29.12.2024 | 10:47
Þrek til að velja
Eftirfarandi setning Hannesar Jónssonar, sem ég vitnaði til í gær, hélt fyrir mér vöku í nótt: ,,Er nokkur hugsandi Íslendingur svo aum undirlægja að vilja þessa framtíð fyrir Ísland?"
Eru Íslendingar nútímans ,,hugsandi fólk"? Er hlutfallið hærra meðal annarra þjóða? Hversu margir vilja framselja hugsun sína til annarra, eins og t.d. þessi kona hér, sem vonandi hefur lært af reynslunni og svarar betur næst þegar á hana reynir. Hversu margt er það ekki í umhverfi okkar sem kemur í veg fyrir hugsun: Ótti, hjarðhegðun, venjur, merkingarlaus sjónvapsfroða o.fl. En gengur ekki allt bara vel? Erum við ekki rík og heppin? Ætli fólk hafi hugsað á sama hátt áður en Róm féll ... og áður en Babýlon féll? Hvernig fer fyrir fólki sem ekki hugsar? Sem ekki tekur ábyrgð á sjálfu sér, eigin heilsu, samfélagi sínu, framtíð sinni?
Við höfum val: Viljum við stjórnast utan frá eða innan frá? Viltu lifa eftir fyrirskipunum annarra, í ótta við yfirvaldið og hugsanlega refsingu ... eða viltu taka stjórn á þínu eigin lífi, taka ábyrgð á sjálfum þér? Heitir það ekki frelsi? Falla ekki alls konar hlekkir í burtu þegar þú hættir að stjórnast af óttanum? Þegar þú ferð að lifa á þínum eigin forsendum en ekki annarra? Hver er skipstjórinn á þinni skútu, þú sjálf / sjálfur eða einhverjir aðrir?
Við getum hugsað. Ef við bara þorum að hugsa. Hver og einn maður er ljós. Hvert einasta ljós skín í myrkrinu. Allt myrkur heimsins getur ekki slökkt þetta ljós.
Hvers vegna lifum við? Er það til að þóknast öðrum? Til að vera á stöðugum flótta? Lifum við til að fela okkur? Til að standa í skjóli annarra manna skoðana og láta stjórnast af þeim? Eða snýst þetta líf um að reyna á sig, nýta þá krafta og hæfileika sem okkur hafa verið gefnir? Við höfum val. Okkur ber að velja hið rétta, sanna, fagra og góða. Ef við raunverulega viljum gera heiminn að betri stað, þá þurfum við að þora að hugsa - og velja.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning