13.1.2025 | 10:44
Burt með fjölmiðlanefnd
Í framhaldi af færslu gærdagsins, þá vil ég hvetja nýkjörið Alþingi til að skoða rækilega framgöngu Fjölmiðlanefndar í kófinu og leggja stofnunina niður í beinu framhaldi, enda liggur ljóst fyrir að þessi ónauðsynlega stofnun hefur dæmt sjálfa sig úr leik. Það gerði hún með því að ráðast gegn því sem henni er ætlað að vernda, þ.e. tjáningarfrelsi almennings. Sykurbergur hefur í nýju viðtali flett ofan af ritskoðuninni sem var í gangi á þessum tíma. Í þingræðu 16.11.2022 sagði ég m.a. um þetta:
Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Það segir í 1. gr. stjórnarskrárinnar. Ísland er ekki lýðveldi með stjórnbundnu þingi eins og hefði mátt ætla af stjórnarfarinu hér meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð. Besta vörn almennings gagnvart ofríki er fólgin í valddreifingu. Hún er fólgin í því að verja þingræðið. Hún er fólgin í því að verja tjáningarfrelsið. Ég vil meina að allt þetta hafi brugðist í kórónuveirufárinu og það sé sérstakt rannsóknarefni hvernig ríkisstofnanir á borð við fjölmiðlanefnd, sem hefur það hlutverk að eiga að verja frjálsa tjáningu og frjálsan aðgang fólks að upplýsingum, snerist gegn þessu hlutverki sínu og kallaði eftir ritskoðun og stuðlaði að því að blaðamenn yrðu skilgreindir sem framlínufólk með þeim afleiðingum að þeir hættu að vera varðhundar almennings gagnvart stjórnvöldum og snerust gegn almenningi með því að gerast gagnrýnislausar málpípur stjórnvalda.
Virðulegi forseti. Það er hlutverk stjórnmálanna að standa vörð um fleira en heilsu fólks. Stjórnun samfélags er jafnvægislist og í því samhengi gegnir tjáningarfrelsi lykilhlutverki til að verja lýðræðislega stjórnarhætti og lýðræðislegir stjórnarhættir snúast um að samstilla mismunandi sjónarmið og hagsmuni. Þetta er jafnvægisstillingarhlutverk stjórnmálanna og það er hlutverk okkar allra að veita aðhald og ræða mál í nægilega víðu samhengi svo unnt sé að finna hvar meðalhófið liggur. Heilbrigð stjórnmál eiga að skapa vettvang utan um frjálsa umræðu en ekki umræðubann og ekki ritskoðun og ekki það að opinberar nefndir eins og fjölmiðlanefnd ætli að taka það að sér að stýra því hvað kemur fyrir augu almennings á Íslandi. Ég tel að fjölmiðlanefnd hafi fyrirgert tilverurétti sínum með framgöngu sinni á tímum kórónuveirunnar með því að leita til erlends fyrirtækis og siga því á Íslendinga í þeim tilgangi að láta ritskoða það sem Íslendingar létu frá sér. Þetta er grafalvarlegt mál
Ég tel að við hér eigum, með tjáningarfrelsið og þingræðið að vopni, að stuðla að friði og jafnvægi. Það er engin betri vörn en að þingið láti til sín taka en láti það ekki endurtaka sig, eins og hér hefur verið bent á og er bent á í þessari skýrslu, að sitja hjá aðgerðalaust og horfa á meðan fámennisstjórn, sérfræðingaveldi og einhvers konar tækniveldi tekur öll völd og lokar fyrir umræðu, bælir niður gagnrýni o.s.frv. Við hljótum að geta staðið betur vörð um borgaraleg réttindi. Við verðum að gera það næst þegar einhver svipuð vá knýr dyra.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning