þessu blasir við greinileg stjórnskipuleg afturför: Í stað þess að ráðamenn sinni því hlutverki að verja umbjóðendur sína fyrir óhóflegri valdbeitingu af hálfu ríkis / stórfyrirtækja / þrýstihópa, sitja þeir nú á lokuðum fundum í fjarlægum löndum með fjármagnseigendum, yfirmönnum alþjóðlegra stofnana og valdamiklum sérfræðingum þar sem rætt er um nauðsyn þess að halda almúganum í skefjum, m.a. með því að koma böndum á tjáningu þeirra, stýra neyslumynstri o.fl.
Hér blasir í raun við nýr veruleiki sem takast þarf á við á réttum forsendum því aðstæður hafa breyst. Þegar kjörnir fulltrúar gerast handgengnir fjarlægu valdi og aðhyllast valdboð í orði og verki, þegar þeir vinna að framkvæmd reglna sem koma ofan frá og niður fremur en í þágu lýðræðis, þar sem reglurnar koma úr grasrótinni og upp, þá eru þeir í reynd orðnir embættismenn fjarlægs valds fremur en kjörnir fulltrúar okkar. Í þessu birtist ekki þjóðhollusta, heldur óhollusta við kjósendur. Þegar fulltrúalýðræðið bregst með þessum hætti, þá geymir stjórnarskráin öryggisventil um virkjun beins lýðræðis, sbr. 26. gr. stjórnarskrárinnar þar sem hinn raunverulegi valdhafi, þ.e. kjósendur, á síðasta orðið. Þessi öryggisloki tryggir að alþýða manna er ekki svipt valdi, heldur fær tækifæri til að eiga þátt í mótun nútíðar og framtíðar, eiga rödd og greiða atkvæði.
Ég hef boðið mig fram til embættis forseta Íslands því ég vil leiða lýðræðisvakningu hér á landi til að að valdefla einstaklinginn og standa vörð um réttindi hans. Einmitt í fólkinu og sjálfstæði þess til orða og athafna eru auðæfi okkar fólgin. Ég vil leggja mitt af mörkum til að verja samfélagsgerð sem leyfir efasemdir, leyfir fólki að tjá hugsanir sínar, þolir málefnalega gagnrýni og umber andmæli. Í frjálsu samfélagi leyfist hverjum og einum að spyrja spurninga og fá fram ólík svör og sjónarmið.
[Grein þessi birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. janúar 2024]
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.