Stórfrétt ... sem ekki ratar í fréttirnar.

Tilgangur menntunar er að opna huga fólks, ekki loka honum. Íslendingar búa við enn meiri fábreytni í menntun og fjölmiðlun en aðrar þjóðir. Við förum fyrst í gegnum miðstýrt, einsleitt menntakerfi sem stuðlar að hjarðhegðun, hlýðni og hjarðhugsun, en hvetur ekki í nægilegum mæli til sjálfstæðrar hugsunar. Allt frá grunnskóla og upp í háskóla er okkur innrætt hvernig við eigum að hugsa og hvaða skoðanir við megum hafa / eigum að hafa: Í pólitík, á loftslaginu o.fl.  

Þegar skólakerfið sleppir loks höndunum af okkur taka fjölmiðlarnir við. Ef yngri kynslóðir hafa fengið stranga innrætingu í skólagöngu sinni, þá þiggja eldri kynslóðir sína innrætingu ennþá í ótrúlega miklum mæli frá Ríkisútvarpinu og öðrum ríkisstyrktum fjölmiðlum sem velja hvað er á dagskrá og þar með hvað er í umræðunni. Með félagsþrýstingi má svo stýra hegðun fólks í stærstu málum. Ef menn vilja dæmi má m.a. benda á valdbeitingu ríkisins í "kófinu" og hjarðhegðun almennings sem lét smala sér í hjarðir, andmælalaust. 

Sem fámenn örþjóð á útjaðri áhrifasvæða Bandaríkjanna og ESB eru Íslendingar þjakaðir af minnimáttarkennd og sýna ríka tilhneigingu til að leita skjóls í hóp, hjörð eða undir verndarvæng stærri ríkja. Aldalöng kúgun gæti hafa mótað andlegt líf þjóðarinnar að þessu leyti. Í framkvæmd birtist þetta m.a. í því að menn veigra sér við að tjá hugsun sína, gagnrýna valdhafa hvers tíma, veita aðhald o.s.frv. Afleiðingin er m.a. sú að skrifræðið verður of valdamikið og ákvarðanir færast í reynd frá kjörnum fulltrúum til tæknimanna. Þeir sem styðja það fyrirkomulag eru ekki lýðræðissinnar heldur skrifræðissinnar sem styðja tilurð tækniveldis, sem leysir lýðveldið af hólmi. Tækniveldi eru hættuleg almenningi, því þar er valdið samþjappað og ekki dreift. Í tækniveldi hefur almenningur engin áhrif á meðferð valdsins og afleiðingin verður að lokum sú að valdi er misbeitt. 

Þegar valdi er misbeitt, ýmist með því að valdhafar horfa fram hjá alvarlegu misferli sumra en beita valdi gegn öðrum; þegar ríkisvaldið er farið að þjóna tiltekinni hugmyndafræði; þegar vildarvinir eru settir á ríkisjötuna; þegar fjölmiðlar og stjórnmálaflokkar eru orðnir háðir ríkisstyrkjum; þegar stjórnkerfin eru farin að endurnýjast innanfrá; þegar ákvarðanir eru teknar af ósýnilegu fólki sem svarar ekki til ábyrgðar gagnvart þeim sem búa við ákvarðanirnar; þá er orðið til það sem á ensku er nefnt "failed state". Í nýju viðtali gerir Liz Truss, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands þetta að umfjöllunarefni. Hún segir Breta vera að vakna til vitundar um að þeir búi í "failed state". Í sömu andrá segir hún frá því hvernig skuggastjórnendur tóku fram fyrir hendur hennar og komu í veg fyrir að hún hrynti hugmyndum sínum í framkvæmd. Aðspurð segir Truss að hún sé með þessu að lýsa því sem kalla verði djúpríki (e. deep state). Yfirlýsingar Truss eru afhjúpandi og ættu að vera í heimsfréttum, þ.e. ef fréttamiðlar væru að þjóna almenningi en ekki eigendum sínum.

En djúpríkið er ekki til á Íslandi. Um það eru háskólakennarar og fjölmiðlamenn sammála, enda er Ísland svo lítið, saklaust og krúttlegt. 

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og fimm?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband