25.5.2024 | 07:19
Lögfræðilegt rothögg frá reyndum bardagamanni
Á löngum og gifturíkum starfsferli sem málflutningsmaður, kennari og dómari, hefur Jón Steinar Gunnlaugsson þjálfast í komast að kjarna máls. Það gerir hann á sinn persónulega hátt á grundvelli innri sannfæringar. Jón Steinar fer ekki lengri leiðina ef sú styttri er í boði og segir sína meiningu umbúðalaust. Þetta hefur orðið til þess að Jón hefur ekki alltaf siglt lygnan sjó á lífsins leið, enda þætti honum slík sigling vafalaust tilbreytingarlaus og leiðinleg. Samferðamenn hafa komið og farið, eins og gengur, en markmið Jóns hefur aldrei verið að meiða aðra eða skaða, heldur einfaldlega að leitast við að gera það sem hann telur í hjarta sínu rétt. Hann hefur sjálfur sagt að grunnstefið í afstöðu sinni til lífsins sé það að menn eigi að njóta frelsis til orða og athafna svo lengi sem þeir skaða ekki aðra. Óhjákvæmilegur hluti þessa frelsis sé svo að bera sjálfur ábyrgð á háttsemi sinni og tjáningu. Í anda frjálslyndis hefur Jón ávallt lýst sig reiðubúinn til að hlusta á andstæð sjónarmið og endurskoða eigin afstöðu, hafi hann ekki haft á réttu að standa. Með bros á vör bætir hann því stundum við að það hafi þó enn ekki gerst að nokkur maður hafi sýnt fram á villur í hans afstöðu!
Þetta er nefnt hér til að kynna lesendur fyrir því hvernig segja má að Jón Steinar hafi veitt frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35 lögfræðilegt náðarhögg. Frumvarpið felur í sér ætlun um það að 4. gr. laga um EES samninginn orðist svo:
Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.
Jón Steinar hefur bent á að þessi ráðagerð gangi gegn þeirri grunnstoð laga og réttar, sem kennd er við svonefnda ,,lex posterior" reglu (lex posterior derogat legi priori), þ.e. að yngri lög skuli ganga framar eldri lögum. Frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 brýtur gegn þessari meginreglu með því að opna fyrir þann möguleika að yngri löggjöf Alþingis yrði í raun áhrifalaus og einskis virði, þ.e. ef hún stangast á við ,,skuldbindingu samkvæmt EES samningnum".
Ekkert löggjafarþing með sjálfsvirðingu getur samþykkt að gengisfella sjálft sig með þessum hætti og rýra þar með lagalegan fyrirsjáanleika og skerða um leið réttaröryggi landsmanna. Alþingismenn hafa ekki umboð til að grafa með þessum hætti undan íslenskum rétti því stjórnarskrá Íslands leyfir hvergi framsal löggjafarvalds til erlendra stofnana.
Sú staðreynd að ofangreint frumvarp hafi í reynd verið lagt fram á Alþingi Íslendinga sýnir hversu alvarleg staða er upp komin og hve veikum fótum fullveldi landsins okkar stendur nú. Lýðræðið okkar, fullveldi okkar og sjálfstæði eru okkar dýrmætustu fjöregg. Við þurfum fólk í valdastóla sem ætlar að standa vörð um fjöreggin okkar, ekki fólk sem fer ógætilega með þau. Brotin egg getur enginn maður límt saman.
Athugasemdir
Það er list að hafa ætíð á réttu að standa. Til þess þarf að kunna að orða hlutina þannig að ekkert sé rangt. Til dæmis að segja að stjórnarskráin leyfi ekki ísát á sunnudögum, en það leyfi er hvergi að finna í stjórnarskránni, og láta lesanda um að draga þá ályktun að stjórnarskráin banni því ísát á sunnudögum. Þægilegt að geta notað tungumálið á þennan hátt þegar maður er alfarið á móti ísáti á sunnudögum. Ekki er verra að vera svo ætíð sannfærður um réttmæti sinna skoðana og muna bara óslitna sigurgöngu þó lægstu og hæstu dómstólar hafi oft séð hlutina með öðrum augum og illa hafi gengið að sannfæra samferðamenn og ekkert að heyra þeirra rök. Kirsuberið á toppinn er síðan að geta vísað í og upphafið gömul lögfræðihugtök á latínu þó þau hafi ekki fengið neitt lagagildi í gildandi lögum. Einhverjir mundu sjálfsagt sannfærast og hætta að borða ís á sunnudögum og taka svo af ástríðu þátt í hinni göfugu baráttu gegn ísáti á sunnudögum og gegn spillingu þeirra sem ekki stöðva það.
Glúmm (IP-tala skráð) 25.5.2024 kl. 18:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.