24.12.2024 | 09:06
Með ósk um bjarta framtíð
Rétt er að óska Íslendingum til hamingju með nýja ríkisstjórn, sem kom saman á ríkisráðsfundi nú fyrir jólin. Íslendingar kusu þessa flokka á grundvelli loforða sem gefin voru fyrir kosningar. Ákvarðanir sem teknar verða nú og á næstu árum gætu ráðið úrslitum um svo margt og áhrifin reynst óafturkræf EF:
- Risavaxið ríkisbáknið verður þanið enn meira á kostnað persónufrelsis og fjárhags skattgreiðenda.
- Unnið verður að því að framselja vald úr landi til alþjóðlegra stofnana (eins og WHO) og yfirþjóðlegra stofnana (eins og ESB).
- Unnið verður að því að vernda og jafnvel efla rétt erlendra fjárfesta til að koma höndum yfir íslenskar auðlindir (þ.m.t. vatn, land og orku).
- Skuldasöfnun ríkissjóðs heldur áfram og verður að lokum svo sligandi að ,,lausnin" á fjárhagsvanda ríksisins verður sú að selja Landsvirkjun. Þeir sem kaupa Landsvirkjun munu vinna hörðum höndum að því að tengja Ísland við meginlandið með sæstreng því tengingin mun tífalda verðmæti fjárfestingar þeirra, en framkalla tap hjá íslenskum almenningi og fyrirtækjum með því að margfalda verð á raforku hér innanlands.
- Vindorkuver munu rísa um allt land með tilheyrandi sjónmengun, plastmengun, jarðvegsrofi, hljóðmengun o.fl.
- Hælisleitendamálin verða áfram í ólestri með tilheyrandi kostnaði og álagi á innviði sem þegar eru farnir að svigna.
- Íslensk tunga verður gengisfelld enn frekar. Íslendingar munu fara að upplifa sig sem útlendinga í eigin landi.
- Straumur erlendra lagareglna, sem ætlað er að þjóna ,,hinum sameiginlega markaði" 400 milljóna manna fremur en hagsmunum tæplega 400.000 manna þjóðar, mun halda áfram að þyngjast þegar ný ríkisstjórn sameinast um að láta undan þrýstingi ESB og samþykkja frumvarp um bókun 35 og koma þannig á réttareiningu sem gengisfellir Alþingi og opnar flóðgáttir ,,framsækinnar" túlkunar í gegnum markmiðsyfirlýsingar sem taldar verða fela í sér alls konar skuldbindingar sem hvorki íslenskir þingmenn né almenningur hafði leitt hugann að.
Binda verður vonir við það að þetta ágæta fólk muni loforðin sem þau gáfu kjósendum og vinni að því að verja hag landsmanna fremur en erlendra stofnana og fjarlægs valds. Ekki er víst að hnattvæðing og valdasamþjöppun í erlendum borgum þjóni hagsmunum Íslands.
Í aðdraganda kosninganna hrukku margir frá borði sem ætluðu að kjósa Lýðræðisflokkinn og kusu út frá skoðanakönnunum en ekki út frá eigin sannfæringu, svo að "atkvæði þeirra félli ekki dautt". Hér er þá samviskuspurning: Er vel farið með atkvæðisréttinn þegar menn kjósa flokka sem reyndir eru að því að svíkja kosningaloforð og nýrri flokka sem gera það sama strax eftir kosningar?
Flokkur fólksins vann sigur í kosningnunum með því að lofa að "útrýma fátækt" (!) og lofa hundruðum milljarða úr ríkissjóði Íslands, sem þó skuldar nú þegar 1800 milljarða króna. Í kosningabaráttunni var öllu lofað til að fá ráðherrastóla ... og nú er strax verið að snúa við blaðinu:
Hér er Inga Sæland með hástemmdar yfirlýsingar fyrir kosningar.
Hér er kollegi hennar í ríkisstjórninni, Eyjólfur Ármannsson, að tala um það fyrir kosningar að frumvarpið um bókun 35 brjóti í bága við stjórnarskrá. Og hér er hann strax eftir fyrsta ríkisstjórnarfund búinn að svæfa samvisku sína og farinn tala á allt annan hátt.
Frammi fyrir öllu þessu er eina huggunin sú að hafa gert allt sem í okkar valdi stóð til að afstýra því tjóni sem mögulega verður unnið á næstu misserum. Við buðum fram heiðarlegan valkost til að verja Ísland fyrir ásælni erlends valds, til að andmæla hermangi og stríðsæsingum, til að vera rödd friðar og sátta, til að framkalla aðhald og sparnað í ríkisrekstri, til að andmæla ósannindum og einhliða áróðri fjölmiðla, til að verjast atlögum lyfjaiðnaðar sem heldur hormónabælandi efnum að börnum og unglingum, til að koma klassísku frjálslyndi aftur á dagskrá í heimi sem er svo litaður af kreddum og pólitískri þröngsýni.
En ekki þarf allt að fara á versta veg og gæfan verður okkur vonandi hliðholl. Ég skora á Íslendinga að veita ríkisstjórninni aðhald og minna ráðherra reglulega á fyrir hvern þau eru að starfa.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning