6.10.2024 | 09:19
Er hægt að bjarga sjálfum sér með því að skaða aðra?
Ofangreind spurning leitar á hugann eftir ,,morgunheimsókn" mína á x.com (twitter) þar sem mannskepnan afhjúpar sjálfa sig á svo margbreytilegan hátt. X, í núverandi mynd, er dýrmætur vettvangur í öllum sínum hryllingi. Í veröld þar sem þrýstihópar, hagsmunaaðilar, stjórnmálaflokkar og ríkisstjórnir leitast við að stýra umræðunni, er X vettvangur tiltölulega óskerts málfrelsis. Þar má því sjá ýmislegt sem hvergi er sýnilegt á öðrum fréttamiðlum.
En þar með er ekki sagt að heimsókn á x.com sé skemmtileg eða þægileg. Þar ber margt ljótt fyrir augu, t.d. þessa upptöku hér, sem skilur mig eftir mjög dapran á sunnudagsmorgni með fleiri spurningar en svör. Hvað er þetta sem ég var að horfa á?
Ef heimurinn er svona skelfilegur, ef börn eru látin ganga kaupum og sölum, án þess að fullorðið fólk, sem kann skil á réttu og röngu, geri neitt, þá er hugleysi um að kenna í bland við hreina illsku.
Til hvers lifum við? Hvað myndir þú gera í stöðu flugvallastarfsmannsins sem þarna er rætt við? Er samviska þín til sölu? Er hægt að kaupa sannfæringu þína með mánaðarlegu launaumslagi? Hvert er gildismat okkar? Eru æðstu gæðin þau að geta keypt sér dýr hús og fína bíla, farið til útlanda og á skemmtanir? Eru ekki örugglega til æðri gildi, m.a. sjálft sakleysið, sem eru þess virði að verja?
Ef við teljum það á annað borð vera skyldu okkar að gera gagn, skilja eitthvað gott eftir okkur, bæta líf þeirra sem á eftir koma, þurfum við þá ekki að íhuga alvarlega hvernig við getum nýtt þetta líf okkar sem best? Hvar getum við nýtt krafta okkar og látið gott af okkur leiða? Því minna sem menn hugsa um þessi atriði, því minna sem menn ígrunda líf sitt, því auðveldara er að gera þá að þrælum sem gera það sem þeim er sagt, án þess að spyrja spurninga. Sjálfstæð hugsun er forsenda þess að við getum verið frjáls.
Sá sem lifir í ótta er ekki frjáls. Sá sem beygir sig undir vilja annarra til að forða sjálfum sér frá því sem hann óttast (útskúfun, óvild, ofbeldi, fátækt), sá maður tekur stóra áhættu með eigin sálarheill, þ.e. að tapa sjálfum sér, brjóta gegn eigin samvisku og enda sem skugginn af sjálfum sér, í sjálfsfyrirlitningu.
Enginn maður er eyland, einhlítur sjálfum sér;
sérhver maður er brot meginlandsins, hluti veraldar;
ef sjávarbylgjur skola moldarhnefa til hafs, minnkar Evrópa, engu síður en eitt annes væri, engu síður en óðal vina þinna eða sjálfs þín væri;
dauði sérhvers manns smækkar mig, af því ég er íslunginn mannkyninu;
spyr þú aldrei hverjum klukkan glymur; hún glymur þér.
John Donne (þýð. Stefán Bjarman).
Athugasemdir
Kain reyndi að bjarga sjálfum sér með því að drepa bróður sinn:
Kain færði Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. En Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og af feiti þeirra. Og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans, en til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun.
Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur. Þá mælti Drottinn til Kains: Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur? Er því ekki þannig farið: Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni?
Þá sagði Kain við Abel bróður sinn: Göngum út á akurinn! Og er þeir voru á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann. (1. Mós. 4:3-8).
Við lifum aðeins á þessari jörð til þess að taka próf. Guð vill vita hvort við gjörum það sem er rétt, hið góða fagra og fullkomna, eður ei.
Munum við velja að lifa í anda Abels, sem er viss áhætta, eða kjósum við að lifa í anda Kains?
Hafir þú til þessa lifað líkt og Kain, þá hef ég góðar fréttir fyrir þig: Enn er tækifæri til að breyta um stefnu, með því til dæmis að ganga í Lýðræðisflokkinn og taka upp lífshætti Abels.
Guðmundur Örn Ragnarsson, 6.10.2024 kl. 20:46
Var hann BIBLÍU-Golíat ógn við hann Davíð fjárhirði?
https://en.wikipedia.org/wiki/Goliath
Dominus Sanctus., 7.10.2024 kl. 07:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.