Gegnumlýsing

Þankabrot frambjóðanda að loknu forsetakjöri

Um leið og ég þakka öllum þeim sem sýndu mér stuðning í orði og verki, vil ég óska Höllu Tómasdóttur til hamingju með kjör hennar í embætti forseta Íslands.

Í dag hef ég hvílst og fengið fjölmörg símtöl og hvatningarorð sem ég tek með mér inn í framtíðina, hver svo sem sú framtíð verður. Ég treysti því að verða leiddur til þess staðar sem mér er ætlaður. 

Líkja má reynslu síðustu mánaða við einhvers konar gegnumlýsingu, þar sem maður sér samfélag sitt og samferðamennina í nýju ljósi, hvað er heilt og hvað ekki. Í sama ljósi sér maður hvað er heilt í innra lífi manns sjálfs og hvað þarf að styrkja. 

Þegar stjórnkerfið og framgangur kosninganna er skoðað í þessu skæra ljósi birtast mögulegar hliðstæður úr eftirfarandi sögu: 

Til að afstýra uppreisn meðal þrælanna ákveður þrælahaldarinn að boða til kosninga, þar sem þrælarnir fá að kjósa milli frambjóðenda sem hann hefur sjálfur valið. Frambjóðandi A lofar styttri vinnudegi, frambjóðandi B lofar skárri hádegismat. Með þessu er uppreisninni afstýrt og þrælarnir halda áfram að vinna, því þeir ímynda sér að þeir hafi stjórn á aðstæðum sínum. Einn þrællinn, Samúel, neitar að sætta sig við aðstæður. Hann stendur upp og varar aðra við því að kjósa A eða B, því þeir geri ekki annað en að sjá til þess að fólkið sé áfram í ánauð, því hvorugur frambjóðandinn hafi neitt fram að færa sem muni leysa þau úr fjötrum. En máttur blekkingarinnar er svo sterkur að þrælarnir, sem ímynda sér að þau hafi raunverulegt val, stimpla Samúel sem hættulegan mann og hann er húðstrýktur til bana fyrir að vilja skaða lýðræðið. 

Þegar horft er á hið pólitíska landslag hérlendis, þ.m.t. stjórnmálaflokka, fjölmiðla og álitsgjafa, er niðurstaðan þá sú að við búum við heilbrigt lýðræði? Breytir miklu í reynd hvort við kjósum flokka / frambjóðendur til hægri eða vinstri? Eða vex sérfræðingaveldið / báknið / tækniræðið stöðugt, án tillits til niðurstaðna kosninga? Hver er útgönguleiðin? Ný hugmyndafræði? Stofnun nýs stjórnmálaflokks?   

 

E.S. Dæmisagan hér að ofan er sett fram hér í 12 mínútna stuttmynd, sem vel er þess virði að sjá: The Jones Plantation (youtube.com)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir að bjóða þig fram Arnar Þór, -það var mér og mörgum mikils virði, þrátt fyrir úrslitin.

Magnús Sigurðsson, 2.6.2024 kl. 18:59

2 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Ég tek undir með Magnúsi Sigurðssyni.

Þökk sé þér Arnar Þór Jónsson, framboð þitt lauk upp augum margra, sem nú sjá ljós sem áður var ósýnilegt.

Þetta ljós mun halda áfram að lýsa í landinu okkar.

Útgönguleiðin er áframhald boðunnar Sannleikans, því hann gerir okkur frjálsa, losar okkur úr þrældómnum, það mun kosta miklar fórnir, jafnvel dauða, sbr. Frelsarann Jesú Krist sjálfan.

Norðmaðurinn, Henri Ibsen, samdi um þetta hið fræga leikrit, Þjóðníðingur, (En folkefiende).

Guðmundur Örn Ragnarsson, 2.6.2024 kl. 20:10

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Gengur þá bara betur með hvað annað sem þú ert að gera.

Ásgrímur Hartmannsson, 2.6.2024 kl. 20:44

4 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Þakka þér Arnar Þór fyrir þitt göfuga og góða framboð sem fór á annan veg en við óskuðum. Guð hefur gefið þér góðan heila og hugsun um það hvað við þurfum á að halda næstu misseri og ár. Ég bið þess að Guð gefi þér ímynd og hugsun um hvað gera þarf til að halda okkur á floti þrátt fyrir ólgusjó.

Guð blessi þig og fjölskyldu þína Arnar Þór og gangi ykkur allt í haginn.

Tómas Ibsen Halldórsson, 2.6.2024 kl. 22:10

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þakka þér Arnar Þór,tek af heilum hug undir allt sem strákarnir hér segja.Þitt framlag mun aldrei gleymast,því nýtti ég tómstundirnar til að benda kellinga/vinkonum mínum á nær allt sem þú hafðir til málanna að leggja og þær hrifust mjög.Kannski eina tækifæri margra  þeirra frjálsra að kjósa með eigin ráði.. Guð blessi þig og þína fjölskyldu..

Helga Kristjánsdóttir, 3.6.2024 kl. 01:02

6 identicon

Þakka þér Arnar Þór. Það er kominn tími á nýjan stjórnmálaflokk með þínar hugsjónir að leiðarljósi.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 3.6.2024 kl. 07:37

7 identicon

Þú stóðst þig vel í baráttunni Arnar, og takk fyrir það.

En ef þú ert að hugsa um að fara út í stjórnmálin, má ég þá benda á Miðflokkinn.

Þú værir góð viðbót þar og í góðum félagsskap mætra manna

Aðalsteinn Stefánsson (IP-tala skráð) 3.6.2024 kl. 08:18

8 identicon

Held að það sé engin þörf á nýjum stjórnmálaflokki. Ekki nema reghlífarsamtök ( stjórnmálaflokk)utan um frjáls einstaklingsframboð.Þessi reghlífarsamtök væru að sjálfsögðu ekki með neina stefnu heldur myndu frambjóðendur koma með sína eigin. Kosið yrði á milli þeirra í forkosningum þar sem allir hefðu rétt á að kjósa. Þessar forkosningar myndu raða frambjóðendur á lista sem síðan yrði boðinn fram. 

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 3.6.2024 kl. 09:17

9 Smámynd: Guðmundur Karl Þorleifsson

Ég vill þakka þér fyrir þitt framlag og dugnað ykkar hjóna í níliðnum forsetakosningum. Hvet þig til að safna saman góðu fólki er ann landi og þjóð til að undirbúa gott og sterkt framboð með skýra stefnu.   Þú ert þegar komin með góða auglýsingu og það þarf að byggja ofan á það.   Það gæti verið stutt í næstu kosningar 

Enn og aftur  þakka ykkur fyrir ykkar framlag fyrir þjóðina!

Guðmundur Karl Þorleifsson, 3.6.2024 kl. 10:13

10 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Tek undir allt hér að ofan og sérstaklega myndi ég vilja sjá þig koma

í stjórnmálin með þinn eigin flokk eða kíkja í kaffi til Sigmundar.

Þú hefur margt til málanna að leggja og átt mun meiri stuðning heldur

en kemur út úr þessum kosningum og myndu kjósa þig og þinn flokk hiklaust.

Sigurður Kristján Hjaltested, 3.6.2024 kl. 10:53

11 Smámynd: Júlíus Valsson

Arbar Þór Jónsson kom sem himnasending inn í íslensk stjórnmál. Hann hefur lengi verið í stöðu stráksins í sögunni um nýju fötin keisarans en keisarinn er ekki hrifinn því hann hefur verið afhjúpaður. Aldrei fyrr hefur einn maður valdið álíka titringi hjá valdaklíkum Íslands og AÞJ. Íslandi er stjórnað af ófyrirleitnum og gráðugum mafíósum sem svífast einskis og sem eru þess reiðubúnir að fórna öllu fyrir græðgina; fórna landinu, vatninu, orkunni, loftinu og jafnvel fullveldinu og sjálfstæði Íslands fyrir eigin efnisleg gæði. Það eru nánast engar hugsjónir lengur hjá stjórnmálastétt landsins. Fólkið í landinu er nú að snúast til varnar.
AÞJ hefur bent okkur á að Ísland er sjáfstætt og fullvalda lýðræðisríki og það er fólkið er hefur völdin og að lögin koma frá fólkinu en ekki frá Brussel. Stöndum vörð um Arnar Þór Jónsson
, hvetum hann til dáða og góðra verka fyrir land og þjóð!
Hann finnur sér farveg. 

Júlíus Valsson, 3.6.2024 kl. 11:25

12 Smámynd: Dominus Sanctus.

Það er hægt að taka undir allt sem að hér er komið fram.

Dominus Sanctus., 3.6.2024 kl. 13:09

13 identicon

Þú hefur lög að mæla. Ég er alveg sannfærð um það, að þú finnur einhvern vettvang til að starfa á eftir þetta. Nú má segja, að sé spennufall eftir þetta allt saman, og nú er að sjá, hvað framundan er. Ég mun biðja fyrir ykkur, og sérstaklega þér, að þú finnir rétta veginn, og bið Hann að varða þér veginn. Minni á það sem Páll postuli skrifaði í einu bréfa sinna: "EF Guð er með oss, hver er þá á móti oss." Það var gaman og lærdómsríkt að taka þátt í þessu. Við skulum vona það besta. Guð veri með ykkur. Með baráttukveðjum.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 3.6.2024 kl. 22:16

14 identicon

Trúi því að þú verðir leiddur til þess staðar sem þér er ætlaður. Það hefur allt sinn tilgang og það hafa allir sinn tilgang í lífinu. Megi almættið vera með þér í þeirri vegferð.

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 4.6.2024 kl. 09:48

15 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Þú er allt of "flottur" til að hætta núna!

Sigurður I B Guðmundsson, 4.6.2024 kl. 13:00

16 Smámynd: Grímur Kjartansson

Margir þrælar höfðu það verra eftir að hafa verið "frelsaðir"

Áður en Bretar gengu úr ESB þá var mikil áhersla lögð á "frelsið" sem fylgdi því að vera í ESB eins öfugsnúið og það virðist

Í nýafstöðnum forsetakosningum var oft talað um að kjósa gegn (ímynduðu) valdi  og þá væntanlega með frelsinu?
en sigurformúlan reyndist svo vera frasar úr sjálfshjálparbókum

En við óskum Höllu til hamingju og hún verður eflaust ágætis forseti

Grímur Kjartansson, 4.6.2024 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband