Klikkaðir tímar, klikkað samfélag?

Isidor Rabi, sem vann Nóbelsverðlaun í eðlisfræði árið 1944, var eitt sinn spurður hvernig hann hefði orðið vísindamaður. Rabi svaraði að hvern einasta dag eftir skóla hefði móðir hans talað við hann um skóladaginn. Hún hafði engan sérstakan áhuga á hvað hann hefði lært þann daginn, en hún spurði alltaf: „Spurðir þú góðrar spurningar í dag?“ Sjálfur sagði Rabi síðar:

– „Að spyrja góðra spurninga var það sem gerði mig að vísindamanni.“

Ég nefni þetta hér því ég þurfti að klípa mig þegar ég las áðan leiðara Morgunblaðsins í gær, 20.7., þar sem sannarlega er spurt mikilvægra og gagnrýninna spurninga um Covid-19, sem stálgreindur leiðarahöfundur Moggans virðist hafa áttað sig á að herjaði fremur á heiminn sem sálsýki en sem drepsótt. 

Í leiðaranum kemur m.a. fram að ,,óþægilegt" sé að hugsa til þess að mörgum áleitnum spurningum um faraldurinn sé enn ósvarað, tæplega 5 árum eftir að hann fór að breiðast út. Af hinum ósvöruðu spurningum stingi uppruni veirunnar helst í augu. ,,Þrátt fyrir að sú ráðgáta ætti að vera efst á blaði bæði vísindasamfélagsins og stjórnmálanna um allan heim ríkir nánast annarlega lítil forvitni um hann." Hér skrifar augljóslega hugsandi maður sem horfist í augu við að sóttvarnaraðgerðir íslenskra stjórnvalda brutu sumar hverjar í bága við stjórnarskrá, þótt íslenskir dómstólar hafi hingað til verið tregir til að viðurkenna það. 

Um þetta tímabil þarf að ræða af mun meiri djörfung en gert hefur verið hingað til, sbr. það hvernig stjórnmálamenn viku sér undan hlutverki sínu og eftirlétu sérfræðingum að stjórna landinu, sbr. nánari umfjöllun í þingræðu sem ég flutti 21.12.21 og var þá í hlutverki hrópandans í eyðimörkinni. Þannig liggur t.d. fyrir að þáverandi forsætisráðherra hafði svo góðan tíma aflögu að hún stytti sér stundir með því að rita heila bók í "fríinu", þar sem ekki var þó leitast við að greina aðgerðir stjórnvalda eða spyrja góðra spurninga út frá sjónarhóli forsætisráðherra í ríki þar sem stjórnmálin höfðu verið aftengd. Nei, um var að ræða glæpasögu, sem Íslendingar ,,skemmtu" sér við að lesa árið 2022.  

Frammi fyrir þessu má einnig minna á að "vísindasamfélagið" markaði skýra stefnu í þessum efnum þegar á árinu 2020, sbr. þetta svar Jóns Magnúsar Jóhannessonar á vísindavef HÍ 24.3.2020, þar sem segir m.a.: ,,Sem betur fer er hægt að fullyrða, án nokkurs vafa, að SARS-CoV-2 kom ekki upprunalega frá rannsóknarstofu." Þetta viðhorf, þessi falska fullvissa, yfirlæti og menntahroki, í bland við trúgirni og undirgefni almennings, var keyrð áfram með stífum áróðri yfirvalda ("Ég hlýði Víði" & "Við erum öll í þessu saman"). 

Gott er að nýta þessa sumardaga til að horfa á íslenskt samfélag úr fjarlægð og íhuga hvað mun verða okkur til bjargar næst þegar hjörðin fælist og æðir af stað í þá átt sem henni er sagt að hlaupa, undir svipuhöggum hagsmunaaðila, fjölmiðla og aðkeyptra sérfræðinga og án þess að stjórnvöld komi almenningi og stjórnarskránni til varnar. 

Frelsaðu okkur, ó Guð sannleikans, frá hugleysinu sem víkur frá sannleikanum, frá deyfðinni sem sættir sig við hálfsannleika, frá ofmetnaðinum sem ímyndar sér að hann þekki allan sannleikann.

Bæn vitringsins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband