Hr. Karl Sigurbjörnsson biskup (1947-2024) - In memoriam

Í gær, 12. febrúar 2024, barst sú harmafregn að Herra Karl Sigurbjörnsson biskup hefði kvatt þessa jarðvist. Karl hefur verið okkur hjónunum nálægur í dagsins önn í gegnum bók hans Dag í senn, eitt andartak í einu (útg. 2007) sem hefur að geyma hugleiðingar á vegi trúarlífsins fyrir hvern dag ársins. Í formála segir Karl m.a.: 

Öll mín hugsun er borin uppi af undrun yfir fegurð lífsins og elsku Guðs sem umvefur lífið allt, allar gátur, alla gleði, alla sorg. Mér er framar öllu umhugað um að deila því með þér í hugleiðingum þessum.

Eins og margir fleiri átti ég því láni að fagna að eiga vin í hr. Karli sem sendi mér hvatningar- og blessunarorð, bæði í andstreymi og meðbyr. Allt var það í anda þess sem hann skrifar í fyrrnefndri bók: 

Að blessa og gleðja himin og jörð, land og fólk og lífið allt. Það er lífsverkefnið. Tilgangur lífsins. (112)

Til minningar um Karl - og honum til heiðurs - endurbirtist hér viðtal sem ég átti við hann fyrir nokkrum árum og birt var í fréttablaði Frímúrarareglunnar á Íslandi, þar sem m.a. rætt var um tengsl lifs og trúar, kirkju og kristni, laga og samfélags. Á sinn ljúfmannlega hátt dregur hann hér saman margt af því sem kalla mætti grundvallaratriði í mannlegri tilvist. 

Karl Sigurbjörnsson

Þín bíður gleði, fögnuður og friður heima, í hlýjum faðmi kærleikans. (141)

---

Sem lögfræðingur staldra ég iðulega við ádeilu Krists á farísea og lögvitringa. Ber ekki að skilja þau orð sem áminningu um mikilvægi þess að menn hyggi að anda laganna, samhliða bókstafnum, en láti ekki þrönga bókstafshyggju leiða sig á villigötur? Var lögmálið annars ekki í upphafi gefið mönnum sem voru farnir að tilbiðja gullkálfinn? Slíkir menn þurftu vafalaust á reglum að halda, en þegar menn ætla svo að fara að tilbiðja lögmálið sjálft má færa rök fyrir því að tímabært sé að veita þeim nýja áminningu. Sem leikmaður hef ég litið á boðskap Krists sem nauðsynlegt, lífgefandi, mótvægi við ósveigjanleika lögmálshyggjunnar. Í samræmi við það hef ég litið svo á að hlutverk laganna sé ekki síst í því fólgið virða og vernda frelsi borgaranna gagnvart hvers kyns ytri ásælni og þvingunartilburðum. Með hliðsjón af stjórnskipunarsögu Vesturlanda hef ég talið að aðalsmerki lýðfrjálsra samfélaga birtist einmitt í viðleitni til að feta hinn þrönga veg milli þess að lúta lögum og virða frelsi manna til innra lífs, hugsunar og tjáningar, þar sem frelsi og ábyrgð togast eilíflega á. Því hnykkti mér óþægilega við þegar haft var eftir samskiptastjóra Biskupsstofu 4. september sl. að Kristur hafi „sífellt“ lagt „lögmálið til hliðar“ og einblínt á kærleikann, mannvirðingu og einingu allra í andanum. Í því skyni að öðlast skarpari sýn á þessi efni leitaði ég til herra Karls Sigurbjörnssonar biskups.

Lögin geta ekki gert mann góðan

Hvernig myndir þú lýsa afstöðu Krists gagnvart lögmálshyggjunni, þ.e. að allar reglur séu ávallt ófrávíkjanlegar?

Kristur tók afstöðu gegn hreinni lögmálshyggju. Í því samhengi má ekki gleyma því að Faríserarnir voru meðal bestu manna samfélagsins. Þeir vildu vel, en voru uppteknir af því að lög og reglur mótuðu líf manna í smáatriðum og vörðuðu veg mannlífsins með ótal boðum og bönnum. Kristur afhjúpar vægðarlaust þá skinhelgi og hroka sem oft er fylgifiskur lögmálshyggjunnar og bendir iðulega á útlendinga og annarrar trúar fólk sem fyrirmynd, fólk sem þekkti ekki forskriftir lögmálsins en bregst samt við af sjálfsprottinni samlíðan og umhyggju. Það þótti mörgum óþolandi þá og jafnvel enn, af því að menn vilja gjarna hafa skýrar reglur og hreinar línur að styðjast við. Í Fjallræðunni dregur Jesús fram ýmis boðorð Lögmálsins í Gamla testamentinu, og hnykkir á þeim. „Þér hafið heyrt að sagt var... En ég segi yður...!“ Þar beinir hann sjónum að hugarfari og hjarta, samvisku manna. Þarna er minnt á að það snýst ekki um blinda hlýðni við forskriftir heldur kærleika, umhyggju, hugarfar kærleikans. Kristur segist vera kominn til að uppfylla lögmálið og kvaðir þess, löghlýðinn gyðingur allt til dauða. Boðskapur hans er boðskapur náðar og vonar.

Við höfum val

Grundvallarþáttur í trúnni sem Biblían boðar er að lífið er gjöf Guðs og tilveran er lögmálsbundin heild – sbr. viðlagið í 1. Mós.1: „Guð sá að það var gott...“ – þannig úr garði gert að það þjónar markmiðum kærleika hans. Lífið, sem Guð skapaði, er gott. Hver hlekkur lífskeðjunnar hefur sitt hlutverk og sess og þar ríkir dýrmætt jafnvægi og regla. En svo er þetta með manninn, manneskjuna. Um sköpun mannsins er sagt að „Guð skapaði manninn í sinni mynd. Hann skapaði þau karl og konu og Guð blessaði þau.“ Þar segir ekki: „Guð sá að það var gott.“ Mér finnst það merkilegt. Mér finnst þetta vísa til frelsis mannsins. Við höfum val, getum valið hið góða. Í því er tign mannsins fólgin, tign og ábyrgð. Jesús leggur áherslu á að draga megi Boðorðin tíu saman í tvíþætta kærleiksboðið, sem er reyndar líka í trúarjátningu gyðinga: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum... og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Guð og náunginn. Guð setti lögmálið mannsins vegna, í þágu lífs og gæfu manns og heims. Það er sett lífinu til varnar, þessu lífi sem er svo auðsært og brothætt. Leiðsögureglan sem Jesús gefur okkur er Gullna reglan: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skulið þér og þeim gjöra.“ Dæmisögur Jesús og fjallræðan, og fordæmi Jesús sjálfs, sýna okkur megináherslur hans hvað varðar breytni manna. Á öllum tímum hafa kristnir menn samt hneigst til lögmálshyggju. Frægt dæmi er Calvin (1509-1564), sem sjálfur var lögfræðingur og vildi skipuleggja allt í smáatriðum og skapa þannig gott samfélag. Reynslan sýnir að lögmálshyggja endar í harðstjórn.

Þannig að lögin ein megna ekki að skapa gott samfélag eða hvað?

Hinir fornu Rómverjar sögðu um þetta „Pessima res publica, plurimae leges“, sem þýðir: „Þeim mun verra er samfélagið sem lögin eru fleiri.“ Þannig er það gömul reynsla og ný að við búum ekki til gott samfélag með lögum og reglum eingöngu.

Lögin geta ekki skyldað manninn til að vera góðan

En hvað má þá kallast gott samfélag í kristnum skilningi?

Frjálst samfélag sem er grundvallað á réttlæti. En þá erum við ekki aðeins að tala um frelsi frá einhverju heldur einnig frelsi til þess að gera það sem er gott og satt. Allir eru sammála um að frelsið sé meðal æðstu gæða, en skilja það gjarna einvörðungu sem frelsi frá einhverju. Það er arfur frá upplýsingunni, frönsku byltingunni fyrst og fremst. Kristin siðfræði er kærleikssiðfræði. Ekki siðfræði réttinda einvörðungu, eins og nú er helst haldið á lofti, heldur siðfræði tækifæra, frumkvæðis og ábyrgðar til þjónustu, umhyggju og kærleika. Það er hið nýja sem Jesús kemur með inn í vitund mannkyns og snýst allt um frumkvæði og um tengsl og samskipti. Maðurinn er aldrei einn, þú ert alltaf skuldbundinn öðrum. Við erum sköpuð í Guðs mynd og jöfn fyrir augliti hans. Réttlæti er það sem er í samræmi við vilja Guðs.

Og hvernig birtist þetta í framkvæmd?

Móðirin auðsýnir barni sínu umhyggju og ást, ekki af því það á það skilið, heldur af því að kærleikurinn, umhyggjan og lögmál lífsins krefst þess, lögmálið sem Guð hefur lagt mönnunum í brjóst, eins og Páll postuli segir. Lögin geta ekki gert mann góðan, geta ekki skyldað manninn til að vera góður. Þau geta stikað út leiðirnar fyrir réttlátt líf og hið góða samfélag en þau geta ekki breytt manneskjunni.

En nú lifum við á tímum þar sem löggjöfin teygir sig sífellt lengra inn í okkar daglega líf. Sífellt færri svið eru lögunum undanþegin. Allar okkar athafnir frá morgni til kvölds falla undir hinn langa arm laganna. Hvar getum við sagt að draga beri mörk slíkrar ásælni?

Samviskufrelsið er grundvallarfrelsið. Ríkisvaldinu er nú beitt til að saksækja fólk sem hefur bannaðar skoðanir. Þetta hefur verið kallað fasismi. En nú er áherslan lögð á það að þetta sé til verndar þeim veiku í sam­félaginu. Hinn göfugi tilgangur helgi meðalið. En valdhafinn getur ekki lögbundið hjarta manns og samvisku.

Samt er það svo að sífellt er verið að setja fleiri – og nákvæmari reglur – sem þrengja að frelsi manna. Hvað segir kristin guðfræði nánar um þetta?

Guð hefur gefið okkur reglur (boðorðin) en líka frelsi. Þarna á milli er alltaf dýnamík / spenna. Lúther sá þetta sem rauðan þráð í gegnum alla ritninguna, sem túlkunarlykil, þ.e. lögmálið annars vegar og fagnaðarerindið hins vegar.

... og sú slóð getur reynst vandrötuð eða hvað? Má segja að þarna liggi hinn rétti vegur, sem liggur inn um þrönga hliðið sem okkur er ætlað að ganga um?

Já. Biblían geymir samt sögur af alls konar fólki sem mistekst á þessari vegferð. Þar er reyndar fátt um glansmyndir, manneskjan er sýnd í afar raunsæju ljósi. En Guð reisir við þann sem fellur. Það kallast fyrirgefning syndanna.

Maðurinn er alltaf frjáls til að taka afstöðu

Ég las einhvers staðar að Elísabet I. Englandsdrottning hefði sagt að hún vildi ekki gægjast inn í sálir manna. Með því átti hún við það að hver og einn maður hefði frelsi til að leggja sinn eigin skilning í trúarlega texta og fyrirmæli valdhafanna. Eftir því sem auðveldara verður að safna upplýsingum um fólk leitar sú spurning oft á hugann hvort nú séu runnir upp þeir tímar að menn geti lagst á slíkar gægjur. Hvar stendur samviskufrelsið þegar svo er komið?

Elísabet drottning var að þessu leyti sammála Lúther og fleiri guðfræðingum kristninnar sem eru raunsæir á þau mörk sem veraldlegum valdhöfum ber að virða: Enginn þekkir það sem í manninum býr nema Guð einn. Þess vegna er ekki hægt að lögbinda samvisku fólks. Lögunum kemur ekki við hvort þú ert góður eða ekki. Lögin skipta sér ekki af því hvort þú gerir skyldu þína af nauðung eða af gleði, en þau marka leiðir og setja mörk til að vernda lífið og samfélagið. Og gagnvart þeim eiga allir að vera jafnir. Maðurinn er alltaf frjáls til að taka afstöðu með hinu góða eða á móti. Í eðli manneskjunnar býr frelsið, það birtist t.d. í sögunni um aldingarðinn. Guð segir við manninn: „Þetta skaltu láta vera“ en reisir ekki girðingu í kringum bannsvæðið. Manneskjunni er treyst. Hlutverk okkar er að velja. Svo kemur freistarinn sem sáir efasemdum og tortryggni. En maðurinn veit þó innst inni hvað honum er fyrir bestu.

Má draga ályktanir af þessu um hver séu mörk laganna?

Já. Samviskufrelsið er grundvöllur frelsis og mannréttinda. Mannhelgi er fallegt orð og dýrmætur veruleiki.

En er ekki hin hliðin á sama peningi sú að menn haldi að það eitt að fylgja lögum geri mann réttlátan?

Fjallræðan er uppgjör við þennan hugsunarhátt. Maður stendur sína plikt en hvað segir hugarfarið? Sagan um miskunnsama Samverjann varpar ljósi á þetta. Samverjinn brást ekki við náunganum út frá reglum heldur af sjálfssprottinni samlíðan og umhyggju.

Hvað með dómhörkuna sem fylgir í kjölfar slíkrar hugsunar?

Dómharkan er í hæsta gengi nú, og allskyns vandlætingarsemi og móralismi sömuleiðis. Einu sinni var mikið fundið að því að það væri svo mikið talað um syndina í kirkjunni. En þá var verið að leggja áherslu á þetta: Alveg sama hver þú ert og hvað þú ert góð manneskja, þá ertu ekki nóg án tengsla við Guð. Þú þarf að horfast í augu við það að þú stenst aldrei mál hins góða, fagra og fullkomna. Að þú átt allt undir náð og miskunn Guðs. Enginn getur dæmt aðra nema hann viti sig sjálfan undir dómi hins réttláta, sanna, hreina. Því er hættulegt að setja sjálfan sig í dómarasæti yfir öðrum.

Guðsríki verður aldrei komið á með ofbeldi

Hvernig getur kirkjan verið mótvægi við þetta?

Með því að vera kirkja.

Hvernig skýrirðu það nánar?

Kirkjan hefur í okkar samtíð ekkert kennivald né stuðning af valdhöfum veraldarinnar. En hvað gerir hún best? Og hvar er hennar vettvangur? Sagan sýnir að kirkjunni farnast aldrei vel þegar hún reiðir sig á valdið. Hlutverk kirkjunnar er að höfða til samviskunnar með það eina sem hún hefur fram að færa, sem er Jesús Kristur, krossfestur og upprisinn. Mótsstaðurinn er þar sem Kristur mælir sér mót við manneskjuna: Við guðsþjónustu, við skírn, altarisgöngu, giftingar o.s.frv. og svo í daglegri þjónustu við náungann, í þeim sem hann kallar sín minnstu systkin. Kirkjan getur tekið alls konar stefnumál upp á arma sína og aflað sér vinsælda en ef Guð er ekki í myndinni þá er hún klæðalaus eins keisarinn í sögu H.C. Andersen ... og allir sjá það. Nema hinn sjálfumglaði. Menn eiga samt svo erfitt með að læra þessa lexíu. Kristur talar í þessu samhengi um muninn á þeim sem byggja hús sitt á bjargi eða sandi. En hann undirstrikar að bjargið er orð Krists. Kirkjan hefur ekki annað mikilvægara hlutverk en að koma boðskap Jesú Krists á framfæri, krossi Krists og upprisu.

Birtir saga kristindómsins ekki einmitt mikilvægi þessa kjarna í hnotskurn? Er það ekki verðugt viðfangsefni kristinnar kirkju að virða frelsi mannsins til sjálfstæðrar ákvörðunartöku og minna á nauðsyn þess að maður sem vill njóta frelsis þurfi að geta veitt öðrum sambærilegt frelsi?

Guðsríki verður aldrei komið á fót með ofbeldi, því ekki er unnt að lögbinda samvisku fólks eins og ég nefndi áðan. Hvorki dómarinn, presturinn né biskupinn mega ímynda sér að hafa höndlað allan sannleikann.

Sérstaklega ekki á þeim „póstmódernísku“ tímum sem við höfum lifað síðustu ár, þar sem markvisst er unnið að því að brjóta niður allt kennivald. En það þýðir þó ekki að varpa beri sannleiksleitinni fyrir róða, er það?

Sannleiksleitin er mikilvæg. „Ég er sannleikurinn,“ segir Kristur. „Hver sem er sannleikans megin heyrir mína rödd.“ „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munið þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ Það er ekki sannleikur sem maður getur reiknað sig fram til, skilgreint, afmarkað, sett í kerfi, heldur persónulegt lífsafl sem ummyndar hið innra. Kristur svarar ekki með formúlum heldur með því að kalla manninn til fylgdar við sig á vegi kærleikans til Guðs og náungans. Þessi kynslóð hefur verið svo upptekin af því að afbyggja allt kennivald og kannski alla ábyrgð. En manneskjan getur ekki lifað án ramma. Við sjáum það á því að barnið þarf styrka arma umhyggjunnar. Án þeirra verður barnið öryggislaust og fer að efast um að það sé elskað. Getur verið að sjálfsmyndarkrísur ungs fólks stafi af þessu? Barninu er fyrir bestu að fá að vera barn. Og orðið barn merkir „það sem er borið.“ Barnið hefur samvisku eins og allir aðrir og hún þarf að fá næringu og þroskast í samfélaginu, og það þarf að fá tækifæri til að taka ábyrgð á sjálfu sér, þ.m.t. að fá tækifæri til að horfast í augu við eigin misgjörðir og mistök. Sagan sýnir að menn eru ekki fyrr búnir að rífa niður öll viðmið og mörk en að byrjað er að kalla eftir nýjum girðingum fólki til varnar og tækifæri skapast fyrir valdagíruga ofríkismenn. Stjórnleysi verður þannig tæki harðstjórnarinnar. Manneskjan leitar alltaf eftir „authoriteti“, einhverju til að marka brautina og er auðginnt. Vandlætingin er háskaleg braut og reiðin er hættulegt afl. Réttlát reiði getur verið nauðsynleg, en getur ekki verið grundvöllur til að byggja á. Ótal dæmi staðfesta það í sögu og samtíð.

Og þótt Kristur hafi boðað samhjálp og náungakærleika, þá falla menn aftur og aftur í gryfju ofureinföldunar Karls Marx, þ.e. að allt í samfélagi manna beri að skoða út frá baráttu á milli fólks, stétta og þjóða?

Samfélagi manna væri betur lýst út frá tengslum en baráttu. Sjáðu hvað það er merkilegt að mannsbarnið er lagt á brjóst og móðirin leitar augnsambands við það. Barnið þrífst ekki án þessara tengsla, án þess að vera séð augum umhyggju og ástar. En svo kemur að því að það þarf að standa á eigin fótum sem ábyrg manneskja í mannlegu samfélagi. Manneskjan er félagsvera. Þú ert til og þroskast sem einstaklingur af því að það er horft á þig. Barn sem ekki er séð verður öryggislaust. Litla barnið segir „sjáðu mig“, það er partur af þroska barnsins. Ég tel að einstrengingsleg áhersla á réttindi einstaklingsins án skírskotunar til samfélagsins hafi orðið til þess að ábyrgð og skyldur hafa horfið í skuggann.

Við þurfum heilbrigða trú og ekki síður heilbrigðan efa

En hvað með eina kennivaldið sem nú er hampað, þótt það tali sjaldnast einum skýrum rómi, þ.e. kennivald náttúruvísindanna?

Náttúruvísindin eru í sömu hættu að þessu leyti og kirkjan, þ.e. óheppilegt er að þau stígi út á svið stjórnmálanna og valdsins.

Sjáum við þessa hættu raungerast í því að náttúruvísindin snúast gegn sjálfum sér, t.d. með því að bannað er að ræða, rannsaka eða jafnvel hugsa um tiltekin atriði þar sem það gæti hróflað við hinum viðteknu sannindum?

Mögulega, já. Þetta var vandi miðaldakirkjunnar sem vildi hafa alla þræði í sínum höndum. Ég ber virðingu fyrir náttúruvísindunum, en trúi ekki á þau. Ég treysti góðu fólki, visku og þekkingu sem beitt er í þágu hins góða. En ég er einatt efasemdamaður þegar kemur að stórum full­yrðingum um mátt og megin mannsins og mannlegra kerfa og almannasamsinni. Nú er það notað sem sönnun einhverrar fullyrðingar að 99% vísindamanna segi þetta eða hitt. En, bíddu við, töldu ekki 99% lærðra manna á miðöldum að Giordano Bruno hefði rangt fyrir sér? Rétttrúnaðurinn veður uppi, nú ekki síður en þá.

Má út frá þessu álykta sem svo að maðurinn geti ekki lifað án trúar í einhverri mynd?

Við þurfum heilbrigða trú og ekki síður heilbrigðan efa. Það sem mestu varðar er að leggja rækt við hið góða. Fylla hjartað af góðum hugsunum. Þess vegna hefur alltaf verið litið þannig á að grundvallaratriðið í mótun góðs samfélags sé ekki bara góð lög og góðir stjórnendur, heldur að hafa sýn til hins góða.

Hvernig mótast slík sýn og hvernig er henni viðhaldið?

Með hefðinni og siðunum, sögunum, söngvunum, helgidómunum, sem bregða upp mynd hins góða samfélags, framtíðarsýninni. Í hinu kristna samfélagi er það krossinn og upprisan, náðin og vonin.

Hvert er svar kirkjunnar við því niðurbroti sem við höfum hér rætt?

Menn eru uppteknir af því að brjóta niður siðinn og stæra sig af því að afbyggja tákn og hefðir. Trú er fremur siður og samhengi en skoðanir á svonefndum andlegum efnum. Trú er framar öllu að sameinast á grunni við ákveðna iðkun og sögur, hefðir og siði sem halda manni við efnið, halda manni við hið góða. Hin kristna samfélagsmótun er að halda fram mynd og boðskap Jesús Krists. Að boða Krist sem stendur á jörðu og opnar faðminn og segir „komið til mín“ (hvort sem þið eigið það skilið eða ekki). Krossinn er greyptur í jörðina og rís mót himni og faðmar allan heiminn, alla menn, fortíð og framtíð.

Gegnir þá trúin ekki mikilvægu hlutverki í því uppbyggingarstarfi sem þarf að fara fram í kjölfar alls þessa niðurbrots?

Jú. Ef menn hafa engan sameiginlegan grunn til að standa á, getur ekkert samfélag staðið til lengdar. Kringlan og Smáralind duga ekki til. Trúhneigð manneskjunnar er ólæknandi og leitar sér alltaf að farvegi. Oft því miður óheilnæmum, sannarlega. En leiðréttingarforritið er innbyggt í hinn kristna sið, fagnaðarerindi Jesús Krists.

En nú lifum við auðvitað í „plúralísku“ samfélagi, þar sem ólíkum trúarbrögðum og lífsskoðunum ægir saman. Hvað getum við gert til að halda saman slíku samfélagi?

Umburðarlyndi er mikilvæg dyggð. En umburðarlyndið eitt, eins og það er skilgreint nú, jafngildir nánast afskiptaleysi og dansar á línu afstæðishyggju, og er þá ekkert nema virðingarleysi. Umburðarlyndi afskiptaleysisins byggist á ótta. Við þurfum umburðarlyndi sem byggir á þeim andlega grundvelli sem segir að við viljum ekki þola ákveðnar hugmyndir, svo sem kvenhatur og að við eigum að þora að segja það. Við þurfum líka auðmýkt gagnvart því að aðrir geti haft rétt fyrir sér. Við þurfum líka þolinmæði og kærleika sem rekur út óttann. Óþolinmæðin ræður einatt ferðinni, bráðlæti og hroki gagnvart öðrum. Hrokinn og hræðslan haldast einatt í hendur.

Hver stjórnar þá ferðinni þegar tíðarandinn er þessi sem þú lýsir?

Mannskepnan þarf að finna öryggi, þolir ekki öryggisleysi. Barnið þarf reglur, athygli, rými til að leika sér og þroskast á líkama og sál í samskiptum við aðra. Óttinn fylgir manninum eins og skuggi, en trúin er ljós sem bægir honum burt. Einhver sagði: „Ég óttast ekkert nema Guð og þá menn sem óttast hann ekki“. Trúin segir okkur að óttast ekki heldur að treysta Guði. Guðsótti er lotning fyrir Guði, uppsprettu alls hins góða, og virðing fyrir náunganum og fyrir lífinu, helgi lífsins.

Kennivaldi fylgir ábyrgð

Þannig að við þurfum þá eftir allt saman kennivald?

Kennivaldið er ekki eitthvað sem maður tekur sér heldur nokkuð sem manni er trúað fyrir í þágu samfélagsins. Þegar kennivald er tekið niður þá skapast hættan á því að menn taki sér vald yfir sálum annarra. Mælikvarða hins góða, sanna og rétta getur aldrei verið að finna í viðhorfskönnunum. Dómari kveður upp dóma í nafni lýðveldisins og dæmir ekki af geðþótta. Eins er þetta með kirkjuna og hennar þjóna. Kennivaldi fylgir ábyrgð. Þetta tvennt þarf að haldast í hendur. Réttlætið, lögmál lífsins, siðgæði, samviska, sem býr í barmi sérhverrar manneskju, það þarf alltaf að hafa kennivald á bak við sig. Það er ekki eitthvað sem er háð geðþótta manns. Þegar þú sem dómari höfðar til réttlætis eða samvisku ertu að höfða til einhvers sem er þér æðra og getur jafnvel verið í andstöðu við almennt samsinni.

Má segja að trúin standi í innsta kjarna mennskunnar? Og að maðurinn lifi í dýnamíkinni milli þess sem við ræddum áðan, þ.e. milli þeirra krafna sem lögmálið setur og þess svigrúms sem náðin veitir?

Já, en taktu eftir að það er einmitt að þessum kjarna mennskunnar sem alræðisstjórnarfar ræðst gjarna, trúnni, hjónabandinu, fjölskyldunni o.s.frv. Það er t.d. gert með því að gera skoðanir, einstaklinga og lífsviðhorf hlægileg. Það er gert með samtalsstöðvun, með því að svipta þau viðhorf lögmæti sem reist eru á trú, hefðum og jafnvel reynslu. Guðsmyndin er orðin býsna dauf, óræð og útþynnt og mannskilningurinn þar með. Unnt er að tala um manninn sem „frumuklasa“ í kennslustund í líffræði en ekki þegar þú horfir í augun á ungbarni.

Tortrygginn á samsæriskenningar

Slíkt er væntanlega gert í einhverjum tilgangi? Hvaða öfl standa þar að baki?

Ég er tortrygginn á allar samsæriskenningar, djúpríkið og þess háttar. En máttarvöld þessa heims birtast í margvíslegum myndum, og manneskjan einatt auðginnt.

Hvernig stendur kristin kirkja þetta af sér?

Ef kirkjan heldur sig við aðalatriðin, þ.e. ef hún heldur sig við guðsþjónustuna, sakramentin, uppfræðslu í kristindóminum o.s.frv., þá lifir hún af. Ef hún hins vegar reynir að aðlaga sig hverjum einasta goluþyt þá lifir hún ekki af. Með sama hætti má segja að réttarkerfið getur ekki virkað til lengdar ef það höfðar bara til almenningsálits og skoðanakannana. Þá er enginn öruggur. Þá erum við ekki lengur jöfn fyrir lögunum. En fyrir Guði erum við öll jöfn, öll eilífs gildis og dýrmæt fyrir augum Guðs eins og við erum. Þessi guðsmynd og mannskilningur er grundvöllur þess besta sem okkar lýðræðisog velferðarsamfélag hefur fram að færa.

Hvernig er best að halda slíkri áminningu á lofti?

Við byggjum mannlegt samfélag á því að höfða til heilbrigðrar samvisku og skynsemi manna. Uppeldi á að miða að því og það gerist í þessum margslungna vefnaði heimilis, fjölskyldu, vina og skóla. Trúaruppeldi miðar að því að styrkja heilbrigða samvisku og heilbrigt siðvit, að þekkja muninn á réttu og röngu og velja hið rétta; þekkja muninn á góðu og illu og elska hið góða. Það er ekki hægt að ala barn upp í gildatómarúmi. Frelsi er ekki sólóklifur án björgunarlínu heldur miklu fremur einskonar hópíþrótt og krefst þjálfunar og góðrar aðstöðu og heilbrigðs liðsanda.

Og hvernig mælirðu með að við færum þennan arf áfram til næstu kynslóða?

Til dæmis með því að kenna börnunum sögurnar og söngvana sem tengjast hefðum og hátíðum. Það er þetta sem með einhverjum hætti markar þessar meginlínur, þessa stefnu sem er vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Maðurinn hefur frjálsan vilja

Í öllu þessu felst að við erum andlegar verur ekki satt, ekki bara bein og sinar, hormón og gen. Ég held að Sir Roger Scruton heimspekingur (1944-2020) hafi verið að vísa til einmitt þessarar andlegu víddar mannsins þegar hann sagði: „Vísindin vita ekki hvað maðurinn er“.

Já, við erum andlegar verur, sköpuð í Guðs mynd. Í þeim mannskilningi eru líka fólgin fræ jafnréttishugsunarinnar. Það er vart að finna í öðrum trúarbrögðum. Þannig er byltingarafl innbyggt í kristindóminn. Sjáðu bara jólaguðspjallið og lofsöng Maríu. Þarna er leiðréttingarforrit, sem réttir kúrsinn, því við getum alltaf höfðað til samvisku manna. Það gerum við með því að minna á að maðurinn hefur frjálsan vilja og hefur á þeim grundvelli alltaf val. Við höfum ótal dæmi um að menn hafi risið upp gegn örlögum sínum. Ein árátta nútímans er að smætta manninn og gera hann að dýri, en við megum aldrei missa sjónar á göfgi mannsins og því að maðurinn er skapaður í Guðs mynd. Guð metur mannlífið það mikils að Guð varð maður í mannsbarni og valdalausum manni, Jesú. Hið makalausa við kristindóminn er þessi mannskilningur. Innbyggt í kristindóminn er virðing fyrir manneskjunni, ást á lífinu og jörðinni og raunsæi á manneðlið. Við geymum bæði gott og illt en eigum að þekkja muninn á réttu og röngu og velja hið rétta. En við eigum allt undir náð Guðs.

[Ljósmynd: Guðmundur Viðarsson]


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Blessuð sé minning séra Karls Sigurbjörnssonar biskups.

Hann var kennimaður af Guðs náð. Það ert þú einnig, Arnar Þór Jónsson, þó með öðrum hætti.

Séra Karl lagði áherslu á að maðurinn hefur frjálsan vilja og getur þess vegna alltaf valið KÆRLEIKA Guðs. Sjálfur tók hann á móti ELSKU Guðs í undrun og endurgalt hana.

Hinn mikli leyndardómur ELSKU Guðs er agape og birtist í þessu:

Því svo ELSKAÐI Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á Hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. (Jóh. 3:16).

Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir Hann. Sá sem trúir á Hann, dæmist ekki. (Jóh. 3:17-18).

Lífið liggur við að val okkar verði að taka á móti hinni fórnandi ELSKU Guðs þegar Hann gaf eingetinn son sinn í dauðann til þess að leysa líf okkar frá dauðanum.

Þess vegna væntir Guð þess að ELSKA Hans, agape, sé endurgoldin og Hann segir:

Þú skalt ELSKA Jehóva Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum. (5. Mós. 6:5).

Þú skalt ELSKA náunga þinn eins og sjálfan þig. (3. Mós: 19:18).

Guðmundur Örn Ragnarsson, 13.2.2024 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband