20.10.2024 | 09:34
Klukka landsins
Hver er ástæða þess að klukka er í merki Lýðræðisflokksins?
Klukka er táknræn fyrir vakningu. Í aldanna rás hafa klukkur gegnt því hlutverki að kalla fólk saman, til samveru, til fundar, til máltíðar, til messu og til starfa. Misstórar klukkur hafa ólíka tíðni og hljóma því á ólíkan hátt og hafa mismunandi áhrif, því hljómurinn er tíðni og tíðni er orka. Talið er að klukkur hafi löngum þjónað heilunarhlutverki, m.a. í kirkjum.
Í styrjöldum voru klukkur bræddar og notaðar í vopn. Notkun málms klukknanna var breytt úr því að vera heilandi og uppbyggjandi í niðurrif og dauða. Í Íslandsklukku Halldórs Laxness skipar embættismaður erlends konungsvalds Jóni Hreggviðssyni að skera niður klukku landsins sem kallað hafði menn til Alþingis frá örófi:
En þetta er ekki kirkjuklukka. Þetta er klukkan landsins. [ ] Ég er orðinn gamall maður. Klukkuna þá arna hefur landið altaf átt. Hvur hefur bréf uppá það? sagði böðullinn. Faðir minn var fæddur hér í Bláskógaheiðinni, sagði gamli maðurinn. Einginn á annað en það sem hann hefur bréf uppá, sagði kóngsins böðull. Ég trúi það standi í gömlum bókum, sagði öldúngurinn, að þegar austmenn komu hér að auðu landi hafi þeir fundið þessa klukku í einum helli við sjó, ásamt krossi sem nú er týndur. Mitt bréf er frá kónginum segi ég, sagði böðullinn. Og snautaðu uppá þekjuna Jón Hreggviðsson
Klukka Lýðræðisflokksins er táknræn á margan hátt og áminning um mikilvægi þess að hver og einn vakni til vitundar um mikilvægi sitt í samfélaginu. Saman getum við gert kraftaverk, íslensku þjóðinni og framtíð landsins til heilla.
Athugasemdir
Gangi þér vel og vonandi komist þið inná þing og til áhrifa. Klukkan er táknræn og passar fyrir þessa tíma þegar þörf er á slíku ákalli og vakningu. Margir eru nú að vona að VG komist inná þing, en ætli það sé ekki meiri þörf á nýjum flokki eins og ykkar, sem hafið skapari áherzlur og hafið ekki bakað ykkur sömu óvinsældir og VG.
Því miður erum við Íslendingar oft lengi að taka við okkur. Það er eins og sú inngróna minnimáttarkennd hverfi ekki, að þegar Íslendingur segir eitthvað þá yppta menn öxlum, eða glotta en þegar útlendingar segja það, þá er það eitthvað valið til vinsælda.
Ég held að Miðflokkurinn dugi ekki til mótspyrnu gegn eyðileggingaröflunum. Ég held að til þess þurfi 2-3 sterka flokka sem eru ráðandi og Lýðræðisflokkurinn talar skýrast um frelsi og sjálfstæði, og þarf helzt að komast í stjórn. Það er búið að normalísera svo mjög að vinna gegn þjóðarhagsmunum, að mikil þörf er á vakningu. Sem betur fer eru landsmenn að taka við sér, Miðflokkur og Flokkur fólksins að stækka.
Eins og Ómar Geirsson fjallar um í nýjum pistli um Samfylkinguna, þar er hægt að finna valdagræðgi og peningagræðgi. Ef fólk áttar sig á því fer eitthvað af nýju fylgi Samfylkingarinnar á ykkur og þið farið inná þing og standið vörð um sjálfstæðið. Vonandi.
Ingólfur Sigurðsson, 20.10.2024 kl. 14:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.