6.11.2024 | 11:37
Kristalskúlur brotna þegar þær mæta raunveruleikanum
Í umræðum um mikilvægustu landsmál (stjórnmál, vírusa o.fl.) hafa stjórnvöld og fjölmiðlar kosið að reiða sig á tölfræðileg gögn, annars vegar skoðanakannanir og hins vegar spálíkön. Smám saman er almenningur að átta sig á að mjög óhollt geti verið að gleypa hráar þær tölur sem fjölmiðlar halda að okkur frá degi til dags.
Hvernig ber annars að skilja misræmið milli spádómanna og veruleikans? Síðast í gær voru allir stóru (ríkisreknu og ríkisstyrktu) fjölmiðlarnir sammála um að forsetakosningarnar í USA yrðu hnífjafnar. Í dag kemur í ljós að Trump er að sigra með umtalsverðum mun.
Hver gæti verið skýringin á því að spálíkönin bregðast ítrekað? Er innbyggð skekkja / óskhyggja / skoðanamótun til staðar hjá þeim sem framleiða tölfræðina? Er ekki verið að horfa nægilega vítt fyrir sviðið? Eru sumir þjóðfélagshópar útilokaðir þegar verið er að útbúa þessi gögn? Eru gögnin mögulega beinlínis framleidd í þeim tilgangi að hafa áhrif á hegðun fólks?
Hvernig stendur á því að frambjóðandi Demókrata, sem síðustu vikur hefur verið lofuð alls staðar fyrir kjörþokka og vitsmuni, skilar alls staðar verri úrslitum en Biden sem háði kosningabaráttuna 2020 úr kjallaranum heima hjá sér?
Voru kjósendur Trumps feimnir við að opinbera val sitt? Voru þeir mögulega sniðgengnir meira en aðrir við gerð skoðanakannana? Hver gæti verið skýringin á því að skoðanakannanir gefa ítrekað skakka mynd?
Hvenær kemur að því að kjósendur hætta að láta fjölmiðla mata sig á lélegu efni ... og fari þess í stað að hugsa sjálfstætt og kjósa með hjartanu?
Athugasemdir
Arnar Þór Jónsson. Nú hafa orðið vatnaskil. Því augu fólks, um allan heim eru að opnast og menn sjá að Djúpríkið er raunverulegt, alþjóðlegt, ekki bara einhver samsæriskenning. (Sjá pistil Birgis Loftssonar á blog.is í dag).
Á Íslandi er Djúpríkið jafnvel illvígara en í Bandaríkjum Norður Ameríku, eins og þú og fleiri hafa bent á. Djúpríkinu hér heima hefur tekist fram að þessu, að telja meirihluta okkar þjóðar trú um að fyrir Bandaríkin sé Donald Trump mein, en nú fyrst sjá menn, að hann er lækning fyrir heiminn. Það er jafnvel að renna upp fyrir Birni Bjarnasyni. (Sjá pistil hans hér á blog.is í dag). Gæti verið að það rynni einnig upp fyrir Birni að hinn nýi Lýðræðisflokkur er hinn sanni sjálfstæðisflokkur, lækning fyrir Ísland vilja menn við lækningunni taka?
Guðmundur Örn Ragnarsson, 6.11.2024 kl. 20:21
Djúpríkið og þjónar þess, fjölmiðlarnir, gera allt til að stjórna því hvernig fólk á að kjósa. Þetta sást glögglega í Bandaríkjunum, en fólk sem mundi hvernig það var að hafa Trump sem forseta ákvað sjálft, án þess að láta pressuna segja sér, hvernig það átti að kjósa. Fullt af fyrrum Demókrötum snéri sér við og sáu að hann væri sá sem það vildi sem forseta sinn. Nú þarf Trump að huga vel að því hvernig Demókratar starfa og gæta sín á því hvernig þeir koma ár sinni fyrir borð.
Þetta sama á sér stað hér á landi, við megum ekki láta RÚV, Stöð2 og aðra fjölmiðla sem ríkið var duglegt að koma peningum á, segja okkur hvernig við eigum að kjósa í komandi kosningum 30.nóvember.
Tómas Ibsen Halldórsson, 7.11.2024 kl. 14:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.