Hver erum við? Hverju þjónum við? Fyrir hvað stöndum við?

Í dag er haldin þjóðhátíð, þar sem við fögnum því að vera sjálfstæð þjóð. Grunnforsenda þess að Ísland sé sjálfstætt er sú að við, almennir borgarar, séum sjálfstæð í hugsun og gjörðum. Sýnum við slíkt sjálfstæði í orðum og verki ... eða einkennast hugsanir okkar og athafnir af hjarðhegðun? Látum við stjórnast af því sem við teljum að aðrir vilji að við gerum? Ef meirihlutinn stefnir í ranga átt, förum við þangað líka? 

Daglegt líf minnir okkur á þessa eilífu togstreitu mannlegrar tilveru, þar sem tveir pólar togast á: Þörf okkar fyrir að tilheyra einhverju stærra / Þörf okkar fyrir frelsi.íslenski fáninn

Ef við viljum geta verið sjálfstæð sem einstaklingar og sem þjóð þurfum við sjálfstæða hugsun og hugrekki til að geta staðið með sannfæringu okkar, varið rétt okkar og gætt að frelsi okkar. Að öðrum kosti týnum við sjálfum okkur, gleymum uppruna okkar, vitum ekki lengur fyrir hvað við stöndum og ekki hver við erum. Sagan sýnir að rótlaust fólk lætur betur að stjórn en þeir sem standa á föstum grunni. 

Í Fóstbræðrasögu er sagt frá manni sem nefndur Fífl-Egill því hann gerði einfaldlega það sem honum var sagt að gera. Egill þessi lét m.ö.o. hvorki samvisku sína né gagnrýna hugsun þvælast fyrir sér. Um hann segir nánari í sögunni að jafnan hafi ,,leikið að honum dætur heimskunnar, þær dul og rangvirðing svo hann vissi ekki gjörla hver hann var“.

Orðið dul vísar hér til þess að hafa of mikið sjálfsálit, vera haldinn hroka eða skorta sjálfsþekkingu. Vonandi verða það ekki örlög Íslendinga að ofmetnast, tapa sjálfum sér og glata þannig bæði sjálfsvirðingunni og virðingu annarra.

Sem sjálfstætt ríki á Ísland að vera fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi eftir því sem við á og hafa rödd, en ekki vera þögull og óvirkur farþegi eða strengjabrúða.

Sem fullvalda ríki á Ísland ekki að leyfa erlendum ríkjum, ríkjasamböndum eða stórfyrirtækjum að ráðskast með innri málefni íslenska lýðveldisins.

Lýðræðislega kjörnir fulltrúar eiga sjálfir að mæta þeirri ábyrgð og valdi sem þeim hefur verið falið, ekki kokgleypa erlendar hugmyndir hugsunarlaust. Stjórnmálamenn eiga að þjóna kjósendum, ekki gerast strengjabrúður auðmanna / erlendra stofnana.

Á þetta ber að minna alla daga, en þó kannski sérstaklega á þjóðhátíðardaginn.

Til hamingju með 80 ára lýðveldisafmælið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið ofboðslega er ég sammála hverju orði þínu vinur. Gleðilegan þjóðhátíðardag á meðan við höfum enn eitthvað frelsi.

Karl Löve (IP-tala skráð) 17.6.2024 kl. 13:09

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Tek undir hvert orð í þínum pistli.

Gleðilega þjóðhátíðardag.

Sigurður Kristján Hjaltested, 17.6.2024 kl. 15:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband