16.11.2024 | 13:28
Viltu breytingar? Kjóstu þá breytingar
Lýðræðisflokkurinn var stofnaður á leifturhraða. Á leifturhraða tókst að stilla upp framboðslistum og bjóða fram í öllum kjördæmum. Í framhaldi hafa dunið á frambjóðendum spurningalistar, viðtalsbeiðnir, framboðsfundir, sjónvarpsupptökur o.s.frv.
Þegar hraðinn er þessi er mikilvægt að undirstrika að flokkurinn er stofnaður á skýrum grunni og hefur skýran tilgang, þ.e. að minna á að ríkið var stofnað til að þjóna fólkinu í landinu en ekki öfugt. Allt vald ríkisins stafar frá fólkinu, sem er hinn sanni valdhafi, ekki báknið, ekki skrifstofuveldið, ekki embættismennirnir, ekki sérfræðingarnir. Ríkið hefur það meginhlutverk að verja frelsi fólks, eignir þess og frið.
Stefna flokksins er skýr og góð. Hana má finna inni á vefsíðu flokksins. Frambjóðendur hafa áfram sínar persónulegu skoðanir og sitt málfrelsi, en stefna flokksins talar sínu máli og að henni viljum við öll vinna, því þar er neistinn sem drífur þetta allt áfram.
Framboð Lýðræðisflokksins hefur nú þegar haft góð áhrif: Skyndilega eru ríkisflokkarnir orðnir sammála um að lækka beri vexti (!), herða á landamæragæslu (!) o.fl. Frammi fyrir þessu nýja viðmóti þurfa kjósendur að gera upp við sig hvort þeir sem bjuggu til flækjur, kostnað og vandamál séu best til þess fallnir að leysa vandann.
--
E.S.
XL er að keppa við ofurefli ríkisflokka sem hver um sig ver tugum milljóna (af almannafé!) í ímyndarhönnun og kosningaauglýsingar. Ef þú trúir því að unnt sé að breyta íslensku stjórnarfari til hins betra þá máttu leggja okkur lið, t.d. með því að styrkja flokkinn.
Athugasemdir
Arnar Þór Jónsson, samkvæmt skoðanakönnunum eru margir ákveðnir í hvað þeir ætla að kjósa, en merkilegt nokk, fleiri en helmingur kjósenda eru enn að skoða hug sinn, því góðir kostir eru fáir, því spilling virðist ráða ferðinni hjá flestum flokkanna.
En vonandi sér stór hluti hinna óákveðnu að þinn flokkur hefur bestu stefnuskrána og er með hreinan skjöld, það er Lýðræðisflokkurinn.
Og er Jesús kom nær og sá borgina, grét Hann yfir henni og sagði: Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi, hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum. Því að þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér, vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma. (Lk. 19:41-44).
Í byrjun mánaðarins kusu Bandaríkjamenn sér forseta, sem mun leiða Þjóðina í fjögur ár. Donald Trump varð fyrir valinu. Fyrir mér var niðurstaða þeirrar kosningar, vitnisburður um að þjóð hafi þekkt sinn vitjunartíma og brugðist rétt við.
Nú fer sá dagur í hönd, í lok nóvembermánaðar, að við kjósum okkur leiðtoga sem munu leiða okkar þjóð í fjögur ár. En allt bendir til að við þekkjum ekki okkar vitjunartíma.
En spyrjum að leikslokum.
Guðmundur Örn Ragnarsson, 16.11.2024 kl. 19:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.