Ó-Sjálfstæðisflokkur herðir snöru að eigin hálsi, aðrir flokkar lána reipið

Utanríkisráðherra Íslands er nú lofuð af varautanríkisráðherra Bandaríkjanna fyrir stuðning og hollustu. Bandaríkin hafa verið í stöðugum stríðsrekstri síðustu áratugi og utanríkisráðherra Íslands hefur í orði og verki kastað olíu á ófriðarbálið. En hafa Íslendingar verið spurðir álits? Styðja Íslendingar áframhaldandi stríðsrekstur í Úkraínu? Í umboði hvers talaði Þórdís Kolbrún þegar hún ögraði Rússum og rússneska flotanum?  Hvaða siðferðilegu forsendur hefur utanríkisráðherra vopnlausrar þjóðar til að hvetja til hernaðar og blóðsúthellinga? Ætlar hún sjálf fram á vígvöllinn eða telur hún rétt að Íslendingar sendi menn fram til orrustu? Væri ekki rétt að við Íslendingar fengjum að lýsa afstöðu okkar til þessara stríðsæsinga áður en ráðherrar gefa yfirlýsingar í okkar nafni? Hvers konar lítilsvirðing er það fyrir almennum borgurum að nota skattfé þeirra til vopnakaupa, án þess að bera slíka ákvörðun undir dóm þjóðarinnar?

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, er skoðanabróðir utanríkisráðherra Íslands í flestum efnum. Trudeau er maður sem ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa raunar sýnt sérlega vinsemd, m.a. með því að bjóða honum hingað til lands. Hér er ný upptaka af honum að hvetja til stigmögnunar stríðsátakanna í Úkraínu, þar sem hann hvetur til þess að langdrægár eldflaugar, sem framleiddar eru í NATO ríkjum, verði notaðar á skotmörk í Rússlandi. Réttlætingin er sú að Úkraína ,,verði að vinna stríðið" gegn Rússlandi. Öllum sæmilega skýrt hugsandi mönnum er ljóst að Úkraínumenn eru aldrei að fara að vinna þetta stríð. Ástæðan er sú, eins og Trudeau og Þórdís Kolbrún ættu að vita, að Rússar gætu tortímt gjörvöllu mannkyninu aðeins með því að nota brotabrot af vopnabúri sínu. Því er enginn að fara að ,,vinna stríð" gegn Rússum. Ræða Trudeaus er óráðstal óábyrgs manns sem ekki ætlar sjálfur að fórna neinu í þeim blóðsúthellingum sem hann boðar. 

Á sama tíma og lægra settir pótintátar hittast á Íslandi, sitja æðstu ráðamenn Bretlands og Bandaríkjanna á fundi til að ráðslaga um hvernig unnt sé að stigmagna stríðsátökin. Hefur einhver heyrt framangreinda ,,leiðtoga" NATO ríkjanna kalla eftir friðsamlegri lausn? Væri orkunni ekki betur varið í friðarviðræður en stríðstal? Hið pólitíska vald á Vesturlöndum er komið í trölla hendur. Fáviska þeirra hefur fært alla heimsbyggðina á barm gjöreyðingarstríðs þriðju heimsstyrjaldarinnar.  

Utanríkisráðherra Íslands er holdgervingur þeirrar öfugþróunar sem orðið hefur i vestrænum stjórnmálum á síðustu árum og áratugum. Í stað þess að þjóna almenningi í sínu eigin landi koma ráðamenn fram sem eins konar lénsherrar, þ.e. fulltrúar erlends yfirvalds. Eins og sannir lénsherrar ber þetta fólk meiri umhyggju fyrir yfirþjóðlegum hagsmunum en því að framkvæma vilja almennings og þjóna sínum eigin landsmönnum. Þess í stað ganga þau fram sem fulltrúar valdstjórnarinnar. Þetta er gert með því að tilkynna ákvarðanir sem búið er að taka (án lýðræðislegrar umræðu). Vilji valdhafanna er þá klæddur í búning stjórnvaldsreglna og þær svo notaðar til að skerða bæði frelsi og eignir borgaranna. Þetta veldur því að stöðugt sígur á ógæfuhliðina í stjórnarfarslegu tilliti.

Og nú hefur utanríkisráðherra tilkynnt að hún hyggist bíta höfuðið af skömminni og misvirða stjórnarskrá lýðveldisins með nýrri tilraun til að leggja fram frumvarp um bókun 35. Með frumvarpinu er grafið undan Alþingi og íslensku lýðræði, auk þess sem vegið er að réttaröryggi landsmanna því frumvarpið mun hafa þau áhrif að samþykkt lög frá Alþingi þurfa að víkja fyrir EES reglum verði árekstur þar á milli. Með frumvarpinu vefur utanríkisráðherra snöru um háls síns eigin flokks, kastar rýrð á alla sögu flokksins og pólitíska arfleifð hans, gengisfellir sjálfstæðisstefnuna og rýrir auðvitað sjálfstæði Íslands. Frumvarpið felur í sér misgerð gegn öllum þeim sjálfstæðismönnum (með stóru og litlu essi) sem fórnuðu tíma og fjármunum til að vinna að sjálfstæði Íslands á þeim góða grunni sem lagður var með Sjálfstæðisstefnunni 1929. Með því að hleypa þessu frumvarpi í gegnum þingflokksherbergið hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins brugðist sjálfum sér, flokknum og kjósendum. Afleiðingarnar munu birtast í næstu kosningum.

Aðrir þingflokkar hljóta glaðir að vilja lána þingmönnum Sjálfstæðisflokksins reipi í framangreinda snöru, því það er augljóslega hagur allra annarra þingflokka að Sjálfstæðisflokkurinn dingli sem lengst í gálganum sem þeir hafa sjálfir valið sér.  

Ef þingmenn, ráðherrar og forseti Íslands hyggjast veita frumvarpinu brautargengi og gera þessi ólög að lögum, þá ganga bregðast þau um leið því drengskaparheiti sem þau hafa öll unnið, þ.e. að standa vörð um stjórnarskrá Íslands. 

Öllu hefur verið snúið á hvolf: 

“We now live in a nation where doctors destroy health, lawyers destroy justice, universities destroy knowledge, governments destroy freedom, the press destroys information, religion destroys morals, and our banks destroy the economy.” (Chris Hedges)

Everything is fake


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Mikið rétt hjá þér Arnar Þór, réttur almennings hér á landi er sviptur öllu réttlæti af stjórnvöldum, þeim sem eiga að gæta réttar okkar og öryggis.

Tómas Ibsen Halldórsson, 14.9.2024 kl. 16:24

2 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Arnar Þór Jónsson, biblían kennir okkur að þegar menn hafna sannleikanum, þá sendir Guð þeim megna villu.

Villunni og lyginni höfum við því miður tekið við og köllum það Rétttrúnað. Í stað sannleikans, höfum við nú velþóknun á ranglætinu. (2. Þess. 2:11).

Þess vegna höfum við kallað yfir okkur dóm, sem við nú afplánum, en hann er þessi:

Við höfum verið flutt af veginum sem liggur til Paradísar, en erum komin á Heljarslóð. Við lifum í þjóðfélagi þar sem læknar eyðileggja heilsu fólks vísvitandi, þar sem lögfræðingar sniðganga réttlæti, háskólar fara gegn sannleika og þekkingu, þar ríkisstjórn hneppir fólk í fjötra, en leysir þá ekki, þar sem fjölmiðlar flytja falskar fréttir, þar sem trúvilla er boðuð sem rífur niður gott siðferði og þar sem bankar brjóta niður hagkerfið, eins og Chris Hedges segir og við erum honum sammála.

Samt er ekki öll von úti. Náðartíminn Guðs stendur enn. Hægt er að gera iðrun og komast úr snöru böðulsins, úr ríki myrkursins inn í ríki ljóssins.

Tökum afturhvarfi.

Guðmundur Örn Ragnarsson, 14.9.2024 kl. 18:00

3 Smámynd: Indriði Þröstur Gunnlaugsson

Lokanir sendiráðs Íslands í Moskvu og brottvísun rússneska sendiherrans voru alvarleg mistök sem grafa undan langvarandi samskiptum Íslands og Rússlands. Í gegnum áratugi hafa löndin átt í fjölbreyttu samstarfi, bæði á sviði norðurslóðamála, þar sem sameiginlegir hagsmunir hafa legið til grundvallar, og á sviði rannsókna, nýsköpunar tengdri sjávarútvegi og menningu.

Sérstaklega má nefna samstarfið í sjávarútvegi, þar sem bæði Ísland og Rússland eru leiðandi þjóðir í fiskveiðum. Rannsóknir og nýsköpun, m.a. á sviði sjálfbærni og tækniþróunar í vinnslu sjávarfangs, hafa borið ávöxt fyrir báðar þjóðir. Sameiginlegar rannsóknir á lífríki hafsins hafa stuðlað að betri nýtingu og verndun auðlinda hafsins. Íslenskur sjávarútvegur hefur notið góðs af samstarfi við rússneska vísindamenn og fyrirtæki, og það er mikið tjón að slíta þeim tengslum.

Á sviði lista og menningar hafa tengslin einnig verið dýrmæt. Rússnesk list, tónlist og ballett hafa haft mikil áhrif á íslenskt menningarlíf, og íslenskir listamenn hafa fengið tækifæri til að sýna verk sín í Rússlandi. Þessi menningarsamskipti hafa styrkt sambandið á milli landanna og skapað grundvöll fyrir víðtækara samstarf í framtíðinni.

Með því að loka á þessi sambönd og senda rússneska sendiherrann heim, erum við ekki aðeins að skaða langvarandi pólitísk samskipti, heldur líka að grafa undan mikilvægu samstarfi á sviði rannsókna, nýsköpunar og menningar.

Við hefðum aldrei átt að taka þátt í viðskiptabanni gegn Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu. Ísland, sem smáþjóð, hefur ekkert að vinna með því að taka þátt í slíkum refsiaðgerðum. Þvert á móti eigum við að halda í hlutleysi okkar og einbeita okkur að því að viðhalda friðsamlegum samskiptum og byggja á þeim traustu tengslum sem þegar eru til staðar.

Indriði Þröstur Gunnlaugsson, 14.9.2024 kl. 20:21

4 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Kæru Tómas, Guðmundur og Indriði. Takk fyrir ábendingar og athugasemdir.

Arnar Þór Jónsson, 14.9.2024 kl. 20:25

5 Smámynd: Indriði Þröstur Gunnlaugsson

Kærar þakkir til þín Arnars Þórs fyrir virkilega góðar greinar. Það er svo mikilvægur þáttur að þú þorir að vera röddin í eyðimörkinni, að standa upp fyrir almennri skynsemi á tímum þar sem slík rödd er oft þögnuð eða hunsuð. Ég met það mikils að einhver þori að segja það sem margir hugsa, en kannski ekki hafa kjarkinn til að tjá. Við þurfum fleiri eins og þig til að vekja fólk til umhugsunar og standa gegn straumnum þegar þörf er á.

Eins og Mark Twain sagði: 

“Whenever you find yourself on the side of the majority, it is time to pause and reflect.”

Indriði Þröstur Gunnlaugsson, 14.9.2024 kl. 20:44

6 identicon

Mjög góð greining hjá þér og ég held að þarna megi sjá flóttan úr sjálfstæðisflokknum.

Fólk skilur ekki þessa utanríkisstefnu sem hún framfylgir.

Runar Valsson (IP-tala skráð) 14.9.2024 kl. 21:13

7 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Brussel heillar. Það hryggir mig að ráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli vera svo óþjóðhollur að vilja flytja vald eigin þjóðar úr landi. Velti fyrir mér hvort ekki hefði verið skynsamlegt að stofna stjórnlagadómstóll samhliða inngöngu í EES. En líklega óraði engan fyrir hve lúmskt ESB valdið er. 

Ragnhildur Kolka, 15.9.2024 kl. 05:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband