10.6.2024 | 22:12
Íslendingar misstu af þessari bylgju en munu grípa ,,seinni bylgjuna"
Bitur reynsla hefur leitt til þess að kjósendur á meginlandi Evrópu hafa fengið nóg af sósíalisma, bæði þjóðernissósíalisma og fjölþjóðlegum sósíalisma. Kjósendur á meginlandinu hafa líka fengið nóg af fjölmiðlum sem kalla alla "harðlínumenn" (e. hard-right) sem kjósa ekki vinstri flokka. Skynsamt fólk, sem kann skil á almennu velsæmi, er líka búið að fá nóg af blaðamönnum sem klína öfga-stimplum á hvern þann sem ekki skrifar athugasemdalaust undir pólitískan réttrúnað ráðandi stétta sem vilja ráða yfir öllum sviðum daglegs lífs undir því yfirskini að við verðum að ,,bjarga plánetunni".
Pólítískur rétttrúnaður samtímans hefur tekið á sig mynd trúarkreddu, þar sem vegið er að mælikvarða góðs og ills með afstæðishyggju; þar sem almennir borgarar eru hræddir við að andmæla af ótta við útskúfun og þar sem þess er krafist að staðreyndir séu látnar víkja fyrir ímyndun. Menn geta reynt að halda því fram að svart sé hvítt, stríð sé friður, 2+2 séu 5 og að menn geti upplifað sig sem ketti og gert kröfu um kattasand á almenningsklósettum, en pendúllinn er farinn af sveiflast til baka og leitar aftur í átt til heilbrigðrar skynsemi því óheilindi, ósannsögli, bull, fals og tvöfeldni þola ekki sólarljós upplýstrar rökræðu.
Evrópumenn hafa fengið nóg af leikrænum tilburðum og yfirborðslegum stimplum. Um leið og kjósendur höfnuðu áróðursbrögðum sem beitt er á vettvangi fjölmiðla fór Emmanuel Macron á taugum og boðaði umsvifalaust til kosninga.
Þessi andófshreyfing mun ná til Íslands: Sagan sýnir að allar slíkar bylgjur ná hingað til lands fyrr eða síðar. Það er því ekki spurning um hvort, heldur hvenær viðsnúningurinn verður. Hvar ætlar þú að vera þegar miðflóttaaflið skellur á skurn gerviveraldarinnar?
Athugasemdir
Ætli það sé ekki frekar það að þeim fækkar óðum sem muna öxulveldin, seinni heimsstyrjöldina og aðdraganda hennar. SS sveitir, kúgun og gasklefa manna sem sögðu fögur orð með yfirvegun og sterkum rómi. Þeim fækkar sem þekkja blekkingarleikinn þegar þeir sjá hann og heyra aftur. Og frjór jarðvegur til að endurtaka leikinn blasir nú við þeim sem aðhyllast þá pólitík, pólitík sem mátti nefna sínu rétta nafni meðan fólk mundi.
Glúmm (IP-tala skráð) 10.6.2024 kl. 23:05
Glúmm, ef þú átt við að ríkjandi stjórnmálastefna á vesturlöndum undanfarin ár stefni hraðbyri í átt að fasisma, þá er ég sammála.
Pétur Ari Markússon (IP-tala skráð) 11.6.2024 kl. 08:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.