Við erum borgarar en ekki þegnar. Á því er mikill munur.

Á grundvelli sinna pólitísku kenninga verður Gunnari Smára Egilssyni tíðrætt um ,,auðvaldið" sem rót alls hins illa. Ríkisvaldið kallar hann ,,almannavald" og gefur sér að það vald sé almenningi vinveitt. Sjálfur hef ég ávallt stutt við frjálst einkaframtak og samfagnað þeim sem auðgast á heiðarlegan hátt því framleiðni og hagvöxtur er undirstaða samfélagslegra framfara. Öfugt við Gunnar Smára hef ég ekki blint traust á ríkisvaldi. Í anda vestrænnar stjórnskipunarhefðar hef ég minnt á nauðsyn þess að valdbeitingu ríkisins séu settar stífar skorður, þannig að verjast megi ofríki og harðstjórn. 

Í þessu samtali okkar Gunnars Smára í gær [01:15:00] (þar sem þáttastjórnandinn yfirtók reyndar hljóðnemann í lokin) beindi ég athyglinni að því að mögulega þurfum við GSE báðir að endurskoða afstöðu okkar í ljósi þeirrar stöðu sem við blasir:

Fyrir liggur að ríkustu menn heims eiga reglulega stefnumótunarfundi með þjóðarleiðtogum, stjórnmálamönnum, herforingjum o.fl., auk boðsgesta úr röðum áhrifafólks úr ýmsum geirum. Fundir þessir eru iðulega skipulagðir af World Economic Forum, en ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa verið virkir á þeim vettvangi, m.a. fyrrv. forsætisráðherra Íslands. Á þessum fundum, m.a. í Davos, eru línurnar lagðar um framtíð almúgans. Núverandi forsætisráðherra Bretlands, Keith Starmer, hefur opinberlega sagt frá því að hann kjósi fundina í Davos umfram þingfundi í Westminster.  

Um þessa stöðu er mikið rætt erlendis, en á vettvangi íslenskra stjórnmála hvílir einhvers konar bannhelgi yfir umræðu um þessi mál. Sú þögn er býsna alvarleg í ljósi þeirra áhrifa sem þessir fundir, sem stýrt er af fulltrúum stórvelda og stærstu fyrirtækja heims, hafa á íslensk stjórnmál og stefnumörkun stjórnvalda.

Í samtali okkar GSE í gær lagði ég áherslu á að menn þurfi að horfast í augu við breytta heimsmynd og þá hættu sem í því getur fólgist að kjörnir fulltrúar almennings ráðslagi á bak við luktar dyr með fulltrúum alræðisríkja og risastórra hagsmunaaðila (m.a. vopna- og lyfjaframleiðenda) undir merkjum þess sem kallað er "stakeholder capitalism".  

Hver er staða smáríkis eins og Íslands í heimi þar sem auður og völd safnast á æ færri og stærri hendur? Hvernig ver dvergþjóð auðlindir sínar í slíkum heimi? Þurfum við ekki öll, þ.m.t. ég sjálfur og GSE, að íhuga hversu vel hugmyndir okkar um heiminn samræmast þeim nýja veruleika sem við blasir?

Í heimi þar sem peningavald og pólitískt vald er gengið í eina sæng verður meginspurningin kannski þessi: Viltu beygja þig undir þessa þróun og lúta valdinu umyrðalaust? Eða viltu standa vörð um frjálsan vilja mannsins, frjálsa skoðanamyndun, frjálsa tjáningu, lýðræðislega lagasetningu og, síðast en ekki síst temprað vald, þ.e. bæði ríkisvald og peningavald? 

Lýðræðisflokkurinn er stofnaður til að veita fólki rödd, virkja beint lýðræði í mikilvægustu málum og efla þar með sjálfsvirðingu okkar sem frjálsra einstaklinga. Við erum borgarar, en ekki þegnar. Á því er grundvallarmunur.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Þegar sumir spurðu á einni af FB grúppum Gunnars og hans fólks, hvernig flokkurinn hans og tilurð var fjármagnað árin áður en hann komst í kosningaúrslit, voru sumir settir í bann (Blocked).

Guðjón E. Hreinberg, 4.10.2024 kl. 14:34

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Ríkisbitlingar gerðu út af við grasrót Sjálfstæðisflokksins og þar með voru dagar hans taldir, því hvað er stjórnmálaflokkur án sinna flokksmanna? Það skilur núverandi forysta flokksins alls ekki og er enn að klóra sér í hausnum yfir vaxandi fylgistapi. 

Júlíus Valsson, 4.10.2024 kl. 16:37

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Björgólfsfeðgar fannst mér til fyrirmyndar að mörgu leyti fyrir hrun, það er að segja áberandi auðmenn sem studdu menningu og listir. Í almennri umræðu þarf að verða aftur þessi endurreisn á virðingu fyrir heiðarlegum auðmönnum sem styðja menningu og listir og það góða. Ef ríkið verður of sterkt þá kemur stöðnun og afturför.

Mér finnst munur á auðmönnum þjóðlegum og þessum ofurríku sem tilheyra eina prósentinu. Hvers vegna þora ekki vinstrimenn að tala gegn WEF og DAVOS? Vegna þess að tengsl eru þar á milli?

Ingólfur Sigurðsson, 4.10.2024 kl. 18:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband