Hvað skortir íslensku þjóðina mest?

Sigurbjörn EinarssonEinu sinni efndi íslenskt tímarit til verðlaunasamkeppni um svar við spurningunni: Hvað skortir íslensku þjóðina mest? Hvert er svarið? Ekki snjallasta heldur sannasta svarið?

Einhvern tíma sagði maður með karlmannlegu en hógværu stolti: „Vér eigum menn.“ Hann var að svara útlendum gesti sínum, sem spurði: Hvað eigið þið í þessu fátæka landi? Vér eigum menn, var svarið. Það land er auðugt, sem á menn. Jónas kvað fyrir meira en 100 árum:

… eyjan hvíta / átt hefur sonu fremri vonum.

Og land Jónasar var ríkt í örbirgð sinni. Það átti menningu, af því það átti menn í kotum og kytrum, í basli og armóði. Slíkt land er ekki fátækt, sem á það fólk, karla og konur, sem með réttu ber þessa einkunn, einstaklinga, sem eru sannir menn í huldum smámunum og berum vanda, fólk, sem á manndóm, heilindi, samvisku. Og það land er ekki ríkt, sem er fátækt að slíkum mönnum, þótt fjölmennt væri og fésælt. Sú þjóð er ekki að vaxa og ekki að auðgast, þó hún vaxi að höfðatölu og auratali, sem rýrnar að manndómi, tapar á vettvangi trúmennsku, bindindissemi, grandvarleiks, ábyrgðarvitundar, samviskusemi. Sú þjóð er ekki að dafna sem gerist hirðulaus um hugarfar sitt, sinnulaus um sál sína. Sú kynslóð er ekki upplýst, sem afrækir uppbyggingu hins innra manns, hversu fjölfróð sem hún kynni að vera. Slík lýðmenntun og landsmenning, sem hefur annað í fyrirrúmi en það, sem miðar að innri vexti og þroska einstaklinganna, horfir ekki fram, heldur aftur, hversu glæst sem hún kann að vera á ysta borði. Það fólk er ekki á leið inn í jarðneskt sæluríki, sem hættir að líta til himins, hversu mjög sem hagir vænkast, þægindi aukast, öryggi vex. Það eru meiri líkur á að slík kynslóð sé á leið ofan í þá jörð sem hún prettar um himininn, niður í dýflissu af einhverju tagi, svarthols sinnar eigin jarðhyggju, sinnar eigin tækni, í tröllahelli, sem gín að baki hillinganna, ef hún lýkur þá ekki ferli sínum í ófæru þeirrar styrjaldar, sem guðvana girnd, vitfirrtir vítisórar og djöflatrú æsir á hendur henni.

[…] Hvað skortir íslensku þjóðina mest? Þú veist það svo vel. Það er meira af heilskyggni, fleiri slíkir menn. Viltu ekki að þínum hluta bæta úr þeim skorti?

Sigurbjörn Einarsson, Meðan þín náð (Skálholtsútgáfan 2006) 275-278.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dominus Sanctus.

Nr.1. TJÁNINGARFRELSI. = Hægri-mennirnir sem að stýra moggablogginu

þeir áskilja sér rétt til að loka á blogg fólks;

vilji það ekki ganga í takt með stefnu blaðsins.

Ég hef ekki getað tekið þátt í lýðræðislegum umræðum með eigin bloggsíðu í 5 ár af því að ég hafði AÐRA SKOÐUN  heldur en umsjónarmenn moggabloggsins.

Ef að umsjónarmenn moggabloggsins eru búnir að opna fyrir mína kennitölu þannig að ég geti haldið úti eigin bloggi þá væri ágætt að fá formlega tilkynningu um það í pósti:

https://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/#entry-2235376

------------------------------------------------------------------------------

Þess vegna er ekkert mikilvægara en að RÚV-NETMIÐILL komi sér upp sínum eigin blogg-heimi með nákvæmlega sama hætti og mogginn er með þannig að vettvangurinn sé algerlega HLUTLAUS þannig að allar raddir fái að heyrast.

Dominus Sanctus., 26.3.2024 kl. 09:11

2 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Hér setur þú fram orð í tíma töluð.

Nú fer í hönd val á mönnum í embætti Biskups Íslands og Forseta Íslands. En vandfundnir eru MENN á Íslandi í þeim karlmannlega anda og lýst er af Jónasi Hallgrímssyni og Sigurbjörn Einarsson vitnar til.

Okkur skortir MENN. Hvað veldur?

Almennt fráfall Íslendinga frá Kristnum dómi er fyrst og fremst orsökin, ásamt skorti á þjóðerniskennd og þjóðhollustu.

Þremur prestum hefur nú verið stillt upp og skal velja einn þeirra sem Biskup Íslands. Enginn þeirra hefur þá MENNSKU til að bera að lýsa yfir andstöðu við andkristilegt lagafrumvarp sem lagt hefur verið fyrir Alþingi um svokallaða dánaraðstoð. Þetta er 771. mál, þingskjal 1168 á 154. Löggjafarþingi 2023-2024. Sá sem sýndi af sér þann manndóm, yrði alls ekki fyrir valinu sem Biskup, vegna þess að hin fráfallna Þjóðkirkjan vill ekki lengur leiðtoga sem fylgir boðum Jesú Krists, hún vill leiðsögn eftir Tíðarandanum.

Svipaða sögu er að segja um frambjóðendur til forseta Íslands. Þó sýnist mér að þú Arnar Þór Jónsson, hafir MENNSKUNA sem til þarf. 

Guðmundur Örn Ragnarsson, 26.3.2024 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband