Á nýju ári getum við valið bjartari tóna

Á nýju ári, sem vonandi verður öllum gott og gleðilegt, munum við standa frammi fyrir sama vali og áður: Ætlum við að stjórna vegferð okkar sjálf eða leyfa öðrum að stýra ferðinni? Þetta á við um okkur bæði sem einstaklinga og okkur sem þjóð. Þetta er val sem snýst í raun um það hvort við viljum (og þorum) að vera frjáls.

,,Hver er þá fráls? Hinn vitri maður sem getur stjórnað sjálfum sér" (Horace 65-8 f.Kr.).

Ef við ætlum að velja frelsi en ekki helsi, þá verðum ekki aðeins að hafa vit, heldur einnig hugrekki til að þora að neita að beygja sig undir ósannindi, hjarðhegðun, múgæsingu (og stríðsæsingu), hótanir og illsku. Í stuttu máli þýðir þetta að ef við viljum vera frjáls þá þurfum við að þora að berjast fyrir því sem er satt og rétt, því hlutlægur sannleikur er til: Við erum siðferðisverur í heimi sem knýr okkur til að velja milli góðs og ills, milli ljóss og myrkurs.   

Að því sögðu veit ég að margir (flestir?) leggja á flótta undan þessari áskorun og kjósa værukærð / andvaraleysi / deyfingu / afþreyingu sem hneppir okkur í þrældóm, sbr. spádóma Aldous Huxley í bókinni Veröld ný og góð (e. Brave New World), sem allir hefðu gott af að lesa. Eða er kannski enginn að lesa neitt lengur? Á nýliðnu ári hitti ég háskólagengið fólk sem gefur sér ekki lengur neinn tíma til að lesa bók (né hlusta hljóðbækur). Hvernig tökum við afstöðu þegar við lesum ekkert, gefum okkur aldrei tíma? Ef við viljum vera frjáls og taka ábyrgð á okkur sjálfum krefst það lágmarksviðleitni, sem gæti t.d. falist í því að velja tíðni / sjónarhorn, því efnisheimurinn stjórnast af tíðni sbr. þetta hér. Fólk sem leyfir öðrum að velja tíðnisviðið getur (óafvitandi) verið að dæma sig til ánauðar.  tíðni

Innilegar þakkir til allra þeirra sem lögðu baráttunni lið á árinu 2024. Þið eruð nauðsynleg forsenda þess að samfélag okkar einkennist í meira mæli af jákvæðni, von og birtu.

,,Við verðum að þora, og þora aftur, og halda áfram að þora." (George Jacques Danton 1759-1794)

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Gleðilegt nýtt ár Arnar Þór Jónsson.

Þökk sé þér fyrir baráttu þína á liðnu ári fyrir frelsi þjóðar okkar. Fyrir að gefa kost á þér til embættis Forseta Íslands, og fyrir framboð þitt til Alþingis.

Með því gafst þú okkur Íslendingum tækifær í tvígang, til að losna úr þeim óheillafjötrum sem við höfum flækst í á undanförnum árum, jafnvel þótt við bárum ekki gæfu til að þiggja lausn.

Ég trúi því samt að þú gefist ekki upp á okkur, Íslenskri þjóð.

Áður en haninn galaði í tvisvar, hafnaði Pétur Jesú þrisvar. Jesús gafst samt ekki upp á Pétri. Hann varð höfuð kirkju Krists. (Mk. 14:66-77):

Guðmundur Örn Ragnarsson, 1.1.2025 kl. 14:41

2 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Gleðilegt nýtt ár Arnar Þór og þakka þér fyrir þau störf og skrif sem þú áorkaðir á liðnu ári. Þó svo að við höfum ekki enn horft uppá sigur, landi og þjóð til hagsbótar, þá eigum við enn von um uppskeru þó síðar verði.

Guð gefi þér og þínum ár blessunar og friðar, megi Drottinn leiða þig áfram veginn til sigurs fyrir land okkar og þjóð.

Tómas Ibsen Halldórsson, 1.1.2025 kl. 19:25

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og fjórtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband