14.1.2025 | 08:27
Öfug forgangsröðun
Ástæða er til að hafa áhyggjur af væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að ESB, því Íslendingar virðast hafa svo sérstakan áhuga á að vera "international". Óvísindaleg kenning mín er sú að þessi áhugi eigi sér rót í minnimáttarkennd (meðvitaðri og ómeðvitaðri) yfir því að þessi þjóð bjó þar til nýlega í moldarkofum, auralaus og valdalaus. Til að fjarlægjast þessa myrku fortíð aldalangrar niðurlægingar sækja Íslendingar mjög í allar nýjungar, falla fyrstir fyrir erlendum tískubylgjum, vanrækja sína eigin sögu, gildi, hefðir o.fl. Ein alvarlegasta myndbirting þessa flótta birtist í vanhirðu um eigið tungumál, sem með sama framhaldi verður ekki annað en hilluskraut eftir tvær kynslóðir.
Þótt hin fræga vísindaskáldsaga Aldous Huxley hafi hvorki verið skemmtileg né spennandi ásækir hún mig í vöku og draumi. Huxley lýsti því hvernig almúginn var lyfjaður, leiðitamur (e. docile) og deyfður með innihaldslausri afþreyingu. Allt þetta hugsaði ég í stuttri bílferð í gær þar sem ég hlustaði á samtal í útvarpinu um lítt þekkta kvikmyndastjörnu og myndir sem hún hefur leikið í. Allur heimsins tími var til ráðstöfunar fyrir þetta samtal. Ekkert lá á, öfugt við það þegar frambjóðendur koma í stúdíóið til að ræða um landsins gagn og nauðsynjar undir stöðugum frammíköllum. Er þetta ekki til marks um einkennilega forgangsröðun? Einn af þeim sem fann upp sjónvarpið sagðist hafa verið gráti nær þegar hann sá hvernig tæknin, sem hann ætlaði að yrði notuð til menntunar, var misnotuð til að afmennta fólk og forheimska það. Enda er forgangsröðunin víða skrýtin, því þegar ég skipti loks yfir á aðra stöð heyrði ég viðmælanda Gunnars Smára Egilssonar segja (sennilega réttilega) að þeir sem bjóða sig fram undir merkjum friðar og heiðarleika eigi ekki séns hjá kjósendum, því fólk falli fyrir "aggressífum" frambjóðendum.
En hvaða sögu segir þetta allt um íslenska kjósendur? Sennilega að mikil hætta er á að þeir muni fylgja að málum þeim sem halda á lofti fánum ESB og NATO, þeim sem vilja framselja vald úr landi, auka enn í vopnakaup og gera Ísland meira "international" jafnvel þótt það þýði að við sitjum eftir með minni völd og minni auð, því ljóst er að Ísland verður aldrei annað en útkjálki í ríkjasambandi sem er á hraðri efnahagslegri niðurleið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning