Jörðin er þín og það sem lífið býður

Ef þú átt ró, er aðrir æðrazt hafa
og uppnám sitt og vanda kenna þér,
ef traust þín sjálfs er vaxið allra vafa,
og veiztu þó, að hann á rétt á sér,
ef kanntu í biðraun þoli þínu að halda
og þreyta án lygi tafl við grannans róg,
og láta ei heiftúð hatur endurgjalda,
en hafa lágt um dyggð og speki þó, – 

Ef draumum ann þitt hjarta og hönd þín dáðum
ef hugsun fleygri verðugt mark þú átt,
ef sigri og hrakför, blekkingunum báðum,
Þú brugðizt getur við á sama hátt,
ef sannleik þínum veiztu snápa snúa
í snörur flóna, en bugast ekki af því,
og lítur höll þíns lífs í rústamúga,
en lotnu baki hleður grunn á ný, – 

Ef treystist þú að hætta öllu í einu,
sem ævilangt þér vannst, í hæpið spil,
og tapa – og byrja á ný með ekki neinu
og nefna ei skaðann sem hann væri ei til,
ef færðu knúið hug og hönd til dáða,
er hafa bæði þegar lifað sig,
og þú átt framar yfir engu að ráða,
nema aðeins vilja, er býður: Stattu þig!  

Ef höfðingi ertu í miðjum múgsins flokki
og málstað lýðsins trúr í konungsfylgd,
ef hóf sér kunna andúð þín og þokki,
og þó ertu ávallt heill í fæð og vild,
ef hverri stund, er flughröð frá þér líður,
að fullu svarar genginn spölur þinn,
er jörðin þín og það, sem lífið býður,
og þá ertu orðinn maður, sonur minn!

Rudyard Kipling (þýð. Magnús Ásgeirsson)

If (Rudyard Kipling)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Arnar Þór Jónsson, þó að samlandar þínir hafi nú hafnað boðskap þínum í annað sinn á einu ári, þá veit ég að þú gefst ekki upp. Guð hefur kallað þig og gefið þér kraft til þess að vitna um Ljósið inn í þjóðarsálina, og það hefur þú gert.

Ljóðið eftir Rudyard Kipling í þýðingu Magnús Ásgeirsson talar augljóslega skírt til þín, og einnig mín. Þú hefur ekki brugðist Guði, ekki Íslendingum, né sjálfum þér, þú fórst rétt að og ert á réttri leið.

Þegar fólkið í Nazaret hafnaði Jesú strax í upphafi þjónustu Hans í Ísrael, sagði Hann: Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu. (Lúk. 4:24). Í einu af trúarriti Gyðinga, Talmud, segir: Sá sem bjargar einu mannslífi, bjargar öllum heiminum. – Það hefur þú nú þegar gert.

Guðmundur Örn Ragnarsson, 2.12.2024 kl. 16:13

2 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Sæll Guðmundur og takk fyrir kveðjuna. Kristur kenndi að menn ættu að láta ljós sitt skína og settu það á ljósastiku en ekki undir mæliker. Mönnum er því skylt að leita sannleikans og tjá það sem við teljum okkur geta greint. Svo mega aðrir velja og hafna. í gær og í dag hafa margir greint niðurstöðurnar með sínum orðum. Einn sagði mig geta glaðst yfir því að vera kominn í hóp sögufrægra manna sem öll alþýða manna hefði afdráttarlaust hafnað! Annar sagðist hallast að því að Íslendingar væru upp til hópa andlega fjarverandi. Sannleikurinn um mig og þjóðina gæti legið einhvers staðar á milli þessara póla :). En þessi reynsla var á margan hátt dýrmæt og verður hluti af mínu andlega þroskaferli. Góð kveðja, Arnar. 

Arnar Þór Jónsson, 2.12.2024 kl. 20:28

3 identicon

Sæll Arnar Þór,

Ég er ánægður að ég kaus með hjartanu bæði í forsetakosninunum og alþingiskosningunum og í bæði skiptin kaus ég þig. Ég er einn af þeim 2215 sem kusu flokkinn þinn á laugardaginn og ég er bara ánægður að ég hlustaði á mína innri rödd. Mér finnst bara ótrúlegt að horfa á þig með stuðning fjölskyldunnar og vina berjast áfram á móti straumnum í tveimur kosningum á einu ári. Það er alveg ljóst að þessi slagur er ekki fyrir hvern sem er og drifkrafturinn og hugsjónin sem þú býrð yfir aðdáðunarvert.

Þó svo að 2 bardagar hafa tapast þá tekur þú skrefið afturábak og safnar saman vopnum og tekur svo slaginn seinna með meiri reynslu og þroska á bakinu.

Trausti (IP-tala skráð) 3.12.2024 kl. 12:40

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og tíu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband