Fréttatilkynning: Stofnun nýs stjórnmálaflokks.

Á vegferð minni í framboði til embættis forseta Íslands fann ég mikinn stuðning víða um land, sem ég er þakklátur fyrir.

Framboðið var heiðarleg tilraun til að vekja Íslendinga til vitundar um þá öfugþróun sem er að eiga sér stað í landsmálum. Innviðir okkar eru við það að brotna, sumir jafnvel þegar brotnir: Löggæslan, landamærin, vegakerfið, menntakerfið, sjúkrahúsin og okkar sameiginlegu siðrænu viðmið. Ef innviðirnir brotna, þá brestur einnig sjálfur grundvöllur samfélagsins, þ.e. sú góða samfélagsgerð sem við Íslendingar höfum búið við fram að þessu. Engin þjóð vill missa frá sér lagasetningarvaldið, landið, innanlandsfriðinn, auðlindir sínar, tungumálið o.fl. Þetta gæti allt gerst innan fárra áratuga. Frammi fyrir þessari alvarlegu stöðu hljótum við að spyrja hver muni koma okkur til bjargar og verja frelsi okkar? Kynni mín af Alþingi, stjórnmálaflokkunum, dómstólunum, háskólunum, stjórnsýslunni o.fl. segir mér að við getum ekki reitt okkur á flokkakerfið, stjórnkerfið, dómskerfið, menntakerfið, fjölmiðlana né stórfyrirtækin. Lausnin er heldur ekki fólgin í að ofurselja okkur fjarlægu, yfirþjóðlegu valdi. Hver er þá að fara að koma okkur til bjargar? Enginn nema við sjálf.

Frammi fyrir aðsteðjandi ógnum er okkur bæði rétt og skylt að verja þá samfélagsgerð sem við sjálf höfum fengið að njóta góðs af, þar sem börnin okkar geta verið frjáls og örugg. Þessi vörn þarf að eiga sér stað á opnum og lýðræðislegum vettvangi, þar sem allir fá að láta rödd sína heyrast á jafnræðisgrunni, skrumskælingarlaust. Þessar leikreglur þarf að virða svo að lýðræðið verði ekki að blekkingarvef. Stjórnmálaflokkar eru kosnir á grundvelli loforða sem þeir sjálfir gefa og gangi þeir á bak orða sinna eiga kjósendur ekki að una því andmælalaust. Stjórnmál snúast um hagsmuni þjóðarinnar, ekki hagsmuni stjórnmálamanna. Lýðræðið má ekki verða flokksræði að bráð. Kjörnir fulltrúar hafa ekki umboð til að leggja ákvörðunarvald í hendur ókjörinna embættismanna. Ákvörðunarfælið fólk á ekki erindi í stjórnmál. Stjórnmálamenn eiga ekki að gerast blaðafulltrúar ráðandi afla í von um að halda starfi sínu. Þrýstihópar mega ekki ná tangarhaldi á ríkisvaldi. Íslenskir kjósendur hafa aldrei samþykkt að alþjóðlegar stofnanir ákvarði stefnu íslenskra stjórnvalda og að sú stefna sé innleidd hér án umræðu.

Mjög alvarleg staða blasir við, bæði hér og í nágrannalöndum okkar. Stjórnmálaflokkar hafa gengist sérhagsmunahópum á hönd, ríkisvald er í síauknum mæli afhent alþjóðlegum stofnunum. Smáríki tala eins og stórveldin fyrirskipa. Stjórnmálaþróunin virðist vera í átt til miðstýrðrar alheimsstjórnar, þar sem þjóðríkin afhenda fjármuni og vald til alþjóðlegra stofnana, samhliða því að tengslin rofna milli kjósenda og þeirra sem fara með valdið. Slíkt andlitslaust og ábyrgðarlaust valdakerfi er ógn við borgaralegt frelsi og virðist raunar miða að því að ná stjórn á öllum þáttum mannlífsins: Orkunotkun okkar; hvað við fáum að sjá og lesa á Internetinu; hvaða lyf við tökum; hvað við fáum að kjósa um. Alræðisógnin sem í þessu felst er greinileg og vaxandi. Frammi fyrir þessu ber okkur að verja frelsi okkar, virkja almenning til lýðræðislegrar þátttöku og standa vörð um Ísland. Sem smáþjóð með merka lýðræðissögu hafa Íslendingar dýrmætan möguleika á að marka sína eigin braut í átt til farsældar með náungakærleik og samvinnu að leiðarljósi.

Landnám Íslands var knúið áfram af frelsisþrá og enn leitar fólk hingað í leit að frelsi. Okkur ber því að verja frelsið og gæði landsins. Við höfum fengið þetta land að gjöf og frelsið í arf. Okkur hefur verið trúað fyrir þessu landi, en við erum að tapa því frá okkur og um leið töpum við auðæfum landsins. Ef ekki kemur sterk rödd inn á þingið til að verja allt það sem við þurfum að vernda þá mun illa fara. Koma verður til móts við unga fólkið sem vill hafa atvinnu og vill eignast þak yfir höfuðið og bændur sem vilja fá möguleika til að lifa af við framleiðslu sína. Koma verður því fólki til aðstoðar sem er að missa hæfileikana til að takast á við lífið og leysa vanda margs eldra fólks sem býr við ótrúlegar fjárskerðingar og bág kjör. Unga fólkið og gamla fólkið verður að hafa von um breytingar: Lausn undan valdboði. Gegn misrétti. Gegn endalausri skattheimtu og græðgisvæðingu.

Á síðustu vikum hafa fjölmargir hvatt mig til að stofna stjórnmálaflokk til að freista þess að snúa þjóðfélagi okkar til betri vegar. Baráttu minni sé alls ekki lokið, hún sé í raun rétt að byrja. Framtíð landsins og íslenskrar þjóðar eru í húfi. Þetta eru verðmæti sem eru þess virði að berjast fyrir og verja.

Á grunni framangreindra sjónarmiða hef ég nú stofnað stjórnmálasamtök, Lýðræðisflokkinn - samtök um sjálfsákvörðunarrétt, í þeim tilgangi að vinna gegn þróun í átt til ofstjórnar og óstjórnar[1] sem er að knésetja íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki. Spyrna verður gegn öfugþróun sem birtir verstu hliðar stjórnmálanna, gerir lýðræðið óvirkt, eyðir lýðfrelsi og skapar í reynd nýja yfirstétt sérfræðinga og tæknimanna, sem öðlast sífellt meiri völd án þess að svara til ábyrgðar gagnvart kjósendum. Gömlu flokkarnir eru þá orðnir eins og tveir vængir á ófleygum fugli, hluti af kerfi sem hætt er að þjóna almenningi en þjónar þess í stað sjálfu sér, flokksgæðingum, hagsmunaaðilum og erlendu valdi.

Lýðræðisflokkurinn snýst um að efla lýðræði, frelsi og sjálfsákvörðunarrétt. Þessi nýju stjórnmálasamtök verða byggð á heiðarleika og þeim gildum sem best hafa reynst. Ég er tilbúinn að fara í þessa baráttu með öllu því hugrakka og velviljaða fólki sem vill heyja hana með mér af heilu hjarta, með réttsýni og visku að leiðarljósi, fyrir landið okkar, Ísland.

Garðabær, 29. september 2024,

                                                                      

Arnar Þór Jónsson.

 

[1] Ofstjórn felur í sér tilhneigingu í átt til alræðis, þar sem ríkið stjórnar öllu. Óstjórn er myndbirting stjórnleysis.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Dominus Sanctus.

Til hamingju með þetta skref,

ertu búinn að búa til logo-merki?

Dominus Sanctus., 29.9.2024 kl. 10:47

2 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Ég óska þér til hamingju með þessa ákvörðun, Arnar Þór Jónsson, og mun styðja þig heilshugar.

Guðmundur Örn Ragnarsson, 29.9.2024 kl. 10:58

3 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Þakka góð orð. Já, lógó er komið og verður kynnt mjög bráðlega.

Arnar Þór Jónsson, 29.9.2024 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og fimmtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband